Afhjúpun Olivers – Frá sjónarhorni til sjónarhorns

Kápa bókarinnar er ögn villandi.

Afhjúpun Olivers eftir Liz Nugent hlaut titilinn glæpasaga ársins á Írlandi árið 2014, en kom ekki út í íslenskri þýðingu fyrr en núna fyrir jólin. Sagan er titluð sem “sálfræðiþriller” á íslensku bókakápunni. Fyrir utan að “þriller” er íslenskuð enskusletta sem ég kann afskaplega illa við, þá fannst mér bókin alls ekki uppfylla skilyrðin til þess að geta kallast “sálfræðitryllir” eða “þriller”. En ég skal reyna að líta fram hjá þessari fölsku auglýsingu.

Afhjúpun Olivers byrjar á setningunni “Ég hafði búist við meiri viðbrögðum þegar ég kýldi hana í fyrsta sinn”. Vissulega mjög grípandi fyrsta setning og maður missir strax alla samúð með Oliver, sem talar. Oliver ber konu sína nær til ólífis í hrottalegri árás. Út á við er hann þekktur sem heillandi, myndarlegur maður uppfullur af persónutöfrum. Hann á heima á fallegu heimili með góðhjörtuðu eiginkonunni Alice. Þau vinna saman að því að gefa út feikivinsælar barnabækur hans. Hann skrifar, hún myndskreytir. En þessi eina kvöldstund afhjúpar Oliver sem eitthvað allt annað. Vinir þeirra hjóna eru forviða yfir gjörðum Olivers og skilja ekki hvernig hinn viðkunnanlegi Oliver gat farið svona með Alice. Í gegnum mismunandi persónur, manneskjur sem hafa staðið nær Oliver í gegnum tíðina, kemst lesandinn svo hægt og rólega að því hvað varð til þess að Oliver réðist svo hrottalega á konuna sína.

Bókin er skrifuð á einföldu máli, það þarf lítið að geta í eyðurnar. Það er eins og hver persóna sitji í vitnastúku í amerískri bíómynd og segi frá kynnum sínum af Oliver. Af því maður veit strax að Oliver er ekki góð manneskja, þá snýst sagan ekki um leitina að gerandanum, heldur hvers vegna Oliver afhjúpar sig eins og hann gerði með því að ráðast á konuna sína. Hægt og rólega kemur fram mynd af barni sem aldrei átti möguleika, grimmd, afskiptaleysi og andlegu ofbeldi.

Ég gleymi því stundum að á Írlandi skipti/r trú mjög miklu máli. Stundum gleymi ég því meira að segja að þar hafi ríkt borgarastríð í marga áratugi. Í Afhjúpun Olivers kemur þetta mjög vel fram. Tepruskapur við kynlíf, skömmin við börn sem voru getin í synd og hin þrúgandi drottunun kirkunnar og hræsnin sem því öllu fylgir.

Allt í allt var Afhjúpun Olivers ágætist bók að mínu mati. Ástæðan fyrir öllu saman kom á óvart, það var skemmtilegt að fá svona slitróttan söguþráð sem hægt og rólega mjatlaði upplýsingunum til lesandans. Bókin er ekki bókmenntaverk og var sennilega aldrei hugsuð sem slík. En hún er tilvalin í rólega sumarbústaðaferð, aflappað síðdegi í sófanum eða í handfarangrinum í næstu borgarferð.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...