Viggó Viðutan, Dútl og draumórar

Fyrir alltof mörgum árum síðan, þegar ég komst að því að menntun er máttur ákvað ég, rúmlega þrítug að skrá mig í nám til stúdentsprófs. Ég hafði jú lokið fáeinum einingum og ákvað að nú skildi ég láta slag standa og læra eitthvað skemmtilegt. Mér stóð til boða að taka, þessa fyrstu önn eftir langt hlé, barnabókaáfanga í íslensku og verandi þriggja barna móðir þóttist ég himinn höndum tekið. Nóg hafði ég nú lesið af barnabókum, bæði sem fyrrum barn og sem móðir.  Ég var með háleitar hugmyndir um þennan áfanga, var búin að sanka að mér heimildaritum um Astrid Lindgren og Jón Sveinsson en eitthvað hrundi nú glansmyndin þegar kom að fyrstu bókunum sem við áttum að lesa. Það voru sumsé bækurnar Strumpastríð og Svaðilför í Sveppaborg með þeim Sval og Val.  Ég átti ekki orð! Og með hundshaus lufsaðist ég í geymsluna hjá mömmu til grafa upp þá félaga, algjörlega búin að gleyma þeim unaðsstundum sem ég átti sem krakki með þessum sögupersónum.

Viku seinna mætti ég í tímann, búin að rifja upp báðar bækurnar og ætlaði nú að fiska það upp hjá kennaranum hvort ekki væri von á gáfulega og menningarlegra efni í þessum áfanga. En hann spurði mig bara beint út hvað væri menning, hvað væru góðar barnabækur og hvernig þessar slæmu væru. Ég setti á mig snúð og ákvað að þegja.

Við fengum myndasögu á blöðum, með svona auðum talblöðrum og áttum að semja sögu um persónurnar. Það var þarna sem ég rakst á fyrsta vegginn í þessum áfanga, þeir áttu svo eftir að verða fleiri. Myndasöguformið er nefnilega flóknasta bókmenntaformið sem til er og það er ekki bara mín skoðun heldur viðurkennd staðreynd af hámenntuðum fræðingum. Því til þess að segja sögu og fá til þess svona lítið pláss þarf hnitmiðaðan texta þar sem engu orði má í raun vera ofaukið.

Ég fór strax eftir tímann í geymsluna góðu, gróf þar upp löngu gleymdan vin sem eftir þetta vék aldrei frá mér og fyrirgaf mér vanræksluna með brosi á vör. Síðan þá hefur hann fylgt mér í blíðu og stríðu og ávallt glatt mitt stórfurðulega geð. Þetta er hann elsku, elsku Viggó Viðutan minn. Við höfum saman marga fjöruna sopið, bæði hérlendis sem erlendis og hann er alltaf samur við sig.

Drykkfelldur starfskraftur

En hver er Viggó?  Hann birtist fyrst sem aukapersóna í bók árið 1957 og var lýst sem þegjandalegum og luralegum manni með þverslaufu.  Hann var í þeirri bók ráðin í vinnu á ritstjórn dagblaðs sem er aðalumhverfi bókanna en vissi samt ekki alveg hvað hann átti að gera eða hvaða hlutverki hann átti að gegna. Og núna, mörgum árum seinna, er hann ekki enn búinn að finna það út. Eins hafði hann ekki hugmynd um hver það var sem réði hann.  Seinna fékk Viggó aðalhlutverk í sínum eigin bókaflokki en var þó í þeim bókum enn í sömu vinnunni, þótti afleitur starfskraftur, hafði þann starfa að sjá um póstinn en gerði lítið annað en að sofa, láta sig dreyma og finna upp á allskonar undarlegum uppátækjum sem yfirleitt enduðu með ósköpum. Þrátt fyrir að stofna fyrirtækinu síendurtekið í hættu er Viggó aldrei sagt upp störfum.  Hann bæði reykti og drakk áfengi og fór ekki leynt með en eitthvað hefur samt dregið úr þeim ósiðum í síðustu bókum.

Bókaútgáfan Froskur hefur sinnt því þarfa verkefni undanfarin ár að  gefa út nýjar teiknimyndasögur. Og bókin Dútl og Draumórar með Viggó í aðalhlutverki kom út í íslenskri þýðingu núna fyrir síðustu jól.

Viggó er samur við sig í þessari bók og svíkur ekki sína aðdáendur. Hver blaðsíða spannar eina sögu og getur maður því gripið inn í hana nánast hvar sem er.Nokkrar nýjar persónur koma við sögu eins og t.d Herra Seðlan sem fer ekki varhluta af klaufaskap Viggó sem þó eins og ávallt áður, meinar vel.  Teiknimyndasögurnar um Viggó Viðutan ættu að vera til á hverju heimili.

Bækurnar henta öllum aldri og við öll tækifæri, börnum finnst hann fyndinn og skemmtilegur á meðan þeir eldri skynja undirtón í bókunum, hægt að finna í textanum ákveðna andúð á yfirvaldi og kúgunum. Viggó er hernaðarandstæðingur og lætur sig allskyns málefni skipta til dæmis er hann umhverfis og jafnréttissinni. Hann var einnig notaður á vegum Amnesty International til vekja athygli á allskyns mannréttindamálum. Ég er búin að lesa þessa bók margoft, sérstaklega leiðbeiningar Viggós um hvernig best sé að brúka húllahring. Ég var að velta því fyrir mér að veita innsýn inn í þessar ótrúlegu leiðbeiningar hér og gefa ykkur smá sýnidæmi en ég held að best sé að þið hafið upp á bókinni og lesið þessar leiðbeiningar allar, það er nefnilega þannig með teiknimyndasögur, textinn er samofinn myndunum og hvort um sig getur ekki án hins verið. Þessar bækur eru fyrir alla, ég hef átt í mörgum heimspekilegum umræðum um þessar bækur við börnin mín og þær eru uppspretta endalausra rökræðna.  Lesið þessar bækur, þær svíkja engan.

 

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...