Lúpína á leið inn fyrir lóðarmörk

9. janúar 2026

Leikhópurinn Svipir setur á þessum dögum á svið glænýtt verk eftir Þór Tulinius, fáránleikaverkið BústaðinnBústaðurinn er sagður vera grátbroslegt verk beint upp úr íslenskum raunveruleika og er 75 mínútna langt verk sem gerist allt í sumarbústað í blíðskaparveðri. Áhorfendur fylgjast með hjónunum Tedda og Boggu og hvernig líf þeirra tekur stakkaskiptum eftir að ónefndur portrettmálari kemur sér fyrir rétt utan við lóðarmörkin hjá þeim, þar sem hann teiknar og raular.

Hjón og portrettmálari

Þór Tulinius skrifar ekki aðeins verkið heldur leikur hann einnig Tedda, mann sem ég myndi ætla að sé á sjötugsaldri, út frá því hvernig hann talar og svo út frá því að hann var kosinn viðskiptamaður ársins ’85 og ’87. Kona hans, Bogga, er leikin af Þórunni Lárusdóttur, en hún er töluvert yngri en eiginmaður sinn og aðeins lífsglaðari. Portrettmálarinn er leikinn af Jónmundi Grétarsyni en áhorfendur fá ekkert að vita um hann annað en að hann er með kennitölu og teiknar fallegar myndir.

Í upphafi verks eru persónur kynntar til sögunnar á einfaldan og sterkan hátt. Bogga er að taka til, eins og alltaf, og Teddi er að agnúast yfir að nú muni hann ekki finna neitt. Svo gleymdi hann að kaupa kleinur. Strax eru persónur hjónanna mjög skýrar – hann er fúll skrifstofukarl, hún er heimavinnandi kona með uppkomin börn sem bráðvantar eitthvað að gera. Kynjatvíhyggjan og heterónormatívan er allsráðandi í þeirra sambandi, hennar starf er ekki aðeins að halda heimilinu og sumarbústaðnum í fullkomnu standi heldur á hún einnig að passa að manninum hennar líði vel, að egóið hans blási vandlega út og fljóti yfir höfðum þeirra, að gagnrýna hann aldrei sama hvað henni gæti mislíkað og hvað ekki. Í þessari upphafssenu íhugar áhorfandi kannski hvort þetta sé að fara að detta í farsa frá 1990 þar sem það er ógeðslega fyndið að kynjahlutverk séu ójöfn, en blessunarlega fer alls ekki svo. 

Þegar portrettteiknarinn birtist enn og aftur við lóðarmörkin fer Teddi nefninlega að ókyrrast. Augljóst er af öllu hans tali að það sem truflar hann hvað mest við listamanninn er litarhaft hans, en persónan er leikin af brúnum leikara sem Teddi álítur að sé útlenskur. Tungumálið er nýtt skemmtilega í verkinu til að sýna hvernig Teddi lítur á listamanninn sem óvin og boðflennu, einhvern sem þarf að vernda landareign sína frá svo hann ráðist ekki inn. Það hvernig hann kemur í veg fyrir að listamaðurinn nái að svara nokkurri spurningu er virkilega vel skrifað og verður sannfærandi og mjög lýsandi um hvernig hvítir íslendingar eiga það til að varpa ímyndunum sínum á brúnt fólk án þess að hlusta nokkru sinni á hvað það gæti mögulega haft að segja.

 

Sterkur leikur

Leikurinn í verkinu er óstjórnlega flottur. Þá stendur Jónmundur virkilega upp úr með því örlitla sem portrettmálara-persónan fær til að nýta sér. Þar sem leikritið gengur að miklu leyti út á að hinar persónurnar grípi fram í fyrir honum og þaggi niður í honum leikur Jónmundur rosalega mikið með andlitinu, líkamanum og sérstaklega augunum sem geta upp á eigin spýtur, að því virðist, sagt brandara, vakið sorg og samúð og svarað óspurðum spurningum áhorfenda í gegn um senurnar. Þá má ekki lasta leik þeirra Þórs og Þórunnar, sem stíga hvergi feilspor í sínum hlutverkum. Ljóst er að Þór hefur ægivald yfir textanum sem hann samdi sjálfur, en orðhengilsháttur, fáránleiki og málfarsfasismi Tedda verður svo raunverulegur að áhorfendur klæjar í rassinn að standa upp úr stólunum og fara fram, að hætta að hlusta á þennan fúla frænda í fermingarveislunni, en svo dregur hann okkur aftur inn í kjarnann með líkamlegum tilþrifum, óvæntum uppbrotum í setningaskipan og snöggum en hversdagslegum vendingum.

Bogga er í útfærslu Þórunnar á margan hátt óvæntasta persónan, en hún er sú eina sem tekur virkilegum stakkaskiptum. Hún er ljúfmennskan uppmáluð en sýnir svo á ótrúlega lunkinn hátt hvernig hún beitir móðurlegri umhyggju og kvenlegri mýkt sinni, eins og hún orðar það, til að kúga portrettmálarann. Án þess að vilja segja meira um framvindu verksins skal það tekið fram að þó að framsetningin sé á margan hátt einföld þá er ógerningur að giska á nákvæmlega hvert verkið ætli sér að fara.

Ljósahönnun er í höndum Ólafs Ágústs Stefánssonar, en ljós virka sem rammi og umgjörð auk þess sem þau beina augum áhorfenda um sviðið. Hljóðmyndin er falleg og skýr, söngur leikara og bakgrunnstónlist virka mjög vel saman til að koma á óvart, auka tilfinningaflæði og brjóta upp senubil. Leikstjórn Ágústu Skúladóttur er mjög skýr og ákveðin, það er augljóst að það er mikil sjón- og rýmisræn plönun sem liggur að baki góðu rennsli. Leikmyndin og búningarnir sem Þórunn María Jónsdóttir sér um eru algjört æði, það eina sem ég þráði í lífinu var samt að handklæðið væri í sama lit og föt hjónanna. Og það er án djóks það eina sem ég vil setja út á allt við uppsetninguna og verkið í heild. Þetta eina handklæði. Og ekki er það nú mikið. 

 

Ádeila sem á erindi

Ádeila verksins er sterk, þetta er í heildina ádeiluverk og rauði þráðurinn í því eru hugmyndir hvítra Íslendinga um eigið ágæti, gestrisni og mikilvægi, sama hversu margt bendir til þess að þeir ættu kannski aðeins að slaka á sjálfshólinu og líta á útlendingastefnurnar sínar. Fyrir einhverjum árum hefði manni ef til vill þótt verkið of augljóst í ádeilunni, að það breiddi ekki nóg yfir galla ruglaðra rasista eins og Tedda, en því miður hefur fyrrum bjartsýnisfólki eins og mér verið sýnt að heimur versnandi fer, og það eru frussandi brjálaðir heldri menn víða í samfélaginu, ekki bara á flugvöllum að þjófkenna erlendar konur. 

 

Takk kærlega Þór Tulinius fyrir sterkt og þarft verk, takk Jónmundur fyrir að treysta áhorfendum fyrir fallegum og persónulegum leik, og takk Þórunn fyrir að glæða persónu sem auðvelt væri að fletja út svo miklu lífi og krafti að það er ekki annað hægt en að hrífast með og verða dauðhræddur.

Lestu þetta næst

Skotheld höfundarrödd

Skotheld höfundarrödd

Það er alltaf spennandi að lesa fyrstu skáldsögu nýs höfundar. Ester Hilmarsdóttir gaf út bókina...

Fortíðin sækir á

Fortíðin sækir á

Nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur, Syndafall, er sjálfstæð spennusaga. Bókin er styttri en margar...