Geimferðir, hryðjuverk og sprengjur – árið er 2096

Hildur Knútsdóttir var tilnefnd til Íslensku barnabókaverðlaunanna árið 2018 fyrir bókina Ljónið en nýútkomin bók Hildar, Nornin, er einmitt framhald Ljónsins. Áður hefur Hildur hlotið Fjöruverðlaunin fyrir Vetrarfrí og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Vetrarhörkur.

Nornin fjallar um Ölmu sem er nítján ára gamall garðyrkjufræðingur og vinnur í baunahúsi á Hellisheiðinni. Henni er boðin vinna í einkagróðurhúsi Olgu Ducaróvu við að hugsa um framandi og eftirsóknarverðar plöntur sem okkur myndi finnast í dag hversdagslegar. En sagan á að gerast 2096, loftlagsbreytingar hafa umturnað jörðinni og samfélagi mannanna og þegar Alma kynnist Indru verður ekkert eins og það var í lífi Ölmu.

Sögusvið bókarinnar er sláandi, bókin á að gerast 2096, telurðu að breytingar á heimsmyndinni séu svona skammt undan?

Það þarf nú ekki annað en að kíkja á spárnar hjá IPCC (Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar), bera þær saman við þá losunarkúrfu gróðurhúsalofttegunda sem við erum á (spoiler: hún er ekki að fara neitt niður á við) og þá er heimsmyndin sem ég dreg upp í bókinni reyndar svolítið bjartsýn – eða eiginlega bara mjög bjartsýn. Vonandi rætast þessar spár ekki, en til þess að tryggja það þá þurfum við að fara að taka okkur saman í andlitinu og minnka losun strax. Annars verður veröldin bara árið 2050 gjörólík þeirri sem við þekkjum núna.

En að því sögðu þá er þetta auðvitað skáldsaga. Ég gef mér ákveðnar forsendur, og byggi það sem ég get á staðreyndum og bestu vísindaþekkingu sem við höfum, en svo fer ég að skálda. Og stærsti óvissuþátturinn er auðvitað hvernig ríki heims bregðast við nýrri veröld. Munum við þétta raðirnar þegar hitastig hækkar og auðlindir þverra eða verða átök? Í heiminum sem ég bjó til þá braust út þriðja heimsstyrjöldin, en svo þéttum við raðirnar og fórum að vinna saman. Sagan gerist nokkrum árum eftir það.

Það er mjög sterk ádeila í sögunni, Ducaróva og Kría eru nokkurskonar yfirvald í bókinni, eru þær táknrænar fyrir ríkjandi öfl dagsins í dag?

Nei ég myndi ekki segja það – þær eru að reyna sitt besta en þær eru ekki fullkomnar og þær aðhyllast vissulega hugmyndafræði sem er umdeild. Mjög umdeild, reyndar.

En ég hef mikið hugsað um það hvernig sagan mun dæma okkur og þau sem eru við stjórnvölinn núna, í okkar nafni, og ég er hrædd um að það verði ansi hart. Ekki bara vegna þess hvernig gegndarlaus neysla síðustu áratuga hefur stefnt öllu lífi á jörðinni í hættu – og við erum ekkert að draga úr henni þrátt fyrir að vita hvað er í húfi – heldur líka vegna þess hvernig er farið með dýr í verksmiðjubúskap og hvernig er komið fram við hælisleitendur og flóttamenn. Við, á þessu ríka landi sem höfum nóg pláss og eigum nóga peninga og tölum fjálglega um mannréttindi á tyllidögum, við förum með fólk eins og þau séu rusl, bara afþví þau eru fædd annars staðar en við. Er okkar samfélag, sem situr hjá og gerir ekkert á meðan fólki – litlum börnum – er vísað út í óvissuna og dauðann, erum við svo ólík Þýskalandi í uppgangi nasismans? Þessar vangaveltur hafa kannski litað söguna.

Hvað eiga lesendur að taka með sér eftir lestur bókarinnar?

Ekkert sérstakt. Þetta er alls ekki áróðursrit og bókin var ekki skrifuð í neinum tilgangi öðrum en að halda áfram með söguna sem hófst í Ljóninu, sem kom út í fyrra – og vonandi vera spennandi og skemmtileg. Af öllu framansögðu mætti kannski ætla að bókin sé mjög heví og fjalli bara um fasisma, loftslagsbreytingar og stríð, en ég reyndi eins og ég gat að hafa það bara í bakgrunninum. Enda langaði mig ekkert sérstaklega til að skrifa um loftslagsvána, eiginlega langaði mig það bara alls ekki. En ég sat uppi með þessa tímalínu, afþví þessi þríleikur hverfist um dularfulla atburði sem tengjast ákveðnu húsi í Miðbænum og gerast með reglulegu millibili, og það er bara ekki hægt að skrifa bók sem gerist í framtíðinni og láta einsog loftslagsbreytingar séu ekki raunverulegar.

Áróðursbækur eru heldur ekkert skemmtilegar aflestrar, sérstaklega ekki ef þær eru að þykjast vera skáldsögur. Þannig að fyrst og fremst þá er Nornin bara vísindaþriller; það eru geimferðir, hryðjuverk og sprengjur. Hinu lauma ég bara í bakgrunninn. Enda skiptir mestu máli – finnst mér – að sagan sjálf sé góð.

Í þeim heimi sem lýst er í bókinni er íslenskan enn lifandi, telurðu að tungumálið myndi lifa slíkar breytingar og lýst er í bókinni?

Góð spurning! Ég pældi ekki einusinni í því þegar ég skrifaði bókina, heldur fannst mér alveg sjálfsagt að gera ráð fyrir því. Vonandi var ég ekki í ruglinu með það.

En í bókinni þá skipta tungumál reyndar minna máli en þau gera núna, enda er búið að finna upp svona kuðunga til að hafa í eyranu sem þýða allt jafnóðum. Sem mér skilst reyndar að sé verið að vinna í að hanna í þessum skrifuðu orðum.

 

Við grípum niður í 5. kafla bókarinnar. Alma og vinkona hennar, Ísabella, eru á leiðinni á djammið þar sem Alma hittir Indru í fyrsta sinn.

Þær gengu út á lestarstöðina á Dyngjuveginum. Það var kalt og Alma var ekki nógu vel klædd. Hún renndi úlpunni upp í háls og stakk höndunum í vasa á meðan þær biðu á brautarpallinum.

Lestin var troðin og þær fengu ekki sæti. En það voru bara fjögur stopp frá Laugardalnum og niður í gamla miðbæinn svo það var allt í lagi.

Lestin nam staðar við Hverfisgötu með lágu hvússi og þær gengu upp Ingólfsstrætið. Það var mannþröng á götunum og háhýsin risu til beggja handa, svo Ölmu leið eins og hún væri hluti af á sem rynni á botninum á þröngu gljúfri.

Við endann á Bankastrætinu var verið að hækka girðinguna sem lá meðfram Ingólfsstrætinu og lokaði Kvosina af. Hún hafði verið meira en tveggja metra há, skreytt gaddavír efst, en samt voru alltaf einhverjir að brjótast yfir hana og reyna að taka yfir gömlu, fúnu húsin sem stóðu í flæðarmálinu. Flest þeirra voru dauðagildrur og Alma skildi ekki hvers vegna borgin var ekki búin að láta rífa þau fyrir löngu. Sjávarborðið hækkaði hratt og það var löngu farið að flæða yfir eiðið þar sem Lækjargatan hafði verið áður. Húsin sem stóðu í brekkunni fyrir ofan fóru reglulega á kaf í vondum veðrum. Það hafði ungt par dáið bara vikunni áður þegar hjallur hrundi yfir þau. Þau höfðu kannski ætlað að eiga rómantíska nótt í elsta hluta borgarinnar. En Alma sá ekki hvað var rómantískt við fúinn ormétinn við og gargandi máva.

Lækjartorgið sjálft minnti Ölmu alltaf á lítið stöðuvatn, afmarkað á tvo vegu af háum steinsteyptum, augnstungnum húsum sem höfðu kannski einu sinni verið reisuleg, en voru nú svo sorfin af vatni og vindum að þau litu út fyrir að hanga uppi á þrjóskunni einni saman. Ölmu rámaði óljóst í að það hefði líka staðið hús við norðurendann á torginu, en það hafði hrunið fyrir nokkrum árum. Stundum sá mátti sjá glitta í rústirnar á lágfjöru.

En það var háflóð núna, sjávarborðið náði langleiðina upp að grunni gamla Menntaskólans, húsinu sem hafði verið flutt upp á Árbæjarsafn þegar gamli varnargarðurinn – sem var byggður fyrst eftir að jöklarnir voru farnir að bráðna svo höfin fóru að rísa – brast. Í kringum sárið á skólalóðinni stóðu önnur gömul hús, sem einhver hafði greinilega ákveðið að væru ekki nógu verðmæt til að það tæki því að bjarga þeim. Þegar Alma virti þau fyrir sér fannst henni hún næstum því geta fundið lyktina af þeim; molnandi steypunni, rotnandi viðnum, seltunni, þaranum.

Amma hennar átti hús þarna. Alma hafði einhvern tímann spurt hana hvers vegna en amma hennar hafði bara hrist höfuðið og sagt „Hvers vegna ekki?“ eins og það væri einhvers konar svar. Kannski hafði hjallurinn eitthvað tilfinningalegt gildi fyrir hana. Það var eina skýringin sem Ölmu kom í hug. En hún var líka ósennileg. Því amma Kría var ekki manneskja sem stjórnaðist af tilfinningum.

Ef Alma fengi einhverju ráðið væri löngu búið að rífa öll húsin í Kvosinni og planta gróðri, í versta falli þara, til að binda koltvísýring. En helst einhverjum trjám sem þyldu seltuna. Það var alveg áreiðanlega of kalt fyrir fenjavið, einu trén sem hún þekkti sem þoldu viðstöðulausa seltu. Svartur fenjaviður var kuldaþolnastur, en Alma efaðist samt um að hann þyldi við í Norður-Atlantshafinu. En kannski væri hægt að bæta svartan fenjavið, splæsa inn genum úr einhverri furu og búa til nýja tegund? Ducaróva færi áreiðanlega létt með það. Blendingar sem hámörkuðu nytsamlega eiginleika voru hennar sérsvið.

En nú voru þær komnar að Prikinu svo Alma stakk hugsuninni ofan í hólf til geymslu, staðráðin í að skoða hana betur síðar.

Það hlykkjaðist löng röð meðfram gaflinum á pínulitla bárujárnshúsinu sem hékk eins og lúið gluggaskraut framan á svörtu glerhýsinu sem reis upp úr því. Einhverjum hafði verið mikið í mun að varðveita framhliðina á eldgömlu húsinu. En sýnin minnti Ölmu alltaf á litla sprungna hnetu sem upp úr teygði sig svartur, ónáttúrulegur angi, þráðbeint upp til himins.

Eva veifaði þeim úr miðri röðinni. Hún var með Jóel, strák sem hún hafði kynnst í heimspekinni og virtist eyða mestum tíma sínum með þessa dagana. Alma hafði aldrei almennilega náð því hvort þau væru saman eða ekki.

Alma og Ísabella smokruðu sér í röðina til þeirra. Strákarnir fyrir aftan mótmæltu harðlega en þær létu það sem vind um eyru þjóta. Röðin mjakaðist áfram, hægt en örugglega og um það bil tíu mínútum síðar var komið að þeim.

Dyravörðurinn hleypti þeim inn í lítið anddyri. Ölmu skildist að það hefði verið fyrsta hæðin á upprunalega staðnum. Henni fannst óskiljanlegt að það hefði verið hægt að reka vinsælan bar í svona litlu rými. Alveg sama þótt að núna byggju hundrað og fimmtíu sinnum fleiri á landinu en þegar hann var upp á sitt besta. Þau tróðu sér í gegnum þvöguna að barnum og Ísabella pantaði karókíherbergi. Þau fengu úthlutað einu á fjórtándu hæð, en það var fjörutíu mínútna bið þangað til það losnaði. Þau keyptu sér drykki og gengu inn í stóran salinn fyrir innan.

Lestu þetta næst

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.