Dóttir mýrarkóngsins eftir Karen Dionne í íslenskri þýðingu Rögnu Sigurðardóttur kom mér skemmtilega á óvart. Ég les sjaldan bækur sem eru auglýstar sem „sálfræðitryllir af bestu gerð“ eða „spennuþrungin saga [fyllið í eyðuna]“ eða eins og þessi bók er auglýst „uggvekjandi og taugatrekkjandi sálfræðitryllir“. Bækur sem eru auglýstar svona valda mér oftast vonbrigðum. En kápan á Dóttur mýrarkóngsins heillaði mig með dularfullu húsi í miðri mýri og loforði um frásögn af óbyggðalífi.

Sagan er skrifuð í fyrstu persónu frásögn Helenu Pelletier, sem er dóttir mannræningja, morðingja og nauðgara annars vegar og unglinsstúlku hins vegar. Faðir hennar rændi móður hennar þegar hún var fjórtán ára og Helena fæddist þegar mamma hennar var sextán ára. Sögunni er skipt upp í tvær frásagnir; minningar Helenu og nútíðina. Á fyrstu síðum bókarinnar kemst lesandinn að því að faðir Helenu, sem hefur setið í fangelsi síðasta einn og hálfan áratuginn, hefur sloppið úr haldi og myrt tvo fangaverði á flóttanum. Helena hefur á þessum tíma sagt skilið við sitt fyrra líf, gifst og eignast börn og lifir sínu fullkomlega venjulega lífi (þótt síðar komi í ljós að hún sé svolítið óvenjuleg) í efri Michigan.

eltingaleikur í óbyggðum

Annar söguþráðurinn er baksaga Helenu, áður en hún varð ráðsett húsmóðir í einbýlishúsi. Hægt og rólega fær lesandinn að kynnast lífi Helenu í mýrinni, þar sem eina fólkið sem hún þekkti voru foreldrar hennar. Eini félagsskapurinn ímyndaðir vinir. Andrúmsloftið á heimilinu var alltaf spennuþrungið, enda langt frá því að vera ástríkt samband milli mömmu hennar og pabba. Pabbi hennar er ofbeldismaður með mikilmennskubrjálæði og ákveðnar hugmyndir um hvernig lífið eigi að vera.

Í nútímanum fylgist lesandinn með Helenu á hausaveiðum á slóð föður síns. Hún veit að pabbi hennar vill ná til hennar. Hann er þaulvanur óbyggðunum í Michigan og gat auðveldlega sloppið frá leitarhópi lögrelunnar. Helena veit að hún er sú eina sem getur náð honum. Hann veit allt, en það gerir Helena líka.

Oftar en ekki velja höfundar að segja hlið þolenda ofbeldisins, eins og sögu móður Helenu. Það er freistandi að segja frá því hvernig henni leið, en Dionne sleppir því í raun alveg. Helena var ekki náin móður sinni og í þankagangi sínum um móður sína er hún látin giska á líðan hennar. Það er hins vegar aldrei sem lesandi fær að heyra heildstætt samtal á milli þeirra mæðgna, sem er kannski lýsandi fyrir það hve fjarlægar þær voru hvorri annarri, enda var faðir hennar að ala Helenu upp sem tvífara sinn. Samband Helenu við föður hennar er svo allt annað. Sem barn dýrkar Helena föður sinn, elskar hann út af lífinu. Og þessi ást virðist seint deyja. Dionne tekst ágætlega til að koma þessari togstreytu til skila hjá hinni fullorðnu Helenu sem fyrirlítur föður sinn fyrir það sem hann gerði móður hennar en að sama skapi þarf hún að vera honum þakklát, því án hans gjörða væri hún ekki til.

Í topp fimm

Dionne nær að setja tvær gulrætur fyrir framan nefið á lesandanum. Hin fyrri er spurningin um það hvernig í ósköpunum Helena og mamma hennar komust burt frá því ómennska skrímsli sem pabbi Helenu er í raun. Hin er spurningin er hvernig veiðiferð Helenu, sem var nær fullnuma lærlingur föður síns í óbyggðalífi, endar eiginlega. Ég myndi í raun ekki segja að bókin væri spennu- eða sálfræðitryllir. En hún var ágætlega spennandi og hélt mér vel.

Ég hef alltaf haft örlítið dálæti af því að lesa sögur af fólki sem býr við erfiðar aðstæður, þarf að berjast fyrir lífi sínu og hafa fyrir matnum á diskinum. Ein af mínum uppáhaldsbókum í þessum flokki er einmitt Á mörkum mannabyggða, ævisaga James Huntington, sem alltaf ratar aftur og aftur upp á náttborðið hjá mér. Dóttir mýrarkóngsins inn á listann yfir góðar óbyggðabækur, en ekki í topp fimm.

Dionne náði nær að sannfæra mig um að sagan sem hún væri að segja væri sönn. Þess vegna kom það mér afskaplega á óvart að Dionne er í raun komin yfir sextugt, en er ekki tæplega þrítug, íþróttamannslega vaxin kona með ótrúlega vitneskju um óbyggðir Michigan. Það var ekki fyrr en í lokin sem mér fannst Dionne hafa glutrað þræðinum örlítið úr höndunum á sér. Ástæðan fyrir flótta pabba gamla fannst mér ansi hæpin og ósannfærandi. Ég segi ekki meira til að spilla ekki fyrir öðrum.

 

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...