Föst í spíral sem þrengist stöðugt

Penni: Katrín Lilja

Sem ungur og óharðnaður unglingur þótti mér best að lesa furðusögur, vísindaskáldsögur og annað sem innihélt spennu og ævintýri og sem minnst af rómantík. Unglingabækur sem tókust á við erfið málefni unglinga, eiturlyfjaneyslu, vinkonudrama og sæta stráka áttu alls ekki við mig. Mér fannst þær drepleiðinlegar!

Manneskjan á það stundum til að varpa sínum eigin skoðunum yfir á aðra og þannig hefði ég getað afskrifað alveg gríðarlega stóran bókaflokk sem ólesanlegan fyrir unglinga, eingöngu vegna þess að mér fannst svona bækur ekki skemmtilegar. En það þarf að kafa dýpra og skyggnast inní huga annarra.

Skjaldbökur alla leiðina niður eftir John Green kom út í íslenskri þýðingu Birgittu Elínar Hassell og Mörtu Hlínar Magnadóttur á síðast ári. Green sló í gegn með bókinni sinni Skrifað í stjörnurnar (e. The Fault in Our Stars) sem þegar hefur verið aðlöguð að hvíta tjaldinu.

Spírall sem þrengist

Mín takmarkaða þekking af verkum Green segir mér að hann sé nokkuð góður í að segja sögu unglinga sem eiga við eitthvert vandamál að stríða. Í Skjaldbökur alla leiðina niður er það kvíði og þráhyggjuröskun. Aza Holmes er sextán ára og býr í Indianapolis. Besta vinkona hennar er Daisy, kliskukennd persóna sem hefur lengi verið áberandi í amersískum unglingamyndum. Þessi sem talar aðeins of hátt, er aðeins of flippuð og aðeins of litrík. Aza sjálf er róleg en yfirbuguð af þráhyggjuhugsunum um sýklaflóru líkamans og öðrum kvíðavekjandi hugsunum sem erfitt er að slíta sig frá. Einnig syrgir hún sárt látinn föður sinn sem dó nokkru árum fyrr.

Aza og Daisy frétta af hvarfi milljarðamæringsins Robert Davis Pickett. Svo vill til að Aza þekkti eldri son hins horfna milljarðamærings. Þau höfðu verið saman í “sorgarbúðum” (ekki sumarbúðum) eitt sumar, þar sem bæði syrgðu látið foreldri. Hún pabba sinn og hann mömmu sína. Daisy hvetur Özu til að endurnýja kynnin við Davis til þess að freista þess að komast yfir upplýsingar um hvarf föður hans. 100.000 dala verðlaunafé stendur til boða þeim sem stuðlar að því að Pickett finnist.

Hér hefst þá hin eiginlega saga, það er sagan af því hvernig Aza og Davis dragast hvort að öðru og Daisy kynnist sínum kærasta. Tvöföld stefnumót, kossar, kvíði, efi, skemmtun. En undirliggjandi og yfir öllu liggur þráhyggjuröskun og kvíðaskrímslið sem Aza þarf að glíma við. Lesandinn fær að fylgjast með hugsanagangi Özu; órökréttum hugsunum sem hún lýsir sem hugsanaspíral sem heldur endalaust áfram niður og þrengist stöðugt. Lesandinn fær að finna fyrir tilfinningu hennar fyrir töpuðu sjálfi, henni finnst hún strengjabrúða æðri afla. Og það eru óhugnanlegar hugsanir! Því að vissu leiti gæti hún allt eins haft rétt fyrir sér, hún færir mjög sannfærandi rök fyrir því. Þetta eru óþægilegar hugsanir, sem enginn ætti að þurfa að burðast með og festast í.

En það er ekki bara Aza sem þarf að glíma við kvíðann og þráhyggjuna, heldur hefur geðsjúkdómurinn hennar áhrif á alla í kringum hana. Daisy, mömmu hennar og Davis.

Hinar ýktu persónur

Hin rómantíska kvikmynd The Fault in Our Stars segir frá tveimur ungmennum sem glíma við krabbamein.

Það er í raun með ólíkindum hve sannfærandi Green nær að skrifa innan úr huga sextán ára stelpu með þráhyggjuröskun. Aza er mjög fullsköpuð persóna og sannfærandi. Ég komst samt ekki hjá því að hugsa að það hefði kannski mátt slá örlítið af klisjunni. Stundum fannst mér ég vera að lesa ástarsögu úr rauðu seríunni, nema án kynlífssenanna. En rómantíkinn á milli unglinganna var rosaleg. Og ég velti því fyrir mér hve djúpt þenkjandi og vel lesnir sextán ára unglingar eru í raun og veru. Stundum fannst mér Davis vera ofurmannlega gáfaður og djúpt þenkjandi og með undarlega mikla þekkingu á Shakespeare.

Svo vel vill til að ég hef séð bíómyndina sem er byggð á The Fault in Our Stars og ég get vel ímyndað mér að Skjaldbökur alla leiðina niður verði aðlöguð að hvíta tjaldinu. Green virðist næstum hafa skrifað handrit að bíómynd og hann gerði ráð fyrir öllum klisjunum sem eru svo fullkomnar fyrir unglingamyndir, því sem áhorfandi er farinn að búast við.

Þær unglinsstúlkur sem ég hef spurt hafa sagt að þeim líkaði mjög vel við skrif Green. Hvorug hafði reyndar lesið nákvæmlega þessa bók, en báðar sögðu um Skrifað í stjörnurnar að þeim þætti hún frábær lesning einmitt af því hún er svo ýkt. Líf persónanna er eitthvað sem þeim þykir eftirsóknarvert og geta upplifað í gegnum bókina. Skaldbökur alla leiðina niður mun ekki svíkja aðdáendur fyrri skrifa Green.

Þrátt fyrir klisjur og annað sem angraði mig, þá var bókin mjög vel skrifuð, þýdd og aðlöguð að íslensku máli. Þar fyrir utan efast ég ekk i um það að bókin höfði mjög vel til ungmenna. Skjaldbökur alla leiðina niður er ungmennabók sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...