Er þetta gaman? 

Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó

Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur, vasi og heyrnartól. Gunnar Smári Jóhannesson, höfundur og leikari verksins Félagsskapur með sjálfum mér, stígur á svið í hlutverki hins einverusækna Unnars Más, með tilþrifamikilli endursögn á kvikmyndinni Aftur til fortíðar og slær tón verks sem er í grunninn húmorísk en um leið átakamikil ferð aftur til fortíðar Unnars.

Deyr fé, deyja frændur

Unnar fær símtal frá systur sinni, sem hefur greinilega áhyggjur af því hversu mikið Unnar er einn. Unnar festist þá í fortíðarspíral og heimsækir gömul sár, missi og það sem hefur gert það að verkum að hann hefur það best einn, inni hjá sér, í íbúðinni sinni, þar sem enginn horfir á hann, enginn spyr hann neins.

Unnar bregður sér í hlutverk sjálfs sín sem barns, hann flytur áhorfendur aftur í tímann með galdrabrögðum leiklistarinnar, tónlistar og sterkrar persónusköpunnar. Við sjáum mömmu hans deyja, pabbi hans er þegar dáinn. Við sjáum Unnar flytja til Reykjavíkur með ömmu sem deyr svo líka. Við fylgjumst með honum vaxa úr grasi, foreldralaus en heppinn að komast í hreint drykkjarvatn, ef litið er á björtu hliðarnar. Við sjáum hann missa, gráta og sakna, en það sem við sjáum sterkast er  lífskraftur sem slokknar ekki þó í harðbakkann slái , seigla, æðruleysi og frábær húmor.

Gunnar Smári er mjög fyndinn leikari, og þegar hann bregður sér í hlutverk allra persóna verksins, ættingja sinna, Breiðholtslaugar, silfurskottu, Byko-starfsmanns, sja áhorfendur hversu fær hann er að skapa persónur eingöngu með leik, engum aukahlutum eða utanaðkomandi hjálp. Það frábærasta við verkið er svo að hann kemur alltaf á óvart, fellur ekki í margtuggið grín eða fyrirsjáanlega brandara, heldur kemur alltaf eitthvað ferskt, fyndið og skemmtilegt.

Fyndin og ljúf kvöldstund með sársaukafullum undirtón

Ef ég ætti að setja út á eitthvað myndi ég vilja að það kafaði örlítið dýpra í sársaukann, þar sem verkið er mun húmorískara en það er sorglegt, en hver er ég, einhver gagnrýnandi úti í bæ að fara að segja manni sem hefur misst svona mikið en skapað dásamlega list úr sorginni að fara að stinga á einhver gömul sár svo ég geti fengið nokkur tár í augun í leikhúsinu? Það besta að mínu mati í verkinu er svo andlegur undirbúningur Unnars fyrir að fá systur og mág í heimsókn og fullkomin dramatísk túlkun á mögulegum útskýring á spilinu Ticket to Ride, staða sem ég tel að allavega helmingur þjóðarinnar hafi upplifað sig í.

Þá er verkið alls ekki of langt eða stutt, heldur í þeirri lengd að áhorfendur fylgja Gunnari einbeittir allan tímann, langar að vita meira að lokinni sýningu, en ekki á þann hátt að þeim finnist eitthvað hafa vantað í sýninguna, frekar að þau séu spennt að fylgjast með áhugaverðum leikara og höfundi í framtíðinni.

Ég hvet alla til að henda sér í leikhús og hlægja með Gunnari Smára í sterku sjálfsævisögulegu verki sem þorir að þrýsta á rammann og fylgja innsæi listamanns sem mun greinilega ná langt.

 

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.