“Fingur, tær og fætur / er matur svo sætur”

Það eru ótal hættur sem leynast í villtri náttúrunni, ekki síst í frumskóginum. Það leynist til dæmis krókódíll sem vill ólmur næla sér í barn að borða. Hinum dýrunum finnst fjarstæða að borða börn og reyna að sannfæra Risastóra krókódílinn um að það sé mun betra að innbyrða aðrar fæðutegundi – svo sem ber og hentur. Sá Risastóri lætur sér þó ekki segjast. Hann vill þó bara krakka að kjamsa á.

Svo ljómandi gott,

ljúffengt kóngafæði.

Þessi krakkaskott

eru algjört æði!

Bít, naga og bryð,

frá hungri fæ frið!

(bls. 28)

Til allrar hamingju eru hin dýrin reiðubúin að bjarga börnunum frá krókódílnum með öllum tiltækum ráðum. Fínufjaðrafuglinn, Ekkisvostór, Hlunkapunki (sem var víst fyndnastur að mati lestrarfélaga míns) og Rani ná alltaf að stöðva hræðilegan og hungraðan Risastóra krókódílinn.

Hér er auðvitað verið að fjalla um Risastóra krókódílinn eftir Roald Dahl í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur með myndskreytingum eftir Quentin Blake. Dahl er sennilega flestum þekktum, enda hefur hann sent frá sér fjölda ódauðlegra barnabóka – MatthildiNornirnar og BFG svo eitthvað sé nefnt.

Risastóri krókódíllinn er skrifaður fyrir yngri börn en til dæmis Matthildur og Nornirnar. Sagan kom fyrst út árið 1978 í Bretlandi. Hún er einföld, fyndin en þó örlítið ógnvekjandi – og allt endar auðvitað vel. Það er stutt í húmorinn í textanum og verður auðvelt að fá krakka til að skella upp úr við lesturinn. Það veitti mér einstaka ánægju að krókódíllinn er hagyrðingur og kveður skemmtilega um hungur sitt í krakka, eins og sést hér að ofan. Ólíkt fyrri bókum eftir Dahl sem hafa verið gefnar út á íslensku er þessi gefin út með litmyndum. Þannig ná myndir Blake að njóta sín enn betur og ævintýralegur frumskógurinn lifnar við á síðunum.

Þýðing bókarinnar er einstaklega góð – lipur og leikandi – og það er auðvelt að detta í að lesa hana með hrynjanda og bros á vör. Bókhneigður álitsgjafi Lestrarklefans segir bókina vera spennandi, fyndna og skemmtilega. Fyndnast var þó þegar flóðhesturinn Hlunkapunki stangaði Risastóra krókódílinn. Við skemmtum okkur stórvel við að lesa bókina saman. En örlög krókódílsins voru þó ögn hræðileg. Það er svolítið hrottalegt að enda lífið í sólinni, jafnvel þótt maður sé Risastór krókódíll sem elskar að éta börn.

 

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...