Blinda Ragnheiður Gestsdóttir

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er líklega best þekkt fyrir bráðfyndnar og beint-í-mark myndasögur. Til dæmis bjargaði hún mér í gegnum fyrsta ár heimsfaraldurins með myndasögunum sínum, sem síðar komu út í heildarsafni í bókinni Dæs. Síðustu ár hefur hún einnig skrifað barnabækur. Ber þar helst að nefna bókina Grísafjörður sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020 og tilnefningu til barnabókaverðlauna Norðurlandaráðs sama ár. Í ár kom líka út bókina Mamma kaka sem á kómískan hátt sameinar raunir foreldra og barna í vetrarfríi.

Hvað er Héragerði?

Nýjasta bókin úr smiðju Lóu er Héragerði, ævintýri um súkkulaði og kátínu. Þar fylgist lesandinn áfram með systkinunum Ingu og Baldri, sem lesandinn kynnist í Grísafirði. Í fyrri bókinni er jólafríið yfirvofandi en í Héragerði hangir páskafríið yfir. Inga og Baldur eru send í Hveragerði til móðurömmu sinnar, sem er heldur frábrugðin mömmu þeirra. 

Töfrumblandnar hversdagssögur 

Bækur Lóu Hlínar eru hversdagssögur úr íslenskum veruleika. Þær innihalda ekki æsispennandi söguþráð, en kunnugleiki sagnanna heldur lesandanum föngnum. Stundum vill maður nefnilega bara spegla sig í því sem maður kannast við. Og Inga og Baldur eru svo sannarlega persónur sem flestir ættu að geta fundið sig í. Inga er hvatvís persóna sem á mjög erfitt með að hafa stjórn á sér. Baldur er meðvirkur með systur sinni, reynir að halda öllum góðum og er ansi kvíðinn. Hann flýtur líka óséður hjá fullorðnum, þar sem Inga þarf oftar en ekki á því að halda að öll athygli sé á henni.  Héragerði er einföld saga á yfirborðinu, en undir niðri leynist sálarlíf barna og fullorðinna. Í gegnum samskipti persónanna sér lesandinn margslunginn heim Ingu og Baldurs. 

Mögulega blundar forn frægð Hveragerðis enn í mér; sögur af Eden, ísferðum og tívolíi. Í minni minningu er Hveragerði töfraheimur og Lóa kemur þeim heimi fullkomlega til skila í bókinni. Til dæmis stekkur fram nýr félagi  Ingu úr næsta húsi við ömmuna í Hveragerði. Gróðurhús og ljós, búningar og páskaeggjaleit gera Héragerði  að hlýrri og innilegri hversdagssögu sem tekur lesandann á vit ævintýranna og lífsgleðinnar. Í gegnum póstkort frá Alfreð og Ölmu, nágranna Ingu og Baldurs, fær maður nasaþefinn af ævintýrum í öðru landi, rétt eins og í Grísafirði. En ævintýri Ingu og Baldurs eru engu síðri í Hveragerði og það minnir okkur á að ekki þarf að leita langt til að upplifa ævintýrin. 

Leitum ekki langt yfir skammt

Bókin er skemmtilega brotin upp með myndasögum, mismunandi stærð og lit á letri og stórum myndum inn á milli. Í gegnum bókina vinnur Baldur hörðum höndum að því að skapa teiknimyndasögu og rúsínan í pylsuendanum er að sjálfsögðu að lesendur geta skoðað söguna í lok bókar, því þar leynist myndasagan í örlitlu broti. 

Hvað er það við Grísafjörð og Héragerði sem er svona yndislegt? Ætli það sé ekki bara hve jarðbundnar bækurnar eru, hve sannar og trúar sjálfum sér og raunveruleika íslenskra barna. Þær minna okkur líka á að í heiminum er margt fallegt, stundum þurfum við bara að opna augun og horfa í kringum okkur til að sjá töfrana.

Lestu þetta næst