Stök strá í mannmergðinni

Strá, eftir Birni Jón Sigurðsson, er smásagnasafn sem bar sigur úr býtum í samkeppni Forlagsins um nýjar raddir. Samkvæmt umsögn dómnefndar eru sögur Birnis „kraftmiklar og áleitnar sögur úr samtímanum, þær eru myndrænar, skapa sterkt andrúmsloft og koma erindi sínu vel til skila.“

Það er þægilegt að lesa rafbók, sérstaklega í fríi eða á ferðalagi. Lesbrettið er mikið handhægara en bók og þar sem ég er líka alveg sérstaklega pjöttuð um meðferð bóka, þá finnst mér það alltaf svolítil synd þegar beyglast upp á hornin á kiljunum, þegar þær velkjast um í veskinu mínu.

Á meðan ég þeyttist um háloftin, í málmröri og á ægilegum hraða, náði ég að hægja á mínum eigin hugsunum og njóta þess að lesa lágstemmdar sögur Birnis. Í smásagnasafninu eru sex sögur; “Sóley Sigurðardóttir, viðgerðarkona”, “Fossbúinn”, “Tvö hundruð dagbækur”, “Stingur”, “Aron Smári” og “Garðyrkja”. Hver saga segir frá einni persónu. Við kynnumst lífsferli aldraðrar konur sem stelur frá Sorpu, ungum manni sem mótmælir einn virkjanaframkvæmdum, feiminni konu sem fer langt út fyrir þægindahringinn, Fossbúa og framkvæmdastjóra orkufyrirtækis sem fær makleg málagjöld, ungum fótboltakappa og rólyndislegum safnstarfsmanni sem á í innilegu sambandi við náttúruna.

Sögurnar vekja forvitni og virðast í fyrstu vera dimmar og myrkar og þunglyndislegar, þær eru rólegar og lágstemmdar en unun að lesa. Sögurnar enda flestar á jákvæðum nótum. Undirtóninn í öllum sögunum er samspil mannsins og náttúrunnar – sérstaklega íslenskrar náttúru. Sagan um Aron Smára, fótboltakappa, fær mann til að velta fyrir sér hvernig ákvarðanir okkar núna geta haft áhrif á framtíðina. Garðyrkja minnir okkur á að mennirnir eru líka hluti af náttúrunni, þótt allt of margir hafi gleymt því. Bókin skilur mann eftir með hlýja tilfinningu og örlitla von. Stíll Birnis er ljóðrænn, þægilegur og auðlesinn.

Í því hraða samfélagi sem við búum við í dag þá er gott að geta gripið í styttri sögur, ekki verra ef það eru rafbækur sem passa vel í veski eða vasa. Það er ekkert mál að koma meiri lestri að í daglegu lífi, það þarf bara smá vilja. Strá er tilvalin bók til að nýta í að koma frekari lestri.

 

 

 

Hægt er að lesa Sóley Sigurðardóttir viðgerðarkona á Instagram sögu Forlagsins milli 11. júní og 14. júní.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....