Margslungið og dulmagnað verk

Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þegar ég hóf lestur á Vatnið brennur eftir Gunnar Theodór Eggertsson. Ég hafði engar væntingar þar sem þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir höfundinn. Kápan er flott, svolítið 70s og grípandi. Þegar ég las á bakkápuna heillaði hugmyndin mig, en ég er sjálf tónlistarkona og þótti spennandi hvað tónlist leit út fyrir að spila veigamikið hlutverk í verkinu. 

Bókin er strúktúreruð eins og plata, albúm sem hefur A-hlið, B-hlið, C-hlið og D-hlið. Einnig er upptaktur í byrjun, uppklapp í lokin og taktboðar inn á milli. Lesandinn flakkar því á milli heima, milli tímabila í mannkynssögunni og aðallega á milli persónanna Grímu og Rolf. Gríma er íslensk raftónlistarkona sem semur frekar tilraunakennda tónlist og er í bandinu Helgríma með kærastanum sínum, Helga. Helgi er einnig meðlimur þungamálmshljómsveitarinnar Herúlfarnir sem eru algjörar hetjur innan senunnar. Hann er ástfanginn upp fyrir haus af hinni sérvitru og heillandi Grímu sem þykir svo sem ekkert mikið til frægðar Helga koma.

Hin aðalpersónan er sænski fiðluleikarinn og götuspilarinn Rolf sem er uppi á 8. áratugnum í Stokkhólmi og spilar þjóðlagatónlist. Sögur þeirra tengjast saman þegar Gríma kemst í kynni við einu plötuna sem Rolf tók nokkurn tímann upp; Vatnið brennur. Á B-hlið plötunnar er 20 mínútna tilraunakennt þjóðlagaverk þar sem fiðla og saxófónn leika göldrótta laglínu í dulmögnuðu samspili. Gríma verður heltekin af verkinu og af laglínunni, sem leiðir hana á endanum á hættulegar og yfirnáttúrulegar slóðir. 

Göldrótt áhrif

Bókin læðist upp að manni, hún er í raun hrollvekja sem byggist hægt upp í gegnum vandaðan strúktúr. Lesandanum er haldið í óvissu, söguþráðurinn er ófyrirsjáanlegur og stöðugt uppbrot og stökk í tíma heldur lesandanum við efnið. Söguumhverfið er heillandi, persónurnar dvelja stóran part bókar á Neskaupstað og Stokkhólmi þó að fleiri staðir koma einnig við sögu. Hæg uppbyggingin veldur því að lesandinn áttar sig varla á því hvaða áhrif bókin eru að hafa, það er svolítið eins og lesandinn sé bundin í álög við lesturinn því lengra sem hann les. 

Ég verð að minnast á hversu metnaðarfullt þetta verk er, lesandinn finnur fyrir því hversu vandlega það hefur verið byggt upp, allir þræðir tvinnast saman – allt tengist einhverjum töfraþræði. Höfundur hefur greinilega lagst í heimildavinnu og vandað sig virkilega við allar lýsingar og persónusköpun. Og það er klárlega persónusköpunin sem stendur upp úr. Lesandinn hverfur inn í líf þessara persóna. Þó að Gríma sé hvatvís og oft svolítið fráhrindandi þá heillast lesandinn af ástríðu hennar. Hún er listamaður í gegn og lætur ekkert stöðva sig þó að hugmyndir hennar séu stundum fráleitar og jafnvel hættulegar.

Auðvelt er að finna samlíðan með Rolf en hann á ekkert nema tónlistina og þessa fáu aura sem hann þénar við að spila á götunni. Hann er einnig drifin áfram af ástríðu á þjóðlagatónlist og fiðlunni sinni. Persónusköpun Helga Herúlfs er einnig vel heppnuð en saxófónleikarinn Anders var líklega í uppáhaldi hjá mér. Sá uppgötvar hæfileika Rolf þegar þeir hittast á útitónleikum í Stokkhólmi. Það er síðan út frá sambandi og samspili þeirra tveggja sem goðsagnakennda platan Vatnið brennur verður til. 

Taktur sem læsir klónum í lesandann

Þessi bók fjallar ekki aðeins um þessar einstöku persónur og hrollvekjandi beygjurnar sem líf þeirra taka, heldur uppruna tónlistar, uppruna laglína sem festast í mannlegu eðli. Laglínur sem lífga upp tilveruna, veita von, og enn frekar þær sem heltaka hlustendur og draga þá á myrkar slóðir. Ég sökk djúpt ofan í rammgöldróttan heim þessarar bókar sem spannar alla leið frá upphafi mannsins til fjarlægrar framtíðar.

Upphafið hefði mátt vera hnitmiðaðara, fyrstu hundrað blaðsíðurnar hefði mátt stytta til að halda lesandanum betur við efnið en þegar yfir þær er komið heldur bókin góðum takti sem læsir klónum í lesandann og neitar að sleppa honum fyrr en lestri er lokið. Ég varð hrædd, fékk gæsahúð, varð að líta í burtu frá sumum lýsingum – sem ég tel vera virkilega gott merki um vel heppnaða hrollvekju.

Ég mæli svo sannarlega með þessari bók, fyrir bæði bóka- og tónlistarunnendur, og auðvitað aðdáendur hrollvekjunnar. Vatnið brennur er margslungið og dulmagnað verk sem mun ekki valda vonbrigðum. 

Lestu þetta næst