Ástin í óbyggðunum

 

Bók Lily King, Sæluvíma, kom út fyrir stuttu í þýðingu Ugga Jónssonar. Bókin kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 2014 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna um allan heim og verið gefin út í fimmtán löndum. Bókaútgáfan Angústúra gefur bókina út á Íslandi og er hún fjórða bókin í áskriftarröð þeirra. Strax á fyrstu blaðsíðu var ég kolfallinn fyrir bókinni. King nær að fanga huga lesandans með lýsingum á ferðalagi hjónanna Nell og Fen (bæði mannfræðingar) á leið sinni frá hinum ofbeldisfulla Mumbanyo-ættbálki í Nýju-Gíneu. Einhverju brúnleitu er kastað í ána á eftir þeim og Fen giskar á að þar sé enn eitt dautt barn á ferðinni. Það að þau skuli taka látnu barni með eins miklu andvaraleysi og þau gera á fyrstu síðum bókarinnar vakti strax óendanlega mikla forvitni hjá mér. Hvernig í ósköpunum verður manneskja dofin fyrir dauða ungabarna? Og látin börn halda áfram að vera þema í gegnum alla bókina.

Fyrstu síður bókarinnar gefa tóninn fyrir afganginn. Það er ekkert dregið undan. Einu sinni hafði ég þá rómantísku hugmynd að gerast mannfræðingur eða líffræðingur og starfa í hitabeltinu. Eftir lestur bókarinnar er ég nokkuð ánægð með þá ákvörðun að láta það eiga sig, því lýsingar af pöddum, hita, líkamsvessum, sárum, sótthita, andfýlu og annarri líkamslykt eru svo ljóslifandi að það jaðraði við að vera ógeðslegt og næstum áþreifanlegt. En samt virðist þetta allt saman eitthvað svo eðlilegt! Fýluleysið sem við búum við virðist aftur á móti óeðlilegt. Og það er líka rauður þráður í bókinni. Það sem við erum vön er ekki endilega það eina rétta. Nú hef ég ekki lagt stund á mannfræði sjálf en ég ímynda mér að það sé það sem mannfræðin snýst um, að sýna fram á að hefðir samfélagsins sem maður elst upp í séu ekki þær einu réttu.

Sagan er sögð frá sjónarhorni Andrew Bankson. Bankson rannsakar ættbálk við Sepik fljótið í Nýju- Gíneu og rannsóknir hans ganga illa og hann er illa haldinn af von- og tilgangsleysi. Honum er því töluvert létt þegar hann nær að sannfæra mannfræðingahjónin Nell og Fen um að setjast að nálægt honum og rannsaka nálægan ættbálk svo hann geti fengið af þeim félagsskap. Af þeirra samskiptum spinnst svo ástríðufullt samband en ekki líður á löngu uns afbrýðisemi og græðgi stefnir öllu í voða. Lesandi fær að kynnast þessum þremur persónum mjög náið. Nell, sem er alltaf með hugann við rannsóknir, Fen, sem er öfundsjúkur, valdasjúkur og ofbeldisfullur og Bankson sem er viðkvæmur, tilfinninganæmur og skarpgreindur.

Nell er hörkutól og fædd til að vera mannfræðingur. Það er augljóst strax á fyrstu síðum bókarinnar. Allt er henni rannsóknarefni. Hún er hörkutól því hún er stórslösuð og illa haldin af hitabeltissótt þegar við hittum hana fyrst. Þess vegna koma samskipti þeirra hjóna manni svolítið á óvart. Fen gnæfir yfir öllu með ógn. Lýsingar á rannsóknum þremeninganna eru svo áhugaverðar og mig langaði að vita hvort enn séu ættbálkar rannsakaðir á þennann hátt (ég efast samt um það). Mér þótti það næstum synd að fá ekki að kynnast frumbyggjunum betur en raun verður í bókinni. Umræðuefni úr bókinni er óteljandi en ég vil ekki segja of mikið til að spilla ekki fyrir öðrum lesendum.

King nær að fanga lesandann svo algjörlega að ég vissi varla af mér fyrr en ég var skyndilega búin með bókina, mér til mikils leiða. Ég vildi meira! Nell Stone er byggð á bandaríska mannfræðingnum Margaret Mead sem setti fram mjög umdeildar kenningar á sínum tíma (á millistríðsárunum) um samskipti kynjanna. Hún gaf líka sterklega í skyn að vestrænar hefðir og siðir væru ekki endilega það eina rétta, sem var algjörlega á skjön við álit samtímamanna hennar. Á síðari tímum hefur hún fengið uppreist æru. Mead var í Nýju-Gíneu með eiginmanni sínum Reo Fortune og þar hittu þau Gregory Bateson, annann mannfræðing. Mead giftist síðar Bateson. King tekur sér mikið skáldaleyfi og bókin er aðeins lauslega byggð á ævi Mead. Ég mæli hiklaust með Sæluvímu. Hún fer rakleitt á listann yfir uppáhalds bækur hjá mér.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...