Villimærin fagra og Pullman

Fyrir margt löng síðan, rétt fyrir unglingsárin, las ég bækur Pullman um Lýru; Gyllta áttavitannLúmska hnífinn  og Skuggasjónaukann. Ég las þær með augum krakka sem sér það ævintýralega í sögunni; það spennandi og það framandi. Áhugaverðast við söguna þótti mér að fólk var með fylgjur, dýr sem voru bundin manneskjum ósýnilegum en mjög raunverulegum böndum og ég sá fyrir mér að binda köttinn í band og kalla hann fylgjuna mína. Læðan tók ekki vel í hugmyndina. Síðar hefur mér verið sagt að það sé miklu dýpri undirtónn í sögunni, sem ég tók alls ekki eftir þegar ég las hana í fyrsta sinn og augljóst að ég þarf að lesa bækurnar aftur með nýjum augum.

Philip Pullman hefur skrifað og gefið út ótal barna- og ungmennabækur, bæði bækur sem gerast í okkar heimi og öðrum. Hann er núna byrjaður á nýrri tríólógíu; Bækur Duftsins og fyrsta bókin í þeirri röð, Villimærin fagra, kom út á íslensku fyrir jólin í frábærri þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Bækur Duftsins eru forleikur hinna þriggja bókanna og segir frá uppruna Lýru. Lýra er reyndar ómálga smábarn og nær aukapersóna, þótt allur söguþráðurinn snúist um örlög hennar. Aðalpersóna bókarinnar er hinn ellefu ára Malcolm. Malcolm Polstead býr á veitingastaðnum Silungnum með mömmu sinni og pabba. Hann sinnir af og til viðvikum fyrir nunnur í klaustrinu skammt frá og á forláta kanó sem hann viðheldur af alúð og heitir Villimærin fagra. Nunnurnar fá til sín ungbarnið Lýru og Malcolm verður strax hugfanginn af litlu telpunni. Inn í söguna blandast svo njósnarar, morð, gríðarlegt flóð og hrein illska. Í heimi Malcolms er Kirkjan að taka völdin. Trúarlegar stofnanir færast hratt nær því að vera fasískar stofnanir og Lýra skipar einhvern sess í spádómi um það hvort aflið vinnur; veraldleg ríkisstjórn eða hið trúarlega fasísk bákn.

Það er líklega óþarfi að taka það fram að frásagnarmáti Pullmann er með eindæmum góður. Hver einasta setning í bókinni er vel uppbyggð og við lesturinn leið mér eins og ég væri leidd áfram af styrkri og öruggri hönd höfundar, sem veit nákvæmlega hvert hann vill leiða lesandann. Persónur í bókinni eru vel skapaðar og samkvæmar sjálfum sér. Það kom mér aldrei á óvart hvernig persónurnar hegðuðu sér, þær voru einfaldlega svo fullmótaðar að þær hefðu ekki getað brugðist á annan hátt við. Malcolm er undarlegur strákur, samviskusamur og góður í gegn, áhugasamur um smíðar og viðhald og ótrúlega hjálpsamur. Það er í raun ótrúlegt hve mikla hlýju er hægt að skynja af textanum einum saman, bara við það að lesa samtöl Malcolm við fylgjuna hans, Ástu. Hins vegar fannst mér skrýtið hve samband hans við foreldra hans var lítið í bókinni, þau voru í algjöru aukahlutverki. Svo virðist sem hlutverk móðurinnar hafi eingöngu verið að svara honum stuttaralega og gefa honum að borða, en samt var einhver hlýja í henni líka, líkt og Malcolm.

Ég upplifið alla bókina á þann hátt að ekki einu orði væri ofaukið, ekki eitt smáatriði væri rangt eða óþarft. Stíll Pullmann er þægilegur, öruggur og hann nær að skapa ótrúlega heimsmynd sem er unun að hella sér út í. Öll bókin, þótt hún væri róleg framan af, var spennandi. Á síðustu síðunum missti ég svolítið þráðinn, samt sem áður, og það væri gaman að heyra frá öðrum hvort aðrir hafi upplifað síðustu síðurnar eins og þær væru skrifaðar í flýti. Þær voru örlítið losaralegar.

Smábörn eru ekki auðveld að eiga við í raunveruleikanum. Sex til átta mánaða smábörn sérstaklega. Lýra er á þessum aldri í bókinni í umsjá tveggja unglinga. Til þess að eiga ekki á hættu að eyðileggja bókina fyrir einhverjum ætla ég ekki að segja meira en þetta: Það var afar heppilegt hve smábarnið var oft þreytt. Annars reyndi Pullman að gera rækilega grein fyrir því hvernig umönnun ungbarna fer fram og bleiuskipti voru oft til umræðu í bókinni.

En að þessum vankönum undanskildum, sem eru smávægilegir að mínu mati, þá er bókin mjög spennandi, ævintýraleg og gefur góðan tón fyrir næstu bók í seríunni um Bækur Duftsins. Ég er þegar farin að telja niður í næstu bók. En þangað til er ég að hugsa um að endurlesa Gyllta áttavitann, Lúmska hnífinn og Skuggasjónaukann. Þær er alltaf hægt að nálgast á bókasafninu, en það væri ekki leiðinlegt að sjá bækurnar endurprentaðar í íslenskri útgáfu, í ljósi þess að Bækur Duftsins eru komnar fram á sjónarsviðið. Ég efast ekki um að það verði eftirspurn eftir þeim á næstu árum.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...