
Gólem eftir Steinar Braga
„Við erum öll líkön. Sjálf okkar eru líkön hýst í taugum. Efni er líkan borið upp af orku og hraða.“ bls. 325
Gólem er nýjasta skáldsaga Steinars Braga sem hefur í gegnum tíðina hrætt landann með spennandi og óhugnanlegum frásögnum af ævintýralegum hryllingi sem bíður handan við horn hversdagsleikans.
Framtíð og fortíð
Í Gólem ræðst höfundur ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur spinnur upp heila veröld í anda náframtíðarskáldskapar, þar sem dystópían vefur sig um stoðir þess raunveruleika sem við þekkjum sjálf en við það blandar saman tímaflakki, tækniundrum, sálarferðalögum og endalausum dauða.
Aðalpersónan okkar er ung kona sem hefur það að atvinnu að deyja. Hún er tekin af lífi í stýrðu umhverfi, þar sem sérfræðingar passa að allt fari vel fram. Eftir dauða sinn vaknar hún svo upp í framtíðinni í líkama vinkonu sinnar og er með eitt verkefni sem hún verður að ljúka áður en hún snýr aftur til síns eigin tíma og líkama.
Njósnir og eltingaleikir
Lesandanum er kastað inn í æsispennandi atburðarás þar sem aðalpersónan er elt á röndum, beitir brögðum til að sleppa, njósnar snilldarlega um viðfang sitt og nýtir alla þjálfun sína í að ná markmiðinu. En markmiðið er ekki, eins og ég hélt í fyrstu, að drepa neinn, heldur þvert á móti að bjarga. Í ljós kemur að aðalpersónan okkar vinnur hjá dularfullu fyrirtæki sem bjargaði henni barnungri úr erfiðum aðstæðum og ól hana sérstaklega upp til þess að læra að deyja og flakka um tíma, rúm og milli líkama. Hugmyndin er fersk og skemmtileg og eitt það allra besta við söguna er að höfundur útskýrir heiminn nægilega vel til að lesandi kaupir alveg af hverju tímaflakkið er eins og það er án þess að það drekki honum í smáatriðum. Það sem pirrar mig mest við svona sögur, ef þær eru ekki skrifaðar nægilega vel, er þegar það er eitthvað sem meikar ekki sens. Til dæmis ef það þarf að drepa persónuna en lesanda er ekki sagt sannfærandi hvers vegna það var ekki farin auðveldari leið, þá truflar það. En Steinari Braga tekst að skauta fram hjá öllum gloppum í söguuppbyggingu og skila snilldarlegu plotti sem að hittir í mark.
Ég las þessa bók í einni beit um jólin, hafandi fengið hana að gjöf. Ég var ótrúlega ánægð með bæði hversu djúp og góð hún er og hversu auðlesin og skemmtileg aflestrar hún er. Höfundur sýnir einstaka snilld í skrifum sínum sem og frásagnarhæfileikum, persónusköpun og sköpun spennu. Og spennan í sögunni er ekki byggð upp á ódýrum brellum, heldur á raunverulegri væntumþykju sem lesandi öðlast fyrir persónunum, já eða óbeit á þeim vondu, og þránni til að vita að allt fari vel.
Töfrandi heimur
Oft er rætt um hver má skrifa hvaða persónur og hvers vegna, og ég hef lengi verið fylgjandi því að hver sem er megi skrifa hvaða persónu sem er og ef hann geri það vel þá sé það æðislegt, en ef hann geri það illa þurfi hann að sætta sig við að vera gagnrýndur án þess að væla úr sér augun. Þú mátt skrifa hvað sem er. Það má gagnrýna þig. Flott mál. En Steinar Bragi þarf ekki að hafa áhyggjur af gagnrýni frá mér, hann skrifar ungu kvenpersónuna sem sagan fylgir af næmni og natni, og lesandi fær ekki þessa „æj þarna er karl að skrifa konu sem hefur, að því er virðist, aldrei talað við konu hvað þá meira“ tilfinningu. Lýsingar höfundar á landslagi, náttúru, borgum og fólki, tækni sem er ekki til sem og raunverulegum viðfangsefnum eru einnig vel unnar og mála upp sterka mynd í huga lesanda. Ef ég ætti að setja út á eitthvað þá hefði ég viljað aðeins þéttofnari samruna persóna í lokin, en ég þarf ekki að fá allt sem ég vil.
Steinar Bragi er höfundur sem verður betri með hverri bók, og ég er sérstaklega spennt að lesa fleiri náframtíðarskáldsögur eftir hann í náinni framtíð sem verður vonandi ekki jafn óhugnanleg og sú sem höfundur skapar í Gólem.
„Þessi líkami er svo miklu eldri og stærri en ég sjálf, hann rúmar okkur öll, lokar okkur inni, neitar okkur um vald. Hann er eins og höggvinn úr graníti eða demanti, rís upp úr eyðimörk með sínum sama, eilífa svip, þótt allt í kringum hann verði að dufti.“ Bls. 118