Sögur til næsta bæjar: Að halda þræði

Að halda þræði

Eftir Aðalheiði Halldórsdóttur

Einhvers konar milligangur hryssu mætti kannski kalla þetta ark konu í ójöfnu tempói eftir gangstétt. Eða bæling á vilja til brokks sem kemur út sem óstýrilátt fet. Enda síst eftirsóknarvert að vekja á sér athygli með óvirðulegum asa þó græðlingar í glugga séu í hættu nú þegar rokið hefur kúplað upp um gír. Það er ekki um að villast að haustið er mætt með þanið brjóst, í flaksandi kápu sem skyggir á sólu. Svo fíngerðir sprotar sem gægjast upp úr nýrri mold, í smáum pottum, kveinka sér áttavilltir, umkomulausir, enda að upplifa haust í fyrsta sinn. Vita ekki hvort þeir eigi að taka dvínandi birtunni persónulega, visna og deyja í ævarandi sjálfsvorkunn nú eða teygja sig lengra í von um geisla sem grípur þá og teymir þrjóskulega í gegnum vetur í átt að næsta vori.

 

Í limbói á milli hraðgöngu og falskrar yfirvegunar arkar hún því ábyrgðarfull í lágbotna en nokkuð lekkerum skóm og dumbrauðri kápu með beltið vel reyrt um mittið. Flýtir sér til að geta verið til staðar fyrir græðlinga í glugga, til að geta veitt þeim natni og hlýju, skilning jafnvel, eins og hverri lífveru er nauðsynlegur á breytingaskeiðum af hvers kyns tagi.

Og með hugann við mold hnýtur hún um eitthvað á gangstéttinni. „Hvur andskotinn,“ hefði mátt heyra, stæði maður nógu nálægt, því innspýtingin í bölvið er rausnarleg þó hljóð-út sé bælt, rétt eins og asinn. Á einbeittri göngunni hafði hún ekki komið auga á neitt sem hnjóta mætti um og finnst því svolítið eins og leikið hafi verið á sig og kann því illa. Það er því stoltið fremur en steinninn sem rekur hana í rogastans. Hún lítur aftur fyrir sig, niður á steypta stéttina, hraðar en hún taldi sig færa um, líkt og til að sjá við einhverjum. En þar er ekkert og engan að sjá. Til að leita af sér allan grun rennir hún skörpum augum leiftursnöggt eftir hrjúfri, söndugri steypunni þar til hún að lokum rekur augun í stein, sársaukalaust þó, eðli málsins samkvæmt en þarna liggur hann, agnarsmár og svartur.

 

Í andartak veltir hún því fyrir sér hvort einhver hafi viljandi lagt stein í götu hennar en hristir þeirri tilhugsun hratt af sér. Hún stendur þó sem múlbundin í keng yfir stétt og starir á stein. Og því lengur sem hún starir, því dýpra hreiðrar um sig sú tilfinning að hún sé á einhvern hátt að horfast í augu við stein fremur en á hann. Og samtímis líður henni eins og steinninn horfi á hana til baka. Tilhugsun sem verður aldrei beinlínis til, því ástand er andans og hugsunin á engan aðgang að slíkum svæðum. Hún er líkt og í leiðslu, táldregin, heilluð, utan tíma og rúms um tíma og án rúms, uns það rennur upp fyrir henni, hægt en örugglega að þetta er enginn venjulegur steinn í götu. Þetta er augasteinn sem liggur þarna á meðal sandkorna og gamalla tyggjóklessa og starir á hana.

 

Agndofa, ófær um uppbrot eða tilfærslur af neinu tagi stendur hún hreyfingarlaus, ómeðvituð um bæði sjálfa sig og óhlýðinn dökkan hárlokkinn sem sloppið hefur úr spennu og dansar nú um ennið á henni. Augnsamband konu við stein er slíkt. Og því lengur sem hún starir, því dýpra fellur hún inn í sjónlínu augasteins, þrædd upp á hana eins og perla á örfínan þráð.

Og sekúndur líða og græðlingar hætta að skipta máli. Og sekúndur líða og almannaálit kemur henni ekki lengur við. Og sekúndur líða og hún finnur að það sem hún óttast mest er hér og nú að eiga sér stað. Sá svartigaldur sem vaknar þegar horft er í augu, já eða auga, lengur en góðu hófi gegnir. Og hún finnur að hún er í þann mund að tapa sjálfri sér, umbreytast í perluna á þræðinum sem þyngdaraflsins vegna getur einungis runnið hægt en örugglega niður eftir sjónlínunni og inn í annars sjálf. Verða einhvers sýn fremur en sjálf sem sér. Og hún finnur það og skilur en getur með engu móti haft vit fyrir sér og rofið sambandið. Því að á einhverjum stað í einhverri hvelfingunni innra með henni veit hún, að þó hún á þessari stundu tæki rösklega í sjálfs síns hnakkadramb og slíta sig lausa, þá myndi hún upp frá þessu sakna einhvers sem hún vissi ekki hvað var, skorta eitthvað sem hún vissi ekki að hún þarfnaðist. Hún er í þann mund að innsigla nýskapað hlutskipti sitt sem perla sem hrynur í hægagangi af rofinni festi ofan í götu, rakleiðis í ræsið og þaðan út í sjó, þar sem hún mun eftirleiðis deila örlögum með þeim perlum á hafsbotni sem aldrei hafa verið uppgötvaðar.

 

Þessi mynd rennur eldsnöggt upp fyrir henni svo hún fellur umsvifalaust á kné sér, án þess beinlínis að taka um það ákvörðun, hirðir hvorki um lykkjufallandi sokkabuxur sem lúta í lægra haldi fyrir ónákvæmu handverki gangstéttargerðarmanna, né um þöglar upphrópanir taugaenda hnéskeljanna sem gefa ákaft merki um sársauka. Og við undirspil þessara angistarópa tauga- og sokkabuxnaþráða upphefst einhvers lags ómarkviss handadans í, að því er virðist táknrænu hreyfimunstri. Svífandi, fálmandi hendur sem opnast og lokast mjúklega á víxl, andaktugar frammi fyrir augasteini á gangstétt. Enda þótt impúls til aðgerða sé kominn verður að viðurkennast að aðstæður sem þessar eru bæði konunni og höndum hennar fullkomlega framandi.

„Hérna, ætti ég, mætti ég… „ hvíslar hún en áttar sig samstundis á því að augasteinn í götu hefur auðvitað ekki nokkra burði til að svara. Hefur einfaldlega ekki tólin til þess. Svo án allra leyfisveitinga tekur hún hann upp, leggur varfærnislega í lófann, lokar um hann lúkunni og heldur af stað heim. Í þetta sinn á yfirveguðu þokkafullu feti með vigt í hnakkanum líkt og flamenco dansari og gliti í auga því nú á hún sér leyndarmál. Leyndarmál sem fær hana til að roðna þegar herramaðurinn með ljósa hundinn býður henni góðan daginn á leiðinni yfir gangbrautina við heimili hennar.

 

Af lítið notuðu kæruleysi sleppir hún kápunni af öxlunum og niður á gólfmottuna í anddyrinu, hratt niður vinstri handlegg, varlega niður hægri og tiplar svo á skónum inn í stofu. Hún tillir grannholda afturendanum á sófabríkina því það væri á einhvern hátt of eðlilegt að setjast bara í sjálfan sófann.

Og þá kemur hann í hana. Efinn. Og hún efast svo rausnarlega að hennar hversdagslega sjálfsniðurrif hefði skammast sín í samanburði við tilþrifin þarna á sófabríkinni. En þrátt fyrir harkalegar atlögur efans þá tímir hún ekki að opna lófann. Tímir ekki að sleppa takinu á möguleikanum á ævintýri um augastein. Svo hún situr bara og hugsar sig inn í rökkrið sem kemur full fljótt enda fara himnarnir sparlega með birtuna á þessum árstíma svo hún endist örugglega út veturinn.

 

Og þá stendur hún upp og kveikir á kerti sem stendur í gylltum stjaka á brúnmáluðu sófaborðinu. Og um stund gleymir hún steini í lófa og eltir kvikan dans skuggavera á dökku borði uns hönd hennar, fremur en hún sjálf, hefur vit fyrir henni, tekur á sig rögg og opnar sig. Og þar hvílir hann eftir allt saman og horfir á hana. Alls enginn venjulegur steinn. Og kannski er það rökkrið og flöktandi kertaloginn með sínar lipru skuggaverur sem villa henni sýn en hún getur ekki betur séð en að í lófanum sé heilt mannsauga að taka á sig mynd. Eins og hvítt egg með kjarna sem leiðir inn í kjarna einhvers sem hún veit ekki hver er.

Henni verður svo um að hún missir augað næstum í gólfið. Og henni bregður svo við tilhugsunina um að hafa næstum misst það í gólfið að hún missir það næstum aftur í gólfið áður en hún nær stjórn á viðbrögðum sínum. Það fer ekki á milli mála að þarna liggur mannsauga í lófa. Og já hún var sannfærð um að þetta væri auga manns en ekki konu. Því sumt bara veit maður. Og hún situr inn í kvöldið og horfist í augu við auga. Og tengingin dýpkar á sama hátt og skuggarnir á brúnmáluðu stofuborðinu lengjast.

 

Og þegar komið er fram yfir hennar venjubundna háttatíma áttar hún sig á því að hún getur ekki setið þarna bara lífið á enda og horfst í augu við auga, því þó auga í lófa hafi raskað deginum þá er engin ástæða til að hunsa háttatímann. Svo hún fer með augað eins og afleggjarana, vætir bómull með saltvatni og leggur það þar líkt og unga undir væng móður. Hún kann ekki við að bjóða auga góða nótt svo hún brosir bara áður en hún slekkur ljósin og finnst eins og augað brosi á móti. Eða kími við í það minnsta, án þess þó að hafa til þess augnlokin. En hún fær þetta bara mjög sterkt á tilfinninguna og hefur enga ástæðu til að efast um það.

Og hún háttar sig með fiðrildi í maganum, tannburstar sig meðvituð um spegilmynd sína, man eitthvað sem hún áttar sig ekki alveg á hvað er og skríður svo undir sæng og reynir að sofna. Fiðrildin þvælast fyrir henni eitthvað fram eftir en að lokum draga þau djúpt inn andann og flögra svo inn á svæði hins óræða og hún sjálf fylgir þeim eftir.

Og það er ekki útilokað að hana dreymi eitthvað alveg nýtt þessa nótt.

Aðalheiður Halldórsdóttir hefur starfað sem flytjandi og höfundur innan sviðslistaheimsins um áratugaskeið, þar af lengst sem dansari við Íslenska Dansflokkinn og hefur hún hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir störf sín. Á haustdögum gaf Bjartur/Veröld út hennar fyrstu ljóðabók Taugatrjágróður.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...