Eru fiskar okkur framar í þroska?

Svartuggar er sjöunda ljóðabók Gísla Þórs Ólafssonar. Hún er gefin út af gu/gí en þessa fallegu kápumynd hannaði Ásgerður Arnar. Fiskar eru umgjörð bókarinnar, höfundur hefur sankað að sér allskyns fróðleiksmolum um mismunandi fiska og líf þeirra neðansjávar.

Fyrsta ljóð bókarinnar varpar upp súrrealískum myndum af kanínufiskum sem „hoppa út úr sturtunni þar sem þú áður settir stíflueyðirinn“ (bls. 7). Þemað heldur áfram inn í miðja bók þar sem ný og ný hugrenningartengsl eru mynduð út frá nöfnum fiska. Brátt kemur þó í ljós að ljóðabókin fjallar í kjarnann um þunglyndi, ekki fiska. Fiskurinn er ákallaður, „ísfiskur / veistu nokkuð hvað það er / sem veldur þunglyndinu?“(bls. 15) Stundum er líkt og þunglyndið mæti sem óboðinn gestur inn í ljóðin, „strýk eftir bogadregnu bakinu / geri bjöllutónlist úr hreistri þínu / þunglyndi er erfitt“ (bls. 38) Það er spurning hvort að flétta mætti þunglyndið betur inn í ljóðin, með meiri næmni en stundum er ekki augljóst hvernig þunglyndið á við á hverjum stað. Sársaukinn er þó augljóslega mikill, „ég, sem er með sverðfisk í gegnum hjartað / augun úti / oddurinn í gegn“ (bls. 39). Hér eru hlutverkum veiðimanns og fisks snúið við, nú er það fiskurinn sem deyðir manninn, líkt og maðurinn hefur drepið fiskinn með öngli eða spjóti.

Bestu ljóðlínur bókarinnar má finna í ljóðinu „Net draumana“: „Ljóðabátur dreginn / spriklandi orðin / í netunum“ (bls. 29). Orðin eru „blóðrekin“, hafa verið veidd og eru nú undir valdi ljóðmælanda sem er með „svartugga í maga“ (bls. 54).

Samfélagið sem heild er einnig til umfjöllunar, „fiskar eru fiskar / og þurfa ekki stéttaskiptingu / grímur eða tilbúið stjórnmálasjálf / til að fela minnimáttarkenndina“ (bls. 46). Niðurstaða ljóðmælanda sem virðist harla hrifinn af samfélagi sínu er sú að „kannski eru fiskar okkur framar í þroska“ (bls. 46).

Svartuggar hefur góða spretti, fjallar um alvarleg málefni en að húmorinn læðist inn, inn á milli. Nafnið á sjálfri bókinni finnst mér virkilega fínt, sérstaklega eftir að það birtist í ljóði og þýðing þess varð ljós.

 

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...