Hugsjónirnar, vonin og svo raunveruleikinn

Kristín Helga Gunnarsdóttir sendi frá sér bókina Fjallaverksmiðja Íslands fyrir jólin. Bókin var flokkuð sem unglingabók, enda fjallar bókin um ungmenni sem hafa nýlokið stúdentsprófi af fjallamennskubraut á Höfn. Þau eru ung, nítján ára, full af eldimóði og von og sameinuð í nýrri vináttu. Það er því alveg viðeigandi að flokka bókina sem unglingabók, en hún á erindi til eldri lesenda líka. Bókin kallast á við Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels sem Kristín Helga sendi frá sér árið árið 2017.

Hinir nýútskrifuðu stúdentar af fjallamennskubraut hefja ferðina aftur til Reykjavíkur í válegu vorveðri sem hrekur þau að Breiðárbragga. Þar ákveða þau að fara ekki lengra það sumarið og stofna fríríki, lifa af mat úr ruslagámum, vinna við að þjónusta ferðamenn og njóta lífsins. Með í hópnum er Emma, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum, sem talar tæpitungulaust um allt sem kemur að loftslagsmálum. Fríríkið blómstrar og í gegnum Emmu verða ungmennin fræg um allan heim. Líf þeirra verður söluvara og peningaöflin eru ekki lengi að gera sér grein fyrir gróðavoninni. Þegar Emma finnst meðvitundarlaus í kajak úti á miðju Jökulsárlóni kemur í ljós að það eru sterkari öfl að verki en ungmennin geta ráðið við.

Frábær persónusköpun

Bókin byrjar með hvelli. Það fyrsta sem lesandinn les er hvernig Emma er á milli lífs og dauða. Það er augljóst að glæpur hefur átt sér stað. Bókin er því hvort í senn glæpasagaga, hugsjónabók og loftslagsbók. Það sem er kannski áhrifamest í bókinni eru samtölin á milli ungmennana. Hvernig þau sjá heiminn og hvert hlutverk fríríkis þeirra á að vera, skoðun þeirra á einstaklingshyggju, kapítalisma og loftslagsmálum. Ungmennnin hafa öll sterkar hugmyndir, eins og vill oft vera með ungmenni á þessum aldri, og samræður þeirra á milli eru líflegar. Kristín Helga nær að koma til skila gríðarlega sterkum sjónarmiðum í samtölum þeirra. Persónusköpunin leikur í höndunum á henni.

Að standa við gildi sín?

Þegar líður að lokum sumarsins standa ungmennin frammi fyrir stórri ákvörðun sem tvístrar hópnum. Hvenær er réttlætanlegt að víkja frá gildum sínum? Er það nokkurntíman réttlætanlegt? Er kannski of auðvelt að falla í freistni og verða þannig hluti af vandamálinu?

Það er nokkur ádeila í bókinni og ef til vill svolítil predikun. Krakkarnir hafa sterkar skoðanir og það sem þau segja mega allir taka til sín. Mér virðist sem Kristínu Helgu sé þetta efni, bráðnun jökla og neysluhyggja, mikið hjartans mál. Sem er skiljanlegt í ljósi þess að það styttist í að allir jöklar landsins verði komnir á brott líkt og Ok. Myndirnar úr bókinni eru úr fjölskyldusafni Kristínar Helgu, teknar af dóttur hennar Erlu Guðnýju Helgadóttur jöklafræðingi. Nafn bókarinnar kemur til vegna þess að Kristín Helga sjálf prjónaði ullarhúfur í líki fjalla og var fyrir vikið kölluð fjallaverksmiðja – álíka húfur skipa stórt hlutverk í bókinni. Ádeilan angraði mig ekki. Fjallaverksmiðja Íslands er vel skrifuð og vel uppbyggð bók sem á erindi til allra lesenda.

Það er hlutverk listamanna að setja samtímann í samhengi, að reyna að varpa ljósi á eitthvað sem er erfitt að henda reiður á. Kristínu Helgu tókst vel til í þessari bók. Hún dregur saman vandamál samtímans í þessum ungmennum. Ef allir hugsa bara um sjálfan sig, hvernig er þá hægt að leysa vandamál heimsins?

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...