„Í þvottinum losna þræðir í sundur“

Kápuna hannaði Hjálmar Kakali Baldursson.

Hinn afkastamikla Jónas Reyni þekkjum við fyrir ljóðabækurnar Leiðarvísir um þorp og Stór olíuskip sem komu út hjá Partusi. Nú hefur Jónas skipt um forlag og gefur út hjá Páskaeyjunni. Hann hefur einnig gefið út tvær skáldsögur, Millilendingu og Krossfiska. Nýjusta ljóðabók hans, Þvottadagur, er síðasti kaflinn í ljóðabókaþríleik samkvæmt lýsingu bókarinnar.

Draumkenndur heimur

Bókin er einstaklega myndræn og er lesandanum hellt inn í draumkenndan heim ljóðmælanda með myndum á borð við þessa hér: „gólfplöturnar blotna eins og kex / dökkna hægt / molna undan rúminu / ég hryn á hæðina fyrir neðan // rúmið hefur ummyndast í árabát og skellur á vatnsfleti“ (bls. 8) Bókin er ferðalag ljóðmælanda á milli nýrra heima sem birtast honum á þessum svokallaða þvottadegi, sjálfið er tekið í gegn, bernskuminningar myndast og afmyndast, sem og umhverfið sjálft.

Borgin er í veigamiklu hlutverki, „það er loksins kominn vetur / snjórinn er skuggaefnið / sem dregur fram æðarnar í borginni“ (bls. 6) Borgin er oft séð ofan frá, líkt og í þessari sterku mynd þar sem götur borgarinnar verða æðar með snjónum, skuggaefninu. Ástarsorgin er einnig umfjöllunarefni þar sem myndlíkingunni „borgin sem æðakerfi“ er haldið áfram: „við höfum ákveðið að hætta að hittast / stöndum kyrr eins og blóðtappi“ (bls. 7)

Einmanaleikinn undir svörtu teppi

Þvottadagurinn er uppgjör, þræðir rakna: „Næturhimininn er svart ullarteppi / það er þakið á veröldinni // í þvottinum losna þræðirnir í sundur / og heimurinn þenst út“ (bls. 15) Veröldin sjálf er undir ásamt dauðanum: „þegar líf / hættir að vera til / fæðist ný tegund af dauðanum // dauði sem tengist ekki lífinu / dauði sem er eingöngu hann sjálfur“ (bls. 15).

Ljóðin hjálpa ljóðmælanda að takast á við tilfinningar, einmanaleikann og lífið sjálft: „og á hverri nóttu skrifa ég eitthvað til að sofna / og ljóðin mín fjalla ekki um líflausar plánetur / eða hellamálverk djúpt ofan í jörðinni // eða gardínur / eða vatn / eða sorp / þau eru til að sýna hvernig manni líður // hvernig maður er einn“ (bls. 19) Þetta eru áhrifarík erindi og varpa ljósi á hugarfar ljóðmælanda og tilgang ljóðabálksins.

Næturhimininn sem svart ullarteppi verður að minni í bókinni sem kemur aftur fyrir, nú í samhengi við barnæskuna, „næturhimininn er svarta ullarteppið / strengt á milli stólanna í stofunni / heimagert virki sem ég lék mér í einn / en í dag umlykur það veröldina“ (bls. 20) Einmanaleikinn heldur áfram að vera stef. Ljóðmælandi virðist þó takast að sigra einmanaleikann og finna ástina eða skilning frá annari mannveru, en síðustu línur bókarinnar eru: „og það eru (tveir) hlýjir líkamar / tveir hlýjir líkamar undir svörtu teppi“ (bls. 54)

Sterkt ljóðverk

Það eru ógrynni af áhugaverðum og áhrifaríkum myndlíkingum í bókinni sem ég hef því miður ekki pláss til að telja upp hér en þetta er ljóðabók sem verður hægt að lesa aftur og aftur og uppgötva eitthvað nýtt í hvert sinn. Síðan mæli ég einnig með að lesa hana hægt til að gefa ímyndunaraflinu tækifæri að draga upp þessar myndir. Þvottadagur er sterkt ljóðverk, persónulegt og kallast á við einhvern innri kjarna manneskjunnar. Hún er falleg, full af fortíðarþrá. Þvottadagur er einn stór miklihvellur, upphaf alheimsins, útþensla sjálfsins.

Lestu þetta næst