Allir mánuðir eru hinsegin mánuðir, en í ágúst verður hinseginleikinn sérstaklega sýnilegur þegar við fögnum fjölbreytileikanum, ástinni og sjálfinu eins og það leggur sig, og sum fyrirtæki bleikþvo sig með regnbogafánum og innantómum orðum, önnur vonandi ekki. Þá er einmitt gott að hafa nokkrar góðar bækur sem ágætt er að glugga í sé maður þyrstur í hinsegin bókmenntir eða vilji víkka sjóndeildarhring sinn.
Eldri konur
Fyrsta skáldsaga Evu er dásamlega sorgleg og átakanleg, en um leið falleg bók, sem segir sögu aðalpersónunnar frá unglingsaldri. Aðalpersónan okkar er ekki bara lesbía, hún er líka ósköp leitandi og er með ákveðið sár í hjartanu sem hún leitast við að fylla í faðmi eldri kvenna. Rebekka Sif fjallaði um Eldri konur eftir Evu Rún í nóvember 2024 og hægt er að lesa umfjöllun hennar um bókina hér.
Detransition, Baby eftir Torrey Peters
Ég forðaðist þessa bók árum saman því ég var svo hrædd við nafnið. Detransition er viðkvæmt málefni sem hægri öfl halda oft upp sem sönnun á því að það að vera trans sé ekki réttmætt, og það að lifa sem trans manneskja sé alltaf rangt. Ég er virkilega ósammála þessu og því, kannski skiljanlega, var ég efins um verkið. En bókin kom mér á óvart. Hún fjallar um transkonuna Amy sem detransitionar af því það er svo hræðilega erfitt að vera trans. Hún er kona, og veit að hún verður alltaf kona, en hún laumast til baka inn í gervi karlmennskunnar sem hún bar í mörg ár þegar hún verður fyrir ofbeldi og þorir ekki lengur að lifa sem hún sjálf. Lesandi kynnist einnig transkonunni Reese og því flókna tilfinningalega sambandi sem þær tvær eiga, um leið og höfundur gefur innsýn í heim hvítra transkvenna á öðrum áratug þessarar aldar.
Chain-Gang All Stars
Þessi bók er eftir einn af mínum uppáhalds höfundum, hinn ganaísk-bandaríska höfund Nana-Kwame Adjei-Brenyah. Hún gerist í dystópískri framtíð þar sem fólk getur sloppið við hefðbundna dauðarefsingu eða fangelsisdóm sem er 25 ár eða lengri ef það samþykkir að taka þátt í raunveruleikaþætti sem skylmingaþrælar. Huggulegt. Aðalstjarnan í hringnum er Loretta Thurwar og ástarsamband hennar við kærustu sína, Hamara Stacker, er það heitasta á skjám áhorfenda. Um leið eru þó margir sem mótmæla þessari ómanneskjulegu meðferð á föngum, enda hefur enn enginn komist lifandi í gegn um heila seríu sem skylmingaþræll. En spurningin er hvort Loretta muni breyta því.
Private Rites
Ein af mínum uppáhalds, Julia Armfield, snýr aftur með sína aðra skáldsögu, en hún skrifaði áður Our Wives Under the Sea. Í þessari bók, Private Rites, segir hún sögu af þrem uppkomnum systrum sem þurfa að takast á við dauða föður síns. Ekki er nóg með að þær þurfi að horfast í augu við að missa mann sem þær elskuðu ekki og standa uppi sem fullorðnir munaðarleysingjar, heldur er heimurinn líka að farast. Ansans vandræði. Það rignir stöðugt, flatlendi er allt undir vatni, og vatnsyfirborðið rís með hverjum deginum. Það sem gerir bókina svo extra skemmtilega er að allar systurnar eru hinsegin, og á mismunandi stigum ástarambanda. Ein er að skilja, ein er að verða ástfangin og hefja samband og sú þriðja er í stabílu langtíma sambandi.
Pageboy
Leikarann Elliot Page þekkja flestir, en hann sló í gegn sem unglingur í ýmsum kvikmyndum. Eftir að hann kom út sem trans maður hefur hann orðið mikilvæg og sterk rödd í hinsegin samfélaginu, og ævisaga hans, Pageboy, er mikilvæg og falleg saga af trans uppvexti. Page segir frá sambandi við foreldra sína, upplifun sinni af eigin kynvitund og hvernig honum leið á meðan hann reyndi að bæla sitt sanna sjálf. Vissulega er Page hvítur, sætur, grannur, ófatlaður og ógeðslega ríkur, og allt þetta veitir honum aukið aðgengi að umönnun, sálfræðiaðstoð og læknishjálp, en það þýðir ekki að leiðin hans til síns sanna sjálfs sé dans á rósum.
A Short History of Trans Misogyny eftir Jules Gill-Peterson
Titillinn segir allt sem segja þarf. Höfundur fer yfir þá samtvinnun mismunabreyta sem gerir það að verkum að trans konur verða fyrir ofbeldi, aðkasti, útskúfun og hatri. Mjög þörf lesning fyrir þá sem vilja kafa dýpra í málefni trans fólks, cis kvenna og auðvitað fyrir alla sem láta sig mannréttindi varða.
Heiðurstilnefningar
Þær bækur sem teljast ekki hinsegin en innihalda mjög góða, raunsanna og, mikilvægast af öllu, ekki skaðlega nálgun á hinsegin veruleika, eru Hefnd Diddu Morthens, fyrir þau góðu skil sem hún gerir eykynhneigð og trans veruleika. Einnig tilnefni ég Áður en ég brjálast eftir Soffíu Bjarnadóttur þar sem fallega er fjallað um trans ungmenni og hvernig er að vera straight foreldri hinsegin barns.














