Sögur til næsta bæjar: Fræðingurinn

Fræðingurinn

Eftir Hrafnhildi Ming Þórunnardóttur

– Hvernig fallbeygir maður ær? spurði strákurinn stjarneðlisfræðinginn, fyrir framan íslenskufræðinginn. 

– Það er ær um æ frá ær til á, svaraði stjarneðlisfræðingurinn. Íslenskufræðingurinn þagði. 

– En hvernig fallbeygi ég kýr? hélt strákurinn áfram. 

– Það mun vera kýr um ký frá kýr til kú, svaraði eðlisfræðingurinn. Enn sagði íslenskufræðingurinn ekkert, en hann velti því fyrir sér hvenær einhver tæki frekar mark á sér en stjarneðlisfræðingnum. 

Strákurinn hljóp inn til sín þar sem hann upplýsti vini sína um svör stjarneðlisfræðingsins í gegnum Zoom. 

– Svarið er ær um æ frá ær til á og svo kýr um ký frá kýr til kú, stjarneðlisfræðingurinn sagði mér það, sagði hann hróðugur.

– En hvað sagði íslenskufræðingurinn? spurði einn vinanna.

– Já, bara allt gott, svaraði strákurinn. 

Íslenskufræðingurinn ranghvolfdi augunum og staulaðist fram í sjónvarpsherbergið, hagræddi sér í gömlum brakandi leðurstól og kveikti á fréttunum. Fréttaþulurinn muldraði helstu fréttir dagsins þar sem sagt var frá stærðfræðingum sem hefðu reiknað skapgerðir kvenna út frá stöðu tíðahringsins, hagfræðingum sem höfðu greint hagnað þess að fara í brjóstastækkun fremur en fitusog og einum eðlisfræðingi sem hafði rannsakað eðli karla í návist við fallegar konur. Að því loknu gáfu börn úr leikskólanum Brekkuborg öndum brauð. 

– Hvar er stjarneðlisfræðingurinn? spurði strákurinn, sem nú stóð í dyragættinni. Ég þarf hjálp og finn hann ekki.

– Æ, ég held að hann hafi þurft að skreppa, þú veist, út af eldgosinu. Íslenskufræðingurinn dæsti og langaði helst af öllu að leka eins og hraun ofan í illa lyktandi stólinn. 

– Ha, hvers vegna ætti hann að geta hjálpað út af eldgosinu?

– Sko, Veðurstofan þurfti að kalla fleiri til sín vegna álags. Fyrst komu læknarnir, af því þeir eru svo klárir og þá þurfti að manna læknavaktirnar. Flugmennirnir tóku það auðvitað að sér, enda hafa þeir svo háa greindarvísitölu. Hjúkrunarfræðingarnir leystu flugmennina af, allar búnar með flugfreyjuprófið sem er nógu líkt flugmannaprófinu, og garðyrkjufræðingarnir tóku að sér störf hjúkrunarfræðinganna, af því það þarf enga gáfu til að sinna því starfi. Svo vantaði auðvitað einhvern til að leysa garðyrkjufræðingana af.

– Voru stjarneðlisfræðingar settir í að rækta garða? spurði strákurinn og gretti sig. 

– Já, nei nei, allir sálfræðingarnir voru settir í það, þú veist af því þeir eiga allir pottablóm og þannig, svo stjarneðlisfræðingarnir eru að leysa þá af núna.

– Nú?

– Já, af því að þeir fengu allir A í samfélagsfræði í grunnskóla.

– Já ókei, það meikar sens, svaraði strákurinn og brosti, ánægður með skýringuna. En af hverju ert þú enn hér?

Íslenskufræðingurinn roðnaði. Hann vildi ekki segja stráknum að hann hafi ekki verið beðinn um að leysa neinn af, stráknum fannst hann nógu ómerkilegur eins og var.  

– Ég er að leysa lögfræðingana af. Vaktin þeirra byrjar bara svo seint þannig ég fer ekki alveg strax, laug hann.

– Hvers vegna eru íslenskufræðingar að leysa lögfræðingana af?

– Þú veist, íslenskufræðingar eru svo góðir í að lesa. 

Stuttu eftir kvöldmat keyrði íslenskufræðingurinn á alla nærliggjandi gististaði. Hann ætlaði svo sannarlega ekki að vera heima enn eina ferðina á meðan stjarneðlisfræðingurinn sýndi fram á snilligáfu sína á næturafleysingunum. Strákurinn yrði að trúa því að íslenskufræðingar væru líka mikilvægir samfélaginu. Hann myndi gista eina nótt á einhverjum gististað og fara svo aftur heim um morguninn, segjast hafa lesið lögin alla nóttina og hneykslast svo á hve auðvelt starf lögfræðinga sé. Eina vandamálið var að öll hótel virtust uppbókuð. 

– Andskotinn hafi það, muldraði íslenskufræðingurinn á meðan hann ræsti bílinn enn eina ferðina. Eftir fjóra kaffibolla og þriggja tíma akstur hafði hann skoðað flesta gististaði borgarinnar og þolinmæðin var á þrotum. Gátu öll hótelin í grenndinni raunverulega verið uppbókuð? Áfram keyrði hann og velti fyrir sér hvort sjötta háskólagráðan gæti hafa verið einni ofaukið. Kaffið í ferðabrúsanum var orðið kalt þegar hann loksins fann gamalt og ljótt gistihús.  

– Það getur ekki verið að þessi skítastaður sé líka bókaður, hugsaði íslenskufræðingurinn fúllyndur og horfði á svörtu mygluna sem læddist upp viðarklæðninguna. Hann gekk rösklega inn á illa lyktandi staðinn. Við afgreiðslu hótelsins hafði lítill miði verið hengdur upp sem á stóð „Öll herbergi upp bókuð, vinsamlegast hringið í 552-5588 fyrir nánari upplýsingar.“ 

Íslenskufræðingurinn var þreyttur, svangur og argur. Hann sló inn símanúmerið sem hringdi út. Suðandi hátíðnihljóðið í vindinum sem þrýsti sér í gegnum þröngar sprungur glugganna bætti bensíni á bálið sem þegar logaði í höfði íslenskufræðingsins þegar hann sló inn aftur inn númerið sem aftur hringdi út. Og aftur. Og aftur. Og aftur. Við hvert bíbb bættist í bálið sem fljótlega varð að brennu þar til í sjöttu tilraun að mjóróma rödd svaraði loksins í símann. 

– Já góða kvöldið hvernig get ég…

– Hvernig geta öll hótel landsins verið bókuð! Hvernig í andskotanum er pláss fyrir milljón útlendinga en ekki einn ÍSLENDING fjandinn hafi það! Rauðsprengd augun ætluðu út úr höfðinu á honum þar sem hann hélt á símanum í annarri hendi en köldu kaffinu í hinni.

– Djöfulsins andskotans, heyrðist þá tautað frá stærsta gangi gistihússins. Þung skref nálguðust íslenskufræðinginn sem fannst röddin úr símanum skyndilega vera orðin að músatísti í samanburði við röddina innan úr ganginum. Hvað í fokkanum er að þér, fær maður ekki svefnfrið? Djúp röddin virtist bergmála milli ómálaðra rakaskemmdra veggjanna.

Ekki svefnfrið? Svefnfrið? Svefnfrið?

– Ekki skalt þú við mig fjargviðrast! kallaði Íslenskufræðingurinn fram á gang, ánægður með orðavalið.

Fjargviðrast! Fjargviðrast! Fjargviðrast!

– Auðvitað eina lausa hótelið með helvítis aumingja sem halda fyrir manni vöku… tautaði djúp röddin áfram. Eins og ég hafi ekki keyrt nógu lengi til að finna þetta fjandans skítapleis. Þung skrefin nálguðust og úr skugga ljóslausa gangsins birtist maður í grænum náttslopp með hvíta nátthúfu og dúnkennda inniskó í stíl. 

Þetta var stjarneðlisfræðingurinn.

Hrafnhildur er nemandi í Háskóla Íslands og lærir þar íslensku og ritlist. Hún hefur alltaf haft gaman af bókum, en eftirminnilegustu sögurnar úr barnæsku hennar voru: Fíasól, Prinsessan á Bessastöðum og að sjálfsögðu allar bækurnar eftir Astrid Lindgren. Þrátt fyrir að hafa verið mikill skrifari í gegnum tíðina uppgötvaði hún heim ritlistarinnar frekar nýlega og í gegnum ritlistarnámið kynntist hún veröld smásagnanna og hlakkar mikið til að kafa þar enn dýpra.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...