Færeysk sinfónía

Veida_VindHver elskar ekki að detta óvænt niður á eitthvað gott? Svona eins og þegar maður finnur fimmþúsund kall í vasanum á gömlum jakka? Eða vera sagt að maður þurfi að ryksuga, en þarf þess svo ekki af því einhver annar gerði það fyrir þig? Þegar ég datt niður á barnabókina Veiða vind – Tónlistarævintýri þá fannst mér einhver hafa ryksugað fyrir mig. Höfundur textans er Rakel Helmsdal, Janus á Húsagarði myndskreytti og Kári Bæk samdi tónlistina sem fylgir með á geisladiski ásamt snilldarlegum upplestri Benedikts Erlingssonar á sögunni (hann er búinn að vera í smá uppáhaldi hjá mér síðan hann lék Gunnlaug Ormstungu fyrir margt löngu). Þórarinn Eldjárn þýddi bókina úr færeysku og tókst mjög vel til, enda vart við öðru að búast frá eins reynslumiklum rithöfundi.

alfarÉg get vart talið skiptin sem ég hlustaði á söguna um Öskubusku á segulbandsspólu í æsku. Það að hljóðbók skuli fylgja með bókinni vakti upp gríðarlega fortíðarþrá. Einhvers staðar hefur mér þó förlast í uppeldi drengjanna, því hvorugur þeirra er hrifinn af hljóðbókum. Þess vegna hefur diskurinn sem fylgir með bókinni oft legið ónotaður aftast í bókinni. Sem er allt í lagi. Bókin sjálf er stórskemmtileg, myndirnar líflegar og skemmtilegar og einhvern veginn einlægar.

Í bókinni er sagan af Ólafi riddararós endursögð. Bói litli fer út í leit að ævintýrum og hittir fyrir álfastelpu, grimman björn, örn og dreka. Á diskinum er hægt að hlusta á söguna með undirspili í formi sinfóníu, þar sem hvert hljóðfæri táknar eitthvað, líkt og í Pétri og úlfinum. Við mæðginin höfum lesið bókin ótal mörgum sinnum, sennilega vegna fyrrnefnds blætis míns. En sagan er skemmtileg og enn skemmtilegri þegar hún er lesin með mismunandi röddum og maður leyfir sér að verða dálítið kjánalegur. Það er bara allt svo miklu skemmilegra þannig.

Lestu þetta næst

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....

Hvorki fugl né fiskur

Hvorki fugl né fiskur

Á dögunum las ég bókina American Wife eftir Curtis Sittenfeld sem vakti mikla athygli við útgáfu...