Lestrarklefinn mælir með – Léttar í lestri

Haustið er gengið í garð með öllum sínum stormum, regni og litadýrð. Haustinu fylgir þó líka nýjir nemendur, nýjir lestrarhestar og þörf eftir góðum lista yfir léttlestrarbækur sem henta þessum nýju lesendum. Lestrarklefinn tekur því saman einn ágætis lista fyrir börn sem eru farin að lesa eitthvað, en vilja halda tryggð við vel myndlýstar bækur með stóru letri.

Bækurnar sem á eftir fara eru bækur sem eru auðveldar í lestri fyrir yngstu lesendurna, þá sem eru í 1.-4. bekk. Bókunum er raðað upp eftir erfiðleikastigi og því ætti að vera nokkuð auðvelt að vinna sig niður listann og á sama tíma þjálfast í lestri. Við vonum að sem flestir nýjir lesendur finni eitthvað við sitt hæfi.

Binna B. Bjarna og Heyrðu Jónsi

Í bókunum fylgjast krakkarnir með Jónsa eða Binnu. Jónsi og Binna glíma við ýmis vandamál og erfiðleika í hverri bók.  Með hverri bók er því hægt að taka með sér einhvern lærdóm.

Stjáni og stríðnispúkarnir

Í bókunum segir af Stjána – ungum dreng sem á kommóðu. Í kommóðunni leynast fimm litlir púkar – stríðnispúka. Bækurnar eru mjög mikið myndskreyttar og myndirnar eru í lit. Inn á milli fer frásagnarmátinn yfir í myndasöguform, sem gerir flettingar enn hraðari hjá lesara og tilfinninguna fyrir árangri enn meiri. 

Vera til vandræða

Í bókunum um Veru eru þrjár sögur í einni bók. Vera heitir Veróníka, en er kölluð Vera af pabba sínum sem bætir við „til vandræða“. Það er þó ekki henni að kenna að hún lendi í vandræðum, hún er bara segull á vandræði!

Þín eigin saga – léttlestrarbækurnar

Ævar Þór skrifaði styttri útgáfur af Þín eigin bókunum. Eins og í hinum lengri Þín eigin bókum þá þarf lesandinn að ákveða hvaða leið hann ætlar að velja í gegnum bókina. Bækurnar eru fullar af húmor og hryllingi og listilega myndskreyttar af Evönu Kisu.

Handbók fyrir ofurhetjur

Bækurnar um Lísu slógu í gegn hjá krökkum á aldrinum 6-12 ára. Bækurnar segja frá Lísu sem er lögð í einelti. Hún kemst yfir rauða bók sem veitir henni ofurkrafta. Bækurnar eru mjög mikið myndskreyttar og í teiknimyndasöguformi. 

Svarta Kisa

Bækurnar um Svörtu kisu eru bráðskemmtilegar, mikið myndskreyttar og á svipuðu erfiðleikastigi og bækurnar um Stjána og Stríðnispúkana. Bækurnar fjalla um Svörtu kisu sem kemst oftar en ekki í skemmtileg ævintýri og undarlegar aðstæður. 

Hulda Vala dýravinur

Hulda Vala lendir í ævintýrum og kynnist oftar en ekki einhverjum dýrum í leiðinni, enda mikill dýravinur. Bækurnar eru með stórum stöfum og höfða sennilega frekar til stelpna fremur en stráka. Nú þegar eru komnar út átta bækur um Huldu Völu svo ef þitt barn dettur í bækurnar um Huldu Völu þá ætti úrvalið að vera nokkuð gott næstu vikurnar.

Nanna norn

Nanna norn býr í svörtu húsi í skóginum. Húsið er svart að utan og svart að innan, gólfteppin eru svört, stólarnir svartir og meira að segja baðkarið er svart. Auðvitað er kötturinn hennar kolbikasvartur líka og þess vegna verður hann alveg ósýnilegur þegar hann lokar grænu augunum. Þetta bakar tóm vandræði og þá er eins gott að Nanna kann að galdra!

Skúli skelfir

Sögurnar af Skúla Skelfi eru einfaldar og krakkar þekkja Skúla sum hver af sjánum, sem getur stundum auðveldað foreldrum að skapa áhuga fyrir bókinni. Skúli lendir í vandræðum sem oftast má rekja til hans eigin hvatvísi, frekjugangs eða óþekktar. Skúli er nefnilega svolítill hrotti stundum. En stundum er hann bara óskaplega misskilinn. Til eru tveir flokkar af Skúla Skelfis bókum: Létt að lesa Skúli Skelfir og Skúli Skelfir.

 

Ljósaserían

Það hafa safnast margar vandaðar íslenskar léttlestrarbækur í safn Ljósaseríunnar. Bækurnar eru sniðnar að yngri lesendum – með góðu línubili, stórum stöfum og stuttum málsgreinum.

Óliver Máni

Óliver Máni er töfrastrákur. Hann á þó ekki alltaf sjö dagana sæla og mörg vandamálin sem hann þarf að eiga við eiga sér hliðstæður í okkar heimi. Hjá honum er þó meira af körtuvörtum og töfrasprotum.

Langelstur bækurnar

Bækurnar um Eyju og Rögnvald eru geysivinsælar hjá krökkum á fyrstu árum grunnskóla. Eyja er einlæg persóna og Rögnvaldur, hennar aldni vinur, getur fært krökkum nýja sýn á eldra fólk. Bækurnar eru skrifaðar á léttu tungumáli, um heim sem allir krakkar þekkja vel – skólann. 

Ropandi Rúna

Ropandi Rúna er sagan af Rúnu sem getur ropað rosalega hátt, svo hátt raunar að hún getur feykt hlutum um koll. Svo verður hún fræg fyrir ropann! Bókin er skrifuð á einföldu máli, með stórum stöfum og mjög mikið myndskreytt.

Spæjarastofa Lalla og Maju 

Lalli og Maja eru forvitnir og klárir krakkar sem elska góðar ráðgátur og í stað þess að láta sér leiðast í skólafríum hafa þau stofnað spæjarastofu sem sérhæfir sig í að leysa glæpamál og furðulegar ráðgátur. 

Ristastóri krókódíllinn

Bók sem er létt í lestri eftir sagnameistarann Roald Dahl. Hver veit nema sagan af krókódílnum gæti verið fyrsta skrefið í átt að fleiri bókum eftir Roald Dahl. 

Seiðfólkið

Fjögurra bóka serían um Seiðfólkið stoppar stutt við á skólabókasöfnum. Sögurnar segja frá þremur vinum, Arel, Enós og Sól sem alast upp við mismunandi aðstæður en eru samt bestu vinir. Bækurnar henta einstaklega vel krökkum sem hafa áhuga á spennu og yfirnáttúrulegum hlutum í lesefni sínu.

Hulduheimar

Bækurnar segja frá Evu, Sólrúnu og Jasmín sem hafa verið bestu vinkonur síðan þær byrjuðu í skóla. Dag einn finna þær dularfulla öskju sem færir þær í hina töfrandi Hulduheima, þar sem Naðra drottning reyndir með göldrum og slægð að koma höggi á Teit konung og hirð hans. Vinkonurnar lenda í hverju ævintýrinu á eftir öðru.

Kepler62

Alls eru sögurnar sex um Jonna, Ara og Maríu en önnur sería í flokknum stendur enn óþýdd. Fyrir krakka sem hafa áhuga á geimferðum, geimnum, vísindum og einhverju dularfullu þá eru þetta réttu bækurnar.

Það er ekki auðvelt að finna bók að lesa fyrir óviljuga lesara, en vonandi mun einhver af þessum bókum vekja upp áhugann á lestrinum svo ekki verði aftur snúið. Hafa ber í huga að það er mikil sigurtilfinning sem fylgir því að lesa heila bók spjaldanna á milli og oft eykst sú tilfinning sé bókin bundin inn í harðspjalda kápu. Það er eitthvað meira fullorðins að lesa harðspjaldabók, finnst þeim.

Listinn er unnin í samstarfi við Ingibjörgu Ösp Júlíusdóttur, bókavörð á Bókasafni Akraness.

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...