Fyrsta merki um að Heklugjá – leiðarvísir að eldinum eftir Ófeig Sigurðsson væri ekki rétta bókin fyrir mig var þegar ég vaknaði einn morguninn og bókin var gegnvot. Sá eins árs gamli og síþyrsti hafði sturtað stútkönnunni sinni yfir náttborðið með þeim afleiðingum að blaðsíðurnar voru allar orðnar undnar og ljótar. Það tók bókina tvo sólarhringa að sjálfþorna. Ég reyndi að lesa hana blauta í þrjósku minni.

Annað merki um að þessi bók hentaði mér ekki var það að ég missti stöðugt þráðinn við lesturinn, einfaldlega af því ég var stöðugt trufluð og Heklugjá er ekki bók sem hægt er að lesa með hálfum huga. Þetta er fyrsta bókin sem ég reyni að lesa eftir Ófeig Sigurðsson.

Ef til vill eru þetta afsakanir, einhver annar verður að dæma um það. Ég gafst upp þegar ég var rétt rúmlega hálfnuð með bókina, nálgaðist tvöhundruðustu síðuna. Svo ekki meir.

Ófeigur skrifar Heklugjá frá mörgum sjónarhornum. Hann segir frá rithöfundinum Ófeigi sem gengur á hverjum degi með hundinum sínum Koli upp Skólavörðuholtið áleiðis að Þjóðskjalasafninu, þar sem hann sökkvir sér í minningar Karls Einarssonar Dunganon, líklega í þeim tilgangi að skrifa um hann bók. Þar sér hann hina ægifögru Heklu, rauðhærða, með sægræn augu og það var sennilega það skemmtilegasta sem ég las um í bókinni. Það hve erfitt það er að kynnast manneskju. Kannski tók ég svona vel eftir því af því það er í byrjun bókarinnar og ég náði að lesa í þó nokkurn tíma áreitislaust þegar ég byrjaði á bókinni.

Frásögnin flakkar í tíma og rúmi og á milli persóna og það er ekkert alltaf mjög greinilegt hver er að segja hvað eða hvar í tímanum lesandinn er staddur. Ég upplifði það stundum þegar ég náði að sökkva mér ofan í frásögn af Dunganon (sem var ekki oft) að mér var kippt illyrmislega inn nútímann og söguna af rithöfundinum með einni setningu; „…gæti Dunganon greifi sagt á lestrarsal Þjóðskjalasafns Íslands…“

Til eru nokkrar útgáfur af þessari setningu. Mér brá alltaf svolítið þegar ég las hana, því þá var von á skiptum og mig langaði í raun að vita meira um Dunganon, minnug myndarinnar eftir hann sem er hluti af sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu. Hann var undarlegur kall, ég væri alveg til í að lesa ævisögu hans í heilsteyptari texta en Ófeigur setti saman. Þar sem ég ákvað að segja skilið við bókina var Jón Loftsson skyndilega kominn til sögunnar, ég náði því aldrei hvernig hann kom inn í þetta, og hann segir Snorra Sturlusyni, fóstursyni sínum, alls kyns hetjusögur fyrir háttinn. Aðrir lesendur verða svo að segja mér hvað gerist eftir það, því ég hugsa að ég fái ekki tíma til að lesa þennan hvirfilbyl fyrr en eftir rúm fimmtán ár, eða þar um bil.

Gagnrýnendur Kiljunnar sögðu bókina bráðfyndna og lýstu textanum sem stórfljóti. Ég sé alveg hvað þau meina. Það sem ég náði að lesa af bókinni var vissulega áhugavert og það er mjög auðvelt að sjá húmorinn í bókinni.

Ófeigur er með hnyttið orðafar og nær oft á tíðum að setja saman sprenghlægilegan texta.

Það sem aftur á móti gerir hana erfiðan aflestrar fyrir manneskju sem þarf oftast að vera með athyglina á fimm stöðum í einu, er hve afskaplega tætinglegur textinn er. Ég skil fullkomlega hvaðan gagnrýnendur Kiljunnar fá líkinguna við stórfljótið. Texinn er svo mikill, svo djúpur og svo hraður að mér fannst ég stundum vera að drukkna. Stundum fannst mér óþarflega mikið af tilvitnunum í Dante. Ég hef ekki lesið Dante svo það fór allt fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Sumt bara hreinlega skyldi ég ekki í bókinni, það var á einhverju öðru plani, óljóst og skrýtið. Ég er ekki viss um að Heklugjá verði bókin sem fólk á eftir að sökkva sér ofan í á aðfangadagskvöldi, en því er ekki að neita að hún er áhugaverð. Mín upplifun af bókinn er alls ekki heilög.

Ófeigur sjálfur segir í viðtali við Auði Aðalsteinsdóttur, sem var umsjónarmaður Bókar vikunnar á Rás 1 fyrir skemmstu, að hann hefði svipt upp hulunni sem liggur á milli lesanda og rithöfundar og afhjúpað þannig hvernig bók verður til. Við þessa útskýringu hans skyldi ég bókina örlítið betur. Ég fékk örlítið betri sýn á allt saman, eins og ég hafi loksins náð að setja allt í rétt box, en það er kannski ekki endilega það sem Ófeigur vildi með þessu skáldverki; setja hlutina í box.

En þangað til ég hef tíma og þolinmæði þá mun Heklugjá sitja undin í bókahillu, þétt vafinn öðrum bókum í þeirri von að pressa blaðsíðurnar eftir stútkönnulekann, og bíða þess að ég fái einhvern tímann lesið hana að fullu. Ég bíð með að gefa henni einkunn þangað til hún hefur verið fulllesin.

Lestu þetta næst

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...