Aðeins of einföld flétta

Sumarið er tíminn fyrir glæpasögur og því var ég spennt að næla mér í eina slíka síðustu helgi. Case Histories eftir Kate Atkinson varð fyrir valinu. Bókin kom út árið 2004 og fjallar um einkaspæjarann Jackson Brodie og þrjú gömul óleyst mál sem falla í hendurnar á honum á sama tíma.

Case Histories gerist í háskólaborginni Cambridge á Englandi sem er gott sögusvið þar sem borgin er lítil og margir tengjast þar. Fyrstu þrír kaflarnir fjalla um málin þrjú: þriggja ára stelpu sem hverfur úr garði á áttunda áratugnum; morð ungrar konur á eiginmanni sínum með öxi á níunda áratugnum; og það sem virðist vera handahófskennt morð brjálæðings á ungri stúlku á tíunda áratugnum. Fjórði kaflinn kynnir svo Brodie til sögu sem fráskilinn, fyrrverandi hermann sem á ungu dótturina Marlee en lifir annars lífi einstæðings.

Þetta er fyrsta bókin um fyrrverandi hermanninn Brodie en síðan þá hafa fjórar aðrar komið út. Mér þótti í fyrstu dálítið erfitt að komast inn í bókina þar sem mjög margar persónur koma til sögu: milli kaflana um Brodie og framvindu málanna eru kaflar sagðir frá sjónarhorni einstaklinga sem tengjast málunum og til að flækja hlutina ennþá meira hafa sumir þeirra skipt um nafn. En þegar ég var búin með eins og þriðjung bókarinnar var ég dottin vel inn í söguna og þótti hún mjög spennandi fram til enda.

Málin leysast of þægilega

Málin eru byggð upp á spenanndi hátt en hvert og eitt gerist á mismunandi áratug og sökum þess hafa sönnunargögn legið óskoðuð eða ekki verið talað við sum lykilvitni í áratugi. Þegar allt kom til alls fannst mér þó málin leysast á of þægilegan hátt, allt tengdist mun meira en raunsætt gæti þótt, og þetta endaði allt á bleiku skýi. Það var einhvern veginn ekki í takt við restina af bókinni.

Bókin hefði ef til vill verið betri með færri persónum, ein persóna kom til dæmis við sögu í nokkrum köflum sem voru skrifaðir frá sjónarhorni hennar en átti aldrei í samskiptum við neinar aðrar persónur í bókinni í nútímanum. Málið sem hún tengdist var einnig holótt og margt lá eftir ósvarað við lok bókarinnar, og því hefði ef til vill verið betra að sleppa því bara. Það hefði einnig mátt bæta við meiri dýpt í sögupersónurnar, sérstaklega við Brodie. Það kemur fram í miðri bók að hann hefur sjálfur upplifað persónulegt áfall sem minnir hann á eitt af málunum, en svo er ekkert kafað djúpt í það mál í framvindu sögunnar. Í ljósi þess að bókin varð að bókaseríu dettur mér í hug að Brodie sé gefin meiri dýpt í framhaldsbókunum.

Þar sem bókin kom út fyrir rúmum áratug fannst mér líka sumt einfaldlega eldast illa. Til dæmis er besti vinur Brodie, Howard, svartur maður og það er gert rosalega mikið úr því og skrítnir brandarar sagðir í kringum það sem bæta engu við bókina.

Heilt yfir er Case Histories spennandi ef ekki ofur raunsæ glæpasaga sem er þægilegt að lesa í sumarfríi. BBC hefur einnig gert þætti upp úr fyrstu þremur bókunum um Brodie sem hafa hlotið prýðilegar viðtökur og gæti því verið gaman að kynna sér þá.

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...