4 stjörnur s

Ancillary_Justice.jpegEinu sinni las ég nær eingöngu vísindaskáldsögur og ævintýrabækur. Einhvern veginn hef ég alltaf búið í einhverjum öðrum heimi hvort sem það er á þessari plánetu, annarri vídd eða allt annar heimur. Ég tók þó fljótlega eftir því að bækurnar sem ég las voru eiginlega allar eftir karla, sem er auðvitað allt í lagi út af fyrir sig. Mig langaði samt að vita hvort konur hefðu aðra nálgun á þessa tegund bókmennta. Hvort þær segðu öðruvísi frá og litu heiminn, sem þær skapa, öðrum augum en karlhöfundarnir. Ég einsetti mér því að lesa eingöngu bækur eftir konur. Á sama tíma datt allur lestur upp fyrir hjá mér, eins og gerist stundum hjá besta fólki. Ég tilkynnti þó stolt þessa, að ég taldi, femínisku ákvörðun mína hverjum sem heyra vildi. Það var einhver sem hlustaði.

Eins og oft vill verða hjá mér þá keypti ég mér ekki bókina sjálf, enda glími ég við gríðarlegan valkvíða þegar kemur að vali bóka. Ancillary Justice rataði í mínar hendur á afmælisdegi og leyndist í pakka frá eiginmanninum, sem hefur einstakt lag á að velja áhugaverðar og skemmtilegar bækur fyrir mig (þótt hann lesi ekki bækur sjálfur).

Kápa bókarinnar er óáhugaverð og því rauk ég ekki til að lesa hana. Þegar leið að hausti og önnum sumarsins var að ljúka byrjaði ég á henni. Ég var lengi að lesa hana, einfaldlega vegna þess að efni bókarinnar er nokkuð flókið og það tók mig tíma að skilja hver aðalpersónan var. Það tók mig eiginlega mestan tíma að skilja hvað aðalpersónan var.

Geimveldi í útþenslu

Ancillary Justice gerist í fjarlægri stjörnuþoku í geimveldinu Radch. Radch er þjóð, eða kynþáttur, sem hefur það að stefnu sinni að þenja út veldi sitt og yfirráðasvæði í þeim tilgangi að koma menningu til allra byggðra plánetna. Til þess að sinna þessari stefnu hefur Radch til yfirráða fjölda aldagamalla geimskipa. Radch er stjórnað af Anaander Mianaai, sem er vera sem býr í mörgum líkömum og er mörg þúsund ára gömul. Geimskipin búa yfir mjög þróaðri gervigreind, skapaðri af Anaander Mianaai, sem er hlaðið niður í líkama en finnst líka í tölvustýrikerfi hvers geimskips fyrir sig. Hvert geimskip hefur því augu í geimskipinu sjalfu og niðri á þeirri plánetu sem Radch er að taka yfir.

Aðalpersóna bókarinnar er Breq. Breq er geimskip en samt manneskja. Þegar geimskipinu Justice of Toren var tortímt (sem er nær ómögulegt) náði einn líkami þess (ancillary) að sleppa undan og lifir nú lífi eins og manneskja, án þess að vera manneskja. Breq þráir ekkert heitar en að hefna sín á tortímanda sínum og þessi þúsundir ára gamla gervigreind í brothættum lífrænum líkama starfar ötullega að því næstu tugi ára að því að ná fram hefndum. Lesandi byrjar að fylgjast með Breq þegar hún er mjög nálægt markmiði sínu.

Kynlaus veröld og gervigreind

LeckiePhoto-220x331Bókin, sem kom fyrst út 2013, er skrifuð af Ann Leckie sem hefur gefið út fjölda smásagna og núna þríleikinn eða geimóperuna Imperial Rach, en Ancillary Justice er einmitt fyrsta bókin í þeim þríleik. Næstu bækur heita Ancillary Sword (2014) og Ancillary Mercy (2015).

Radch hefur ekkert kyn. Þær gera ekki greinamun á körlum og konum og mismunandi kyn er ekki til í tungumáli þeirra. Af þessari ástæðu vitum við eiginlega aldrei af hvaða kyni Breq er, en það er alltaf notað fornafnið “hún” um alla. Af þessum orsökum verða allar persónurnar í bókinni að konum, sem var frískandi upplifun. Þegar á líður kemur þó fljótt í ljós hver er karl og hver er kona þar sem tungumálin í stjörnuþokunni eru mismunandi og sum tungumálin kyngreina. Þessi hugmynd samt að ákveða að skrifa allar persónur í kvenkyni sem sjálfgefið kyn er, að mínu áliti, mjög áhugaverður gjörningur. Flestar sögur sem ég hef lesið eru með karlkyns aðalpersónu. Ég fékk einhvern veginn aðra sýn á allan heim Radch af því allir eru kynlausir en ávarpaðir sem konur. Það var þó undantekningalaust sem ég ímyndaði mér persónur í valdastöðum sem karla og viðkvæmari og óákveðnari persónur sem konur sem að sýnir kannski hvernig myndum af körlum og konum er oftast varpað fram.

En það er ekki bara kyn eða kynleysi sem vakti athygli mína heldur líka gervigreindin. Breq er ekki mennsk. Hún er geimskip. Það er magnað að lesa hvernig Leckie nær að koma því til skila hvernig það er að vera geimskip með augu alls staðar og samtengda spaceoperavitund. Gervigreindin Justice One Esk (Breq) var áður tugir líkamar tengt við geimskip á braut um plánetuna Ors. Þegar allt tortímdist nema einn líkami, Breq, missti One Esk stóran hluta af sjáfri sér og missti í raun vitið. Leckie fékk mig til að velta fyrir mér skilunum á milli gervigreindar og hins mannlega. Hvernig er hægt að segja að Breq sé ekki manneskja? Hún er einn líkami með eina vitund. Sjálf lítur hún þó ekki á sig sem manneskju. Hún er alltaf geimskip í sínum eigin huga. En geimskipið leggur þó í för til þess að hefna dauða síns. Hún er reið og vill hefna sín, sem eru svo mannlegar tilfinningar.

Margverðlaunuð geimópera

Ancillary Justice fékk mikið lof frá gagnrýnendum og hlaut hin virtu Arthur C. Clarke verðlaun árið 2013, Hugo verðlaunin 2014 og hefur hlotið fleiri viðurkenningar. Seinni tvær bækurnar í geimóperunni Imperial Radch hafa líka fengið viðurkenningar.

Eftir fyrstu lesningu bókarinnar sat hún í mér í mörg ár. Ég var lengi að melta hana. Þess vegna endurlas ég hana aftur fyrir stuttu. Ég var aftur lengi að lesa hana, bæði af því að hugtök í bókinni eru flókin, Rach heimurinn er stór og yfirgripsmikill og það er erfitt að ná utan um þessa stóru hugmynd sem Leckie er með. Mig langar að lesa seinni tvær bækurnar í seríunni, enda er um stórgóðar bækur að ræða. Ég gef Ancillary Justice eina eimreið og fjóra lestarvagna, einfaldlega vegna þess að hún var fáránlega þung í lestri. Hins vegar var það vel þess virði að þrauka í gegnum hana, því sagan og hugmyndin er mögnuð.

Hits: 107