„Ég er hætt að trúa því að þú sért alltaf óvart að lesa bækur um mannát“

22. maí 2025

 „Ég er hætt að trúa því að þú sért alltaf óvart að lesa bækur um mannát“

Vorlestur Sjafnar hefur í ár einskorðast af ógeðslegum bókum. Hvers vegna? Ég veit það ekki. Algóritmi eða undirmeðvitund lesanda, eða eitthvað enn skrítnara. Titill þessarar færslu er tilvitnun í rithöfundinn Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem telur Sjöfn vera með einbeittan brotavilja í vali sínu á mannátsbókmenntum.

The Centre

 

 

Myndir þú borga 20.000 pund til að læra að tala hvaða tungumál sem er reiprennandi á 10 dögum? Hvað ef þú yrðir að halda því leyndu fyrir öllum sem þú þekkir? Hvað ef þú mættir ekki tala við neinn alla tíu dagana? Hvað ef þér fyndist sem einhver dularfull öfl væru í spilinu?

.

The Centre segir frá hinni pakistönsku Anisu Ellahi sem hefur búið í London í næstum tuttugu ár og dreymir um að verða mikils metinn þýðandi en eina þýðingarvinnan sem hún hefur nælt sér í er að texta Bollywoodmyndir. Henni finnst hún stöðnuð í lífinu þegar hún hittir Adam, sem heillar hana upp úr skónum með því að tala reiprennandi ótalmörg tungumál, þar á meðal kínversku og japönsku. Eftir að þau byrja saman og Anisa ákveður að kynna Adam fyrir foreldrum sínum talar hann svo skyndilega Úrdú eins og innfæddur. Það er þá sem hann ljóstrar upp leyndarmálinu um The Centre, tungumálamiðstöðina undarlegu sem leggur stund á höfuðkúpumælingar og algera leynd. Anisa skráir sig á námskeið undir eins, og upphefst mikið og strangt ferli sem fær lesanda til að velta fyrir sér hvaða tækni, galdrar eða satanísku brögð séu í tafli.

 

 

  Wandering Stars

 

Nú þegar við horfum í beinni útsendingu á þjóðarmorð Ísrael á Palestínu er viðeigandi að lesa sögur fólk sem kemur af þjóð sem lifað hefur þjóðarmorð. Frumbyggjum norður Ameríku var skipulagt útrýmt á 19. öld, bæði með manngerðri hungursneyð, morðum, ófrjósemisaðgerðum og þvingaðri aðlögun. Bókin Wandering Stars er önnur skáldsaga Tommy Orange, bandarískt skáld og meðlimur að hinum sameinuðu Cheyenne og Arapaho ættbálkum, þar sem hann fjallar á beinskeittan og sterkan hátt um eina fjölskyldu allt frá tímum ættföðurins Jude Star, sem lifði af  Sand Creek fjöldamorðin árið 1864.

.

 Bókin gerist í sama heimi og fyrr bók höfundar, There there, og dýpkar sögu persóna sem lesandi kynntist fyrst þar. En leyfum bókinni að tala fyrir sig sjálfa í henni stendur meðal annars: “There were children, and then there were the children of Indians, because the merciless savage inhabitants of these American lands did not make children but nits, and nits make lice, or so it was said by the man who meant to make a massacre feel like killing bugs at Sand Creek.” Hljómar þetta ekki eins og veruleiki sem við lifum við í dag þar sem sum börn eru mennsk en önnur eru drasl sem má gereyða í beinni án þess að nokkur sem vettlingi getur valdið svo mikið sem bregðist við?

 

 

Mrs. March

Eiginmaður frú March hefur gefið út skáldsögu og hlotið mikið lof fyrir. Allir elska bókina, sem fjallar um ólukkulegu kynlífsverkakonuna Jóhönnu, en frú March hefur þó ekki gefið sér tíma til að lesa hana. En þegar fólk fer að nefna að Jóhanna virðist vera byggð á frú March renna á hana tvær grímur. Getur verið að maðurinn hennar sé að gera grín að henni á svona ógeðslegan hátt? Er hún aðhlátursefni um allan bæ? Er eitthvað enn stærra og óhugnanlegra í gangi? Hverju er eiginmaður hennar að leyna hana?
Frú March sekkur dýpra í vænisýki og geðveiki ásamt því sem hún einangrast stöðugt meira. Endurlit yfir líf hennar sýnir að á mörgu hefur gengið og þá ekki síst í sambandi hennar við manninn sinn. Að fylgja konunni niður þennan tilfinningaspíral er átakanlegt og áhrifamikið, launfyndið og mjög skemmtilegt. Ég las þessa bók hratt og hafði gaman af.

 

 

 

.

Private Rites

 

Heimsendir dynur á okkur öllum, í dropatali. Regnið er stanslaust, aldrei sér til sólar og systurnar Irene, Isla og Agnes takast á við fráfall fjarlægs föður síns á meðan æ fleiri hús sökkva í vatnselginn sem vex með degi hverjum. Um borgina ferðast menn nú með skipum og bátum, fátækrahverfin eru vatnsósa, ríka fólkið hefur flúið upp í fjöllin í lúxushverfi sem haldast lengur þurr. Þessi heimsendir er hægur, grár og ógeðslegur. Enginn er nokkru sinni alveg þurr, alltaf liggur einhver saggi inni við bein. Togstreita í flóknu fjölskyldumynstri systranna og samband þeirra við maka sína og látinn föður er skoðuð, breyskar persónur fá að vera eins og þær eru án þess að höfundur dæmi þær, en þeim er heldur ekki gefinn neinn séns. Ég er mjög hrifin af skrifum Juliu Armfield, sem mér finnst heillandi og falleg á örlítið klínískan hátt. Kuldinn í textanum, kuldinn sem stafar af persónunum, baráttan við að lifa af í blautum og köldum heimi, allt skapar þetta átakanlegan en þéttan ramma um sterka frásögn.

 

.

The Lamb

 

Mamma og Margot búa einar úti í skógi, í litlum kofa. Margot er 11 ára og lífið hefur verið svona síðan hún man eftir sér. Síðan pabbi fór frá þeim. Af og til enda ferðalangar í kofanum hjá þeim mæðgum og þá er veisla. Eftir að ferðalangurinn er látinn innbyrða eitraða sveppi dunda mamma og Margot sér við að verka skrokkinn og elda hverja einustu tægju. Fingurnir eru bestir, stökkir og brakandi, og Margot elskar að naga kjötið af kjúkunum. En þegar Eden bankar upp á breytist allt. Samband mömmu og Margot, andrúmsloftið í kofanum og framtíðin tekur á sig óvæntan blæ.
Þessi bók er sjúklega ógeðsleg og virkilega góð. Mannátið er til staðar, eins og vill svo oft vera í bókum sem ég les. Ég held samt að það sé tilviljun en ekki undirmeðvitundin mín að leiða mig í eitthvað ógeð. Bókin er nokkuð fljótlesin, með áhugaverðum persónum og skemmtilegum vendingum. Þá er hún aðeins of löng, og sérstaklega undir lokin, þegar augljóst er hvernig allt mun fara en lesandinn látinn hengslast í gegn um óþarfa málalengingar. Samt mæli ég með bókinni, hún er virkilega skemmtileg og jafnvel örlítið sumarleg.

 

.

Victorian Psycho

 

 

Þessi er enn hálflesin, en það sem komið er hefur vakið gleði. Hún er eftir sama höfund og Mrs March, og fjallar um Winnifred, sem vinnur sem „governess“ eða barnapíu-kennslukona hjá Pounds fjölskyldunni. Winnifred er ekki öll þar sem hún er séð, og virðist vera sem svo að ófarir elti hana á röndum, undarleg dauðsföll og slys sem eiga sér enga útskýringu. En er Winnifred ill eða ekki? Er hún leiksoppur örlaganna, afkvæmi Satans, eða undarleg andhetja? Ég á eftir að komast að því, en eitt er víst að bókin er virkilega vel skrifuð og mjög fyndin, -öllum viktorísku reimleikahúsaminnunum er kastað fram og höfundur leikur sér með þau á skemmtilegan hátt. Textinn iðar af frásagnargleði og kímni og ég er virkilega spennt að sjá hvernig fer fyrir Winnifred okkar.

Eftir að ég klára Victorian Psycho ætla ég að henda mér yfir í mannátsbókina The Hunger eftir Alma Katsu. Verði mér að góðu.
.

 

 

 

 

Lestu þetta næst

Sannleikanum er hvíslað

Sannleikanum er hvíslað

Ljóðabókin Mara kemur í heimsókn er önnur útgefin ljóðabók höfundar, en sú fyrri, Máltaka á...

Hús táknar sálina

Hús táknar sálina

Félagsland er fyrsta ljóðabók Völu Hauks, handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör árið 2024. Félagsland...

Ég fæðist dáin

Ég fæðist dáin

Gólem eftir Steinar Braga „Við erum öll líkön. Sjálf okkar eru líkön hýst í taugum. Efni er líkan...