Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Lóu þarf vart að kynna en hún hefur hlotið verðlaun og ótal tilnefningar fyrir barnabækur sínar, en fyrir eldri lesendur er auðveldlega hægt að mæla með bókunum Grísafjörður og Héragerði. Mamma Sandkaka er sjálfstætt framhald af bókinni Mamma Kaka frá 2022.

Athuga skal að ég las verkið nokkrum sinnum með þriggja ára ráðunaut áður en þessi umfjöllun var skrifuð. Í öll skiptin sat hann þögull og fullur áhuga á ævintýrum Dalíu og Viggós.

Aðalpersónan Dalía er virkilega ósátt við föður sinn að dorma stanslaust á ströndinni á Tenerife og vill ævintýri í sitt líf. Eftir að hafa troðað sig út af ís og skilað honum aftur í strandkamar kemur vinur hennar Viggó til bjargar. Hann á einnig frekar leiðigjarnt foreldri, mömmu sem situr með tölvuna á ströndinni að klára skattaskýrsluna. Saman kokka þau upp stórkostlegt plan til að komast inn í sundlaugagarðinn; að skapa sér glænýtt foreldri. Þannig verður hin hjálpsamlega Mamma sandkaka til.

 

Boðskapnum beint til foreldranna

Bókin er uppfull af virkilega fínum teikningum, litirnir gleðja augað á hverri blaðsíðu. Textinn er fjörugur og sletta börnin reglulega á spænsku og dönsku (af einhverjum ástæðum). Bókin er laus við þungan boðskap sem þarf að innstimpla í þreytt börnin, hennar tilgangur er að skemmta og gleðja. Foreldrar mega þó taka til greina að þeir eiga að skemmta börnum sínum í sumarfríum, ekki hunsa þau til að sofa eða hanga í tölvunni.

 

Myndirnar mikilvægar

Í bókinni segir textinn aðeins hálfa söguna, myndirnar eru mikilvægur partur frásagnarinnar. Svipbrigði persóna og athafnir sem ekki eru nefndar í texta má lesa úr myndunum og fá því börnin tækifæri til að geta í eyðurnar. Við ykkur foreldra, ef þið skylduð vera að lesa þessa umfjöllun, mæli ég með að tækla textann all hressilega og skemmta ykkur líka við lesturinn. Persónurnar hrópa upp allskonar vitleysu í gríð og erg sem er gaman að hafa eftir þeim en höfundurinn er einmitt svo hugulsamur að hafa orðskýringar í lok bókar ef börnin hafa einhverjar spurningar varðandi alla þessa útlensku og flippaða slangur.   

Ekki hika við að grípa Mömmu Sandköku í næstu bókabúð eða á hverfisbókasafninu. Hún mun gera lesturinn fyrir svefninn sumarlegan og fjörugan.

Lestu þetta næst

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...