Ármann Jakobsson sendi frá sér tvær bækur í nýliðnu jólabókaflóði. Önnur þeirra er glæpasagan Urðarköttur en hin bókin er af allt öðru tagi. Barna- og unglingabókin Bölvun múmíunnar – fyrri hluti gerist í ónefndri evrópskri stórborg þar sem Júlía og mamma hennar búa á forngripasafni.

Dag einn kemur nýr gripur á safnið – múmían Hóremheb. Múmíunni fylgja sögur af óförum og bölvun. Fólk hefur horfið, slasast og dáið sé það í námunda við múmíuna. Allt er þetta mjög dularfullt og skömmu eftir komu múmíunnar á forngripasafnið fara undarlegir hlutir að gerast. Einhver skrifar QWACHA í rykið á hillunni í varðklefa safnsins, næturvörðurinn fellur í dá og síðan er blóði slett út um allan salinn sem múmían stendur í. Það kemur líka í ljós við lestur bókarinnar að mamma Júlíu er mikið veik. Allt vekur þetta Júlíu ugg og hún sækir sér styrk í vini sína tvo. Saman stofna þau leynifélag til að rannsaka QWACHA og múmíuna.

Aldursskekkjan

Í viðtölum um bókina hefur Ármann útskýrt ótta Júlíu við múmíuna sem órökréttan ótta, hún sé að varpa ótta sínum við móðurmissi yfir á múmíuna. Sjálfri fannst mér þetta ekki endilega augljóst við lestur bókarinnar. Ótti Júlíu við múmíuna var augljós og ótti hennar um móðurina sömuleiðis. En að þetta væri einn og sami óttinn er alls ekki sjálfgefin niðurstaða, ekki síst í ljósi þess að leynifélag þeirra vina leiðir í ljós að það er margt gruggugt í gangi í krinum múmíuna.

Júlía á að vera fimmtán ára gömul. Það er barn í tíunda bekk samkvæmt íslensku bekkjarkerfi. Það eru árin sem kynvitund vaknar og hormónar fara á flug. Það er nokkuð eðlilegt að unglingar velti fyrir sér hinu kyninu og Ármann kemur því að í bókinni. Júlía og vinkona hennar eru mjög uppteknar af leðurbuxnaklæddum rössum og ungum myndarlegum lögreglumönnum. Það er kannski ívið fullorðinslegt fyrir 15 ára stelpur, en það voru þó frekar viðbrögð lögreglumannsins við áhuga stelpnanna sem voru óviðeigandi og það angraði  mig svolítið við lestur bókarinnar. Einnig stofna Júlía og tvö önnur fimmtán ára ungmenni leynifélag. Sjálf man ég eftir að hafa stofnað leynifélag í fimmta bekk (Rauða höndin – við vorum sjúklega kúl), en ekki í tíunda bekk. Mér fannst aldursskekkja að láta unglinga í tíunda bekk stofna leynifélag saman – alveg sama hvort þau séu að rannsaka leynilega atburði tengda múmíu á forngripasafni.

Frískandi tilbreyting í unglingabók

Ármann sækir innblástur í alls kyns gamlar glæpa- og ráðgátusögur eins og „sögur eftir Victor Hugo, Alexandre Dumas, Jan Terlouw, Arthur Bernede, Jacques Tardi og Enid Blyton“ eins og hann sagði sjálfur í viðtali við Lestrarklefann. Þetta er augljóst fyrir vanan lesanda sem les bókina. Það var frískandi að lesa ungmennabók sem sækir í eldri glæpasagnahefðir og það kom nokkuð vel út. Það var andi hinna gömlu glæpasagnameistara sem sveif yfir öllu, en sögupersónurnar voru með snjallsíma. Mér fannst Ármanni takast vel til! Þetta er þó líklega eitthvað sem lesandi úr markhópi bókarinnar tekur ekki eftir, ekki fyrr en síðar á lífsleiðinni.

Það er erfitt að hanna grípandi og flotta kápu, en mér þykir kápan á Bölvun múmíunnar mjög flott og höfðar eflaust til fjölmargra barna og unglinga sem hafa áhuga á múmíum. Sjálf var ég forfallinn aðdáandi Egyptalands til forna á mínum yngri árum og eflaust leynast fleiri af mínu tagi í yngri kynslóð dagsins í dag.

Heilt yfir þótti mér spennandi að lesa bókina. Hún er prýðis afþreying fyrir bæði fullorðna og unglinga. Þó velti ég því fyrir mér hvort hún hefði ef til vill átt að vera miðuð að yngri lesendahópi en unglingum. Krakkar í fimmta og sjötta bekk stofna leynifélög. Eldri ungmenni reyna við karlmenn komna yfir tvítugt, ekki fimmtán ára unglingsstelpur (ég kannast alla vega ekki við það…). Bókin hittir því í örugglega í mark hjá yngri lesenda hóp sem og eldri, en skýtur fram hjá unglingunum. Að því sögðu þá endar Ármann bókina mjög spennandi og titill bókarinnar gefur til kynna að búast megi við framhaldi. Ég bíð spennt eftir að lesa meira um allt hið dularfulla sem tengist QWACHA.

ES. Ég hefði verið sjúk í að lesa bók eftir prófessor sem krakki! Hve svalt!

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...