
Ég vil bara að einhver muni
Gunnella eftir Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur hjá Afturámóti
Á sviðinu er eldhús og stofa, leikmyndin sköpuð úr tveimur veggjum, öðrum með vaski og kaffigerðargræjum, hinn vegginn prýðir bókahilla. Alls staðar eru veggirnir skreyttir með útsaumi og hekli. Við eldhúsborð situr kona, hún er að prjóna eftir leiðbeiningum á YouTube og hlusta á útvarpið. Svona er sviðið þegar gengið er inn í sal 2 í Háskólabíó þar sem verkið Gunnella eftir Kötlu Þórudóttur Njálsdóttur var frumsýnt þann 2. júlí.
Áhorfendur ganga í salinn á meðan Gunnella prjónar og raular með útvarpinu. Með ljósabreytingum er okkur gefið til kynna að nú sé tími til að veita sviðinu óskipta athygli.
Tragikómedískur hversdagur
Gunnella er útskriftarsýning Kötlu úr LHÍ, og leikur hún einnig í verkinu ásamt Aroni Má Ólafssyni. Leikstjóri sýningarinnar er Killian G.E Briansson og um leikmynd sjá þau Katla Þórudóttir Njálsdóttir, Þóra Pétursdóttir og Sævar Guðmundsson.
Verkinu er lýst sem tragikómedíu og það stenst svo sannarlega. Mikið var hlegið að leik Kötlu, sem líkamnar karakterinn af mikilli færni. Hún breytir allri holningu sinni gersamlega og nær að skapa persónu sem er öllum kunnugleg en þó mikill furðufugl. Það getur verið erfitt verk að gera persónu skil sem er á skjön við samfélagið og finnur hvergi sitt fólk. Oft verða slíkar persónur of óviðkunnanlegar til að áhorfendur nái algjörlega að finna til með þeim, en það er ekki vandi sem verður Kötlu á höndum. Gunnella er einstök, skrítin, orðheppin og á sama tíma ótrúlega orðóheppin, fyndin og ljúf en hún kann ekki að lesa í aðstæður, kann ekki að stoppa, kann ekki að falla í hópinn þó hún þrái það. Það sem Katla nær að gera er að búa til einstakling sem er gallaður á ýmsa vegu og kannski ekki sá sterkasti í samskiptum en áhorfandi er þó með henni í liði. Við finnum þrár hennar og vonir og viljum henni allt hið besta þegar tónninn breytist úr hreinum húmor í tilfinningaríka frásögn.
Klukkustund verður að eilífð
Nú er verðugt að skrifa ekki of mikið um framvindu verksins heldur mæla fremur með að fólk fari og sjái sýninguna. Hún er ekki nema klukkustund að lengd en virkilega áhrifarík og falleg, auk þess sem hún er fyndin. En það sem gerist í lífi Gunnellu er að hún fær mikilvæga heimsókn frá hinum hávaxna og myndarlega Friðrik, heimsókn sem hún hefur beðið eftir langalengi með mikilli óþreyju. Friðrik er jafn mikill kassi og Gunnella er spírall með krúsidúllum. Hann er kominn í ákveðnum erindagjörðum, hann þarf að leysa verkefni af hendi og ætlar ekki að gefa mikið af sér. Það er ofsalegur leiksigur að leika þennan „straight man“ á móti Kötlu, og það eitt að Aron Már hafi ekki legið grenjandi úr hlátri á sviðinu alla sýninguna sýnir hversu fær leikari hann er. Geri aðrir betur.
Og þá er allt skrifað sem hægt er að skrifa án þess að fara að kjafta frá smáatriðum. Ég hvet alla til að henda sér í sumarleikhús og sækja Gunnellu okkar heim, og muna að segja nei takk ef hún býður manni mjólk í kaffið.