Óvíst hvort litla gula hænan fari á eftirlaun

Þegar ég var að alast upp í sveitinni í „gamla daga“ (er ég semsagt komin á þennan stað í lífinu?) var til ágætis bókasafn á heimilinu en á sama tíma, ekki svo mikið af barnabókum. Framan af samanstóð barnabókasafnið af þremur titlum: Sögur Bíblíunnar, Selurinn Snorri og svo bókinni sem var ólík öllum öðrum bókum í broti, Ævintýri barnanna. Þá bók kannast sjálfsagt margir Íslendingar við enda var hún, og sjálfsagt er enn, til á mörgum íslenskum heimilum.

Bókin er klassísk með þekktum ævintýrum á borð við Litlu gulu hænuna, Hans klaufa, Sætabrauðsdrenginn, Rauðhettu, Gullbrá og Litla ljóta andarungann og mörgum fleirum. Líkt og litla ég á sínum tíma, hafa börnin mín haft mjög gaman af að láta lesa upp úr henni fyrir sig. Það má kannski ekki síst rekja til hins skemmtilega efnisyfirlits bókarinnar sem samanstendur af litlum „prófíl“myndum úr hverri sögu – en bókin er ákaflega fallega myndskreytt. Það er því tilvalið að byrja lesturinn á því að láta börnin velja sér sögu í efnisyfirlitinu og hlæja svo kvikindislega þegar þau reyna að ýta á þær – Guð blessi Ipad kynslóðina.

Annar kostur bókarinnar er sá, að í henni má finna ævintýri í öllum lengdum. Sum eru löng, önnur styttri og enn önnur sem ná varla blaðsíðu. Þegar kemur að sögutíma fyrir svefninn hentar þessi fjölbreytileiki í lengd ævintýra mjög vel – ef blessuð börnin biðja enn einu sinni um „bara eina sögu í viðbót,“ má alltaf velja einhverja sem vart dugir upp í nös á ketti.

Svo má ekki gleyma boðskapnum sem má finna í hverju ævintýri bókarinnar: Enginn trúir lygara, ekki tala við ókunnuga, græðgi borgar sig ekki, þú uppskerð eins og þú sáir, fegurðin býr hið innra og svo framvegis. Hér er því um að ræða ákaflega gott tækifæri til að eiga samtal við börnin sín um dyggðir og lesti sem og hvað beri að varast í samfélagi mannanna.

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...