Manneskjusaga – Saga af vanmáttugu samfélagi

Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur er átakanleg saga Reykvískrar konu. Sagan er skáldævisaga byggð á rauverulegum atburðum sem gerast í ekki svo fjarlægri fortíð. Björg er sem kornabarn gefin til ættleiðingar. Foreldrar hennar eru einsetubóndi að austan og drykkjukona að norðan. Hún er ættleidd af hjónum í Reykjavík, sem gefa henni alla þá ást og umhyggju sem barn ætti að þurfa. Björgu líður þó alltaf eins og hún sé utanveltu í fjölskyldnni. Hún er frábrugðin öðrum börnum, klunnaleg og stórskorin og verður fyrir grimmilegu einelti í skólanum. Ellefu ára finnur hún út að hún sé ættleidd.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um þessa sögu. Sorgin og vonleysið er svo kæfandi. Vanmáttur samfélagsins, vald þöggunarinnar. Þörf eftir hjálp, sem hvergi er að fá. Sagan af Björgu fer bara niður á við. Hún er sagan af því hvað gerist þegar allar hliðar samfélagsins bregðast einni manneskju. Þegar leyndarhyggja verður að biturð, reiði og gríðarlegri sorg.

Sagan af Björgu minnir mann á að enginn velur sér sjálfur að ganga á ógæfuhlið lífsins. Fyrir ekki svo löngu átti ég samtal við konu sem man tímana tvenna. Samtal okkar barst að skjólstæðingum sem móðir hennar hafði tekið að sér. Fólk sem hafði leiðst út í fíkniefni, drykkjumenn, ungar konur sem höfðu ratað í vandræði. Móðir hennar dæmdi engan, sagði hún. Hver sem kom til hennar hafði þar skjólhús og hennar orð yfir þetta fólk var ógæfufólk. Það er ekki val að lenda í ógæfu og þegar maður les  Manneskjusögu þá er það svo greinilegt. Ógæfan er ekki val. Ógæfan er sköpuð af samfélagi sem bregst manneskjunni.

Mér finnst sagan eiga fullt erindi til íslensks samfélags í dag. Sagan gerist ekki fyrir löngu síðan, þótt vissulega hafi margt breyst til batnaðar. Tekið er betur á eineltismálum í skólum, kennsluaðferðir hafa breyst mikið og alls konar byltingar hafa gert það auðveldara að tala um erfið mál sem áður voru þögguð til dauða. Undirliggjandi tónn í bókinni er þó að það vantar aðstoð og úrræði fyrir fólk með geðsjúkdóma eða sem glímir við stór og smærri vandamál. Aðstoð við geðsjúka, þunglynda, kvíðna og aðra sem glíma við geðræn vandamál mætti vera mikið betri í dag sem og þá. Ég mæli ekki með bókinni fyrir þá sem vilja lesa eitthvað upplífgangi yfir hátíðarnar. En Manneskjusaga á fullt erindi til sem flestra lesenda.

Steinunn hefur skrifað sannfærandi sögu ógæfukonu sem samfélagið brást. Stíll Steinunnar er mjög hreinn og beinn. Atburðirnir eru sagðir eins og þeir gerðust í næstum köldum tón. Það er eins og sögumaður standi fyrir utan söguna og segi hana án allra tilfinninga sem magnar upp atburðina og gerir þá enn hryllilegri. Líklega hefði verið hægt að segja þessa sögu með alls kyns lýsingarorðum og upphrópunum, sársauka og þjáningu. En Steinunn sleppir því alveg og fyrir vikið fá atburðirnir og sagan sjálf að njóta sýn í allri sinni napurlegu dýrð.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...