Vilja fá skúffuskáldin fram í dagsljósið

Ritstjórn menningarritsins Skandala.

Skandali er nýtt menningarrit úr smiðju hugsjónafólks sem vill koma á fót nýjum vettvangi fyrir „unga höfunda og langtíma skúffuskáld sem eru feimin við að stíga fram,” eins og Ægir Þór ritstjóri Skandala komst að orði. Á bak við tímaritið stendur sjö manna ritstjórn sem sækist eftir ögrun, fjölbreytni og tilraunum í efnisvali fyrir tímaritið.

Lestrarklefinn setti sig í samband við forsprakka Skandala til að forvitnast frekar um fyrir hvað tímaritið stendur. Ægir Þór sat fyrir svörum. Einnig er áhugasömum bent á að hægt er að leggja verkefninu lið í gegnum Karolinafund eða kynna sér Skandala á Facebook-síðu tímaritsins. Skilafrestur á efni fyrir fyrsta tölublað er til 31. mars og áætlað er að gefa fyrsta tölublað út 25. maí.

 

Hverjir standa á bak við menningarritið Skandala?

„Ritstjóri er Ægir Þór en ásamt honum skipa ritstjórn þau Tanja Rasmussen, Anton Sturla Antonsson, Aldís Dagmar Erlingsdóttir, Oddný Þorvaldsdóttir, Jón Magnús Arnarsson og Karitas M. Bjarkadóttir. Þetta er fólk úr ýmsum áttum, af öllum kynjum og með fjölbreyttan bakgrunn, en mörg þeirra þekktust ekkert fyrirfram. Sex af sjö einstaklingum eru í námi við HÍ í íslensku, ritlist, bókmenntafræði og heimspeki en Aldís er starfandi grafískur hönnuður. Sú yngsta (Karitas) aðeins 18 ára en sá elsti (Jón Magnús) 34 ára. Hér er því á ferðinni nokkuð góður þverskurður af ætluðum markhóp blaðsins.“

 

Hver er hugsjónin á bak við þetta nýja menningarrit?

„Hugsjónin er fyrst og fremst sú að bjóða uppá opinn og frjálsan vettvang þar sem allir geta komist að. Sérstaklega á þetta við unga höfunda (á öllum aldri!) og langtíma skúffuskáld sem eru feimin við að stíga fram, en einnig allt ,,öðruvísi“ efni sem ef til vill passar hvernig annarsstaðar inn, jafnvel efni sem er einskonar stílbrot gegn höfundarverki viðkomandi höfundar. Þess vegna hömrum við mikið á því að við viljum allskonar efni.

Svo er markmiðið líka að þetta sé meira en bara blað. Við munum gefa endurgjöf á allt efni sem berst. Líka þegar ekki er hægt að birta að svo stöddu viljum við geta boðið aðstoð við áframvinnslu. Þá munum við líka vanda til ritstjórnar á því efni sem birtist, þannig að þó blaðið verði ódýrt í framleiðslu verði gæði innihaldsins tryggð. Auk þess stöndum við fyrir reglulegum upplestrarkvöldum og hyggjumst í framtíðinni einnig halda höfundarkvöld, bókmennta- og ljóðaklúbba og jafnvel ritsmiðjur takist okkur á fá styrk fyrir slíku.

Loks er það áætlun okkar að ritstjórn blaðsins sé síbreytileg og nýjir aðilar geti komið þar inn meðan aðrir stígi til hliðar, þannig sé alltaf nýliðun í gangi og ferskt fólk með ferskar hugmyndir í brúnni. Í þessu skyni erum við búin að stofna formleg félagasamtök utan um útgáfuna og vonumst til að sem flestir mæti þegar boðað verður til félagafundar eftir fyrsta tölublað.“

 

Hverjir skrifa í Skandala? 

„Helst sem flestir! Vitaskuld munu allir ritstjórnarmeðlimir leggja til efni (og það er æði fjölbreytt) og svo er markmiðið jú að höfða til skúffuskálda. En það eru allir velkomnir. Ef Hallgrímur Helgason sendir inn efni fær hann alveg sömu meðferð og aðrir (þetta er áskorun!) Svo kannast flestir þeir sem skrifa reglulega við það að eiga eitthvað efni sem er gott en passar ekki saman með neinu öðru. Skandali er fullkominn vettvangur fyrir slíkt, og sömuleiðis ef fólk vill vera að ögra sjálfu sér til að prufa eitthvað nýtt.“

 

Er að ykkar mati mikil þörf á nýjum vettvangi fyrir nýja og unga höfunda?

„Alveg klárlega. Framhaldsskólarnir hafa sín skólablöð fyrir sína nemendur en eftir það er helst til lítið í boði. Það er slatti af vefritum í gangi en flest hafa fremur fáa lesendur og margir sem eru að skrifa vita hreinlega ekki af þeim. Svo eru prentuðu blöðin einsog Stína og Tímarit Máls & menningar, en það eru bara tvö blöð sem koma út samtals sex sinnum á ári og er auk þess erfitt fyrir óþekkta höfunda að komast að í.“

 

Hverjir sjáið þið fyrir ykkur að verði lesendur Skandala?

„Allir íslendingar! …En við byrjum á því að selja blaðið ódýrt sem víðast, spilum inná hópa skapandi fólks (og þeirra vini og ættingja) hvar sem við finnum slíkt. Svo verðum við bara að sjá hvernig það gengur. En það er ekki spurning um að það er alveg markhópur til staðar, það þarf bara að virkja hann almennilega.“

 

Hvaðan kemur nafnið Skandali? 

„Nafnið kemur frá honum Antoni, sem átti upphaflegu hugmyndina að því að gefa út bókmenntarit. Hver sem hans upprunalega pæling var er opinbera sagan orðin sú að nafnið sé samsett úr orðunum skandall og sandali, en merkingin sé eitthvað á þá leið að skapandi fólk verði að geta leyft sér að gera smá skandala inná milli (eins og að ganga í sandölum!) Þá er einnig við hæfi að nafn blaðsins sé má nýsköpun í orðaforða þar sem blaðið gefur sig út fyrir að vera soldið öðruvísi.“

 

Þið veljið að hafa ritið á prenti. Er prentið verðmætara en netið?

„Tvímælalaust er prentið verðmætara. Með fullri virðingu fyrir vefmiðlum, og við stefnum á að koma upp einhverri vefútgáfu síðar meir, þá er það bara allt annað mál að hafa blaðið í höndunum, að sjá það í bókabúðum og vita af því til á bókasöfnum. Þess utan er markmiðið að selja blaðið, þó svo það verði rétt til þess að borga kostnað við umbrot og prentun. Þetta verður ekkert fansí en það verður í það minnsta fisíkal!“

 

Er komið efni í fyrsta blaðið?

„Við erum sem stendur á fullu við að safna efni en auglýstur skilafrestur er 31. mars (það er samt ekkert heillög dagsetning endilega, meira svona viðmið). Nú þegar hefur borist slatti, mestmegnis ljóð. Svo er gert ráð fyrir því að hver meðlimur ritstjórnar hafi allt að þrjár síður til umráða undir eigið efni. Miðað við þetta erum við komin með á bilinu 1/2 til 2/3 af fyrsta tölublaðinu, svo það er um að gera fyrir áhugasama að vera ekkert að slóra vilji viðkomandi komast að í fyrsta blaði (annars er alltaf næsta tölublað um haustið).

Við ítrekum líka að allt efni er velkomið. Helst viljum við ekki birta eintóm ljóð. Og heldur ekki bara ljóð og prósa. Til dæmis viljum við gjarnan ritdóma og menningarrýni, greinar eða hugleiðingar um allt milli himins og jarðar, skoðanapistla, þýðingar og efni á öðrum málum; teikningar, ljósmyndir, grafíska list. Við viljum fjölbreyttni, tilraunir, ögrun!“

 

 

Ef þú vilt senda inn efni í Skandala er hægt að gera það í gegnum tölvupóstfangið skandali.timarit[hjá]gmail.com. Fimmtudaginn 14. mars næstkomandi verða forsprakkar Skandala á Stofunni, Vesturgötu 3, 101 Reykjavík, með upplestrarkvöld og svara öllum spurningum forvitinna um menningarritið. Áhugasömum gefst einnig tækifæri til að skrá sig til þátttöku!

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...