Ég held ég geti fullyrt eftir lestur síðustu daga að barnabækur eru svo miklu meira en bara ÞAÐ. Bækur okkar fullorðna fólksins eru flokkaðar niður í ótal undirflokka en börn eiga eiginlega bara einn flokk. Það er algjör vitleysa. Ég vil halda því fram að einn af undirflokkum barnabóka séu glæpasögur og að undirflokkarnir séu sennilega jafnmargir og undirflokkar bókanna okkar sem eldri eru. Glæpasögur, ástarsögur, fagurbókmenntir, þessa flokka finnum við til dæmis líka í barnabókunum.

Í þessum mánuði hef ég sökkt mér í glæpasögur barnanna því glæpasögum fullorðna fólksins hef ég engan áhuga á. Ég las þær mér til ólífis hér á yngri árum, Sidney Sheldon, Mary Higgins Clark, Stephen King, svona mætti lengi telja. En svo fékk ég nóg og hef ekki snert á þessum flokki bókmenntanna núna í bráðum tuttugu ár. Íslenska krimma hef ég aldrei lesið, ég fæ afskaplega mikinn kjánahroll við að lesa um glæpi í kjallaraíbúð á Skólavörðustígnum eða um lík sem finnst á förnum vegi í slyddunni í vestfirsku sjávarþorpi. Krimmar barnanna er hinsvegar allt annar handleggur. Og bækurnar um Rummunga ræningja eru svo sannarlega eðal glæpabókmenntir.

Otfried Preussler var þýskur rithöfundur, fæddur 1923 í Tékkóslóvakíu. Eftir stríð fluttist hann til Þýskalands og var lengi vel skólastjóri í barnaskóla í Bæjaralandi en stundaði jafnframt allskyns ritstörf. Hann  skrifaði þó mest fyrir börn, bæði bækur og leikrit. Preussler var margverðlaunaður barnabókahöfundur, fékk þar á meðal Evrópsku barnabókaverðlaunin árið 1973, það ágæta ár. Bókin Rummungur ræningi kom fyrst út í íslenskri þýðingu 1967 en sagan kom út í Þýskalandi fimm árum fyrr og vakti mikla gleði og ánægju hjá þýskum börnum. Bókin kom svo út á ótal tungumálum útum allan heim. Þeir eru ófáir hér á Íslandi sem minnast Rummunga ræningja með hlýju þar sem sagan var afar vinsæl og myndskreytingarnar dásamlega fyndnar.

Þessi bók var til heima hjá ömmu og ég gat endalaust flett henni og hlegið að myndunum en söguþráðurinn var gloppóttur þar sem það vantaði í bókina nokkrar síður. Ég lét það þó ekki aftra mér og reyndi að geta í eyðurnar eða þá að afi reyndi að skálda það sem upp á vantaði. Það var því kærkomið þegar bókaútgáfan Dimma ákvað að endurútgefa bókina um Rummung fyrir tveimur árum, í nýrri þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Og fyrir síðustu jól kom svo framhaldið, önnur bókin af þremur, Meira af Rummingi ræningja en sú bók er einmitt umfjöllunarefnið mitt að þessu sinni.

Sagan fjallar um áðurnefndan ræningja, Kasper og vin hans Jobba en þegar hér er komið við sögu hefur Rummingi ræningi setið í varðhaldi í fjórtán daga fyrir að stela kaffikvörn ömmu Kaspers en er nú laus úr prísundinni. Kasper og Jobbi hafa fengið peningaverðlaun frá Fimbulfúsa varðstjóra fyrir að upplýsa um þennan glæp og koma böndum yfir ræningjann. En Rummingi ræningi lærir ekkert af vistinni í varðhaldinu og heldur uppteknum hætti þegar hann öðlast aftur frelsið. Hann ræðst inn á Fimbulfúsa, rænir hann einkennisbúningnum og skilur karlgreyið eftir á brókinni, heldur síðan til ömmu og rænir hana kvöldmatnum og skilur hana eftir í yfirliði af hræðslu og reiði.  Kasper, Jobbi og Fimbulfúsi, með hjálp ömmu reyna hvað þeir geta til að handsama þennan óforskammaða ræningja en allt virðist vonlaust og í stað þess að læsa hann bakvið lás og slá tekst ræningjanum að snúa vörn í sókn, hann rænir ömmunni og krefst lausnargjalds, 555 kalla og 55 í peningum! Og þá hefst æsispennandi atburðarás þar sem vinirnir og Fimbulfúsi, með hjálp miðilsins og spákonunnar hennar Frú Strókalín og hundsins (krókódílsins) hennar, Vísis, reyna að freista þess að leysa ömmu úr prísund Rummungs og koma honum aftur í varðhald.  Þetta verður allt hin undarlegasta vitleysa sem sögur fara af en endar allt vel að lokum, þó ekki hafi miklu mátt muna.

Atgangurinn í þeim félögum öllum er hinn kostulegasti. Sumt er svo ótrúlega fyndið og myndskreytingarnar eftir J.F.Tripp ekki síður skemmtilegar. Eins og til dæmis þegar varðstjórinn endar á brókinni eftir ránið á einkenningsbúningnum og getur ekki látið almenning sjá sig svoleiðis til fara, svo hann felur sig í tómri tunnu af súrsuðum gúrkum og þannig lætur hann vinina með ömmu í eftirdragi flytja sig heim til hennar og fela sig undir súð. Þar tekst teiknaranum afar vel upp.

Þessi bók hefur elst vel, kannski er því að þakka þýðing Aðalsteins Ásbergs. Það er töluverður munur á málfarinu í þessari bók og fyrri bókinni um Rummung ræningja sem kom út á sjöunda áratugnum og ég las hjá ömmu forðum daga. Ég er ekki viss um að sú bók og sú þýðing nái athygli barnanna í dag.  En það eru líka nokkur orð í þessari útgáfu sem þarfnast útskýringar myndi ég halda.  Amma brúkar lonníettur og fellur í öngvit og Fimbulfúsi notar skrúðgöngusverð á sunnudögum og drekkur garðabrúðute.   Þessar nýju útgáfur eru því fullkomnar til upplestrar, þær bjóða upp á líflegan lestur, grettur og fettur og mín reynsla er sú að börnin hafa meira gaman af þeim þannig, heldur en að lesa þær sjálf. Og þannig er líka hægt að útskýra þessi skrýtnu orð sem hætt eru að heyrast í daglegu tali.

Ég hvet því sérstaklega ömmur og afa til að lesa þessa bók fyrir barnabörnin sín, skiptir í raun engu hvað barnabörnin eru orðin gömul, börn og fullorðnir hafa gott af því að láta lesa upphátt fyrir sig öðru hvoru og þessi bók er kjörin til þess.  Ég myndi svo innilega vilja hafa afa minn hér hjá mér til að lesa þessa bók upphátt fyrir mig, miðaldra konunna. Það verður svona gaman að lesa hverju Rummungur ræningi tekur upp á í þriðju og síðustu bókinni.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...