5 stjörnur s

samfedraEftir að ég kláraði að lesa Raddir úr húsi loftskeytamannsins var ég logandi spennt að lesa Samfeðra eftir Steinunni G. Helgadóttur. Bókin er ekki sögð framhald af Raddir úr húsi loftskeytamannsins og að vissu leiti er ég því sammála en samt örlítið ósammála því fjölmargar persónur sem komu fyrir í Röddunum koma aftur fyrir í Samfeðra. Sjálfri þótti mér dýrmætt að hafa bakgrunnin úr Röddum úr húsi loftskeytamannsins þegar ég las Samfeðra.

Samfeðra segir af Janusi, sem við kynntust í fyrri bók Steinunnar, sem kemst að því við lát móður sinnar að hann á ellefu hálfsystkini víðs vegar um landið. Á því herrans ári 1974 fer Janus á ferðalag um landið til að kynnast öllum systkinum sínum og gengur það bæði upp og ofan.

Steinunn kynnir lesandann fyrir ótrúlegustu persónum og eins litlaus og Janus virðist vera í fyrstu eru systkini hans öll í regnbogans litum. Þau eru óneitanlega áhugaverðari en Janus og leigubílstjórinn faðir hans, sem er lýst sem litlausum og næstum ósýnilegum leiðindapúka. Undir lok bókarinnar er manni þó farið að þykja ósköp vænt um þennan veimiltítulega strákling sem Janus virðist vera, en sem vill öllum það besta. Það er ótrúlega skemmtilegt að fá að fylgjast með sögu Janusar frá mismunandi sjónarhornum og mismunandi persónum. Fá alltaf meira og meira til að púsla saman. Samfeðra er heilsteyptari bók en Raddir úr húsi loftskeytamannsins, ef það er hægt að stimpla bækur sem heilsteyptar. Söguþráðurinn er meira samhangandi og fyrir vikið var auðveldara að elta hann og tímann.

Af og til fannst mér Steinunn taka mig á staði sem voru einhvern veginn umluktir glitrandi þoku. Einhvern veginn í öðrum heimi þar sem allir eru örlítið furðulegir. En mér finnst bókin líka fanga fjölbreytileika mannlífsins á einstakan hátt. Hver og ein persóna er eins og hún er og það er ástæða fyrir því og ef Steinunn gaf manni ekki upp ástæðuna í einni setningu þá getur maður lesið það á milli línanna eða bara skáldað í eyðurnar.

Það var unun að lesa Samfeðra og finna öll hálfsystkini Janusar og dvelja með honum á alls konar mismunandi heimilum. Það var stórskemmtilegt að kynnast nýjum persónum, bæta við sögu nokkurra og bæta við persónum í líf annarra úr Raddir úr húsi loftskeytamannsins. Eins og Raddir úr húsi loftskeytamannsins var auðvelt að stökkva inn í nýjan kafla þar sem hver kafli er nokkuð sjálfstæður. Því er örugglega ágætt að hafa hana við höndina í sumar í útilegunni á Austfjörðum eða á Norðurlandi. Nú eða bara í sófanum í súldinni og vindinum á Suðvesturhorninu.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...