Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska rithöfundinn Valérie Perrin. Upphaflega kom verkið út árið 2018 og færði það höfundinum tvenn verðlaun í heimalandinu. Það voru frönsku bókmenntaverðlaunin Maison de la presse og lesendaverðlaun Les livres de Poche. Bókin varð gríðarlega vinsæl í Frakklandi og víðar og fer inn á stór málefni á borð við sorg, dauða, ofbeldi og ástina.

Að rækta garðinn sinn

Vatn á blómin fjallar um kirkjugarðsvörðinn Violette Troussaint, sem er einfari með grænar fingur og mikla og aðdáunarverða alúð fyrir vinnu sinni og gagnvart aðstandendum sem koma að vitja leiða ástvina sinna. Einn daginn mætir til hennar lögreglumaðurinn Julien Seul sem vill fylgja eftir hinstu ósk móður sinnar. Við þá heimsókn er Violette færð aftur til sársaukafullrar fortíðar sinnar. Eiginmaður hennar, hinn lati, en jafnframt sjarmerandi Philippe Toussaint er horfinn en enginn veit nákvæmlega hvað um hann varð. Violette virðist sjálfri vera nokkuð sama um afdrif hans, og er jafnvel frekar fegin að vera laus við hann og öðlast frelsi til að rækta garðinn sinn, þá bæði í bókstaflegri og eiginlegri merkingu. Smám saman fá lesendur að skyggnast inn í forsögu Violette og hvernig hún endaði í óhamingju sambandi með manni sem lét sig hverfa og hvernig hún fór að vinna sem kirkjugarðsvörður í smábæ. Á sama tíma fáum við að kynnast móður lögreglumannsins Julien Sel, Iréne Fayolle, og ástæður fyrir óvæntri ósk hennar um hvíldarstað hjá manni að nafni Gabriel Prudent. Manni sem sonurinn hafði aldrei heyrt um. 

Dísæt ofgnótt

Verkið er í raun sögur margra persónna. Við flökkum á milli fortíðar og nútíðar aðalsöguhetju okkar, munaðarleysingjanumViolette, förum síðan í fortíðarferðalag með Iréne Fayolle og svo fáum við þar að auki að skyggnast í undarleg hugarfylgsni eiginmannsins Philippe Toussaint. Sögumaður er alvitur en hann gefur ekkert uppi fyrr en tíminn er réttur. Það eru þá sérstaklega afdrif dóttur Violette og Philippe sem heldur lesandanum föngum allt til endaloka, þrátt fyrir langan lestur, en verkið hefði mátt stytta og kjarna betur. Það voru nokkrir kaflar sem hefðu mátt missa sín og sem gefa í rauninni ekkert aukalega í persónusköpun eða söguframvindu nema kannski leyfa lesandanum að flögra í fallegum orðum og vangaveltum um lífið, dauðann og tilveruna. Að mínu mati er ofgnótt þó ekki besta leiðin til að segja eitthvað hjartfólgið og merkingarþrungið. Skilaboðin týnast í raun í magninu, því þó að verkið hafi að geyma fallegan boðskap, og augljóslega mjög mikla djúpköfun höfundar á persónum sínum, að þá svífa orðin allt of mikið á yfirborðinu og ná ekki inn að kjarna. Í raun verða öll skilaboð og allur boðskapur dísætur og blæs upp í sápukúlur sem springa í ekkert. Sama á við um margt innan sögunnar sjálfrar. Til dæmis voru mörg ástarsamböndin sem við fáum að kynnast mjög falleg en þeim hefði nægt nokkrir kaflar ekki stöðugur straumur af angurværð og hjartnæmi. Það mætti jafnvel segja að blómin séu orðin gegnsósa af vatni.

Það hvernig hver kafli byrjar á fallegri og rómantískri tilvitnun er eitt dæmi, og ég reyndi í fyrstu að taka þær inn að hjarta en þær fóru í magni sínu  inn um eitt eyra og út um hitt. Ég frétti síðan að lestri loknum að tilvitnanirnar í kaflabyrjun séu textar í frönskum dægurlögum og að það sé hægt að finna playlista á Spotify frá þýðandanum með því að slá “Vatn á blómin“ í leitargluggann. Mögulega hefði það getað dýpkað lestur minn að vita af þessu fyrirfram og ég hefði getað hlustað á lagalistann á meðan á lestri stæði.  Og vert er að nefna að slíkur gjörningur er ávallt virkilega skemmtilegur, þegar höfundar tengja skáldverk við önnur listaverk sem hægt er að njóta samhliða og ég vona að fleiri höfundar taki það til sín. Ég segi að mögulega gæti það hafa dýpkað lesturinn, en þá aðallega í formi þess að hafa þetta aukalag af skemmtun, því ég veit ekki nákvæmlega hvort það hefði breytt viðtökum mínum að öðru leyti.  En það er samt augljóst að höfundur hefur lagt mikla natni í persónur sínar og í textann sjálfan.   

Ráðgátan heldur lesandanum

Eins og kemur fram á kápu bókarinnar að þá er sagan ljúfsár, hún er falleg og umfjöllunarefnið snertir við öllum. Hvernig Violette byggir sig upp eftir erfiðar lífsreynslur er bæði heillandi og hugvekjandi en samt á sama tíma dapurlegt. Sagan er einnig á köflum spennusaga og er það ráðgátan og þörf lesandans fyrir svörum sem heldur honum við, því þar fyrir utan að þá var boðskapurinn kominn um miðbik sögu. Sumir eiginleikar persónna stungu einnig stundum í stúf við þeirra eigin kjarna, þá á ég aðallega við það að miðað við í hversu löngu máli persónusköpun fær pláss að þá er ég ennþá að furða mig á háttalagi ýmissa karaktera. En kannski er það einmitt raunin með okkur mannfólkið, við erum jú óútreiknanleg. En í skáldskap þarf persóna að vera fylgin sjálfri sér.

Kannski er ég ekki markhópurinn, ég á erfitt með væmni og of skáldlegar og ofsafengnar ástarjátningar. Auðvitað þarf skáldskapurinn að vera betri en lífið, en ég herpist upp við prósa sem fer allt of fjarri raunsæinu þegar kemur að tilfinningum og samtölum. Eða kannski var ég mjög jákvæð þar til að bókin virtist nánast endalaus aflestrar og málefni og samskipti voru farin í hringi. Það eru samt margar fallegar setningar og pælingar í sögunni og það var að minnsta kosti ein setning sem ég ætla að reyna taka sérstaklega til mín;

,,Ekki dæma hvern dag eftir uppskeru þinni heldur eftir fræjunum sem þú sáir.’’ (s. 259)

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...