Heift er önnur bók Kára Valtýssonar og sjálfstætt framhald af fyrstu bók hans Hefnd sem fékk töluverða athygli þegar hún kom út árið 2018, enda þá fyrsti íslenski vestrinnHeift fær því titilinn annar íslenski vestrinn. Kári heldur áfram með sögu Gunnars Kjartanssonar, Íslendings sem flæmist til Vesturheims vegna bágra kjara á Íslandi árið 1866.

Þegar lesandi grípur aftur niður í líf Gunnars í Heift er komið árið 1874 og Gunnar býr í Manitoba, skammt frá Winnipeg, með konunni sinni Vivian og tveggja ára syni þeirra. Í fyrstu senu bókarinnar pjakkar Gunnar í gaddfreðna jörð til að taka gröf fyrir frú Delacroix sem virðist hafa fylgt þeim hjónum til Kanada frá Bandaríkjunum. Veðrið er fimbulkalt, allt er freðið, barnið veikt og allt er hreinlega frekar ömurlegt í lífi Gunnars. Lífið er erfitt, þau hjónin bláfátæk og dreymir um eitthvað betra fyrir son sinn. Þegar Gunnar rekur augun í auglýsingu um gullfund í Missouri ákveða þau hjónin að freista gæfunnar og taka þátt í gullæðinu í Bandaríkjunum.

Sagan er sögð frá fjórum sjónarhornum; sjónarhorni Gunnars, indíánans Gráa-Úlfs, liðþjálfsans Custers og útlagans Jesse James. Götur Gunnars og hinna þriggja liggja saman á einhvern hátt. Það er nokkuð algeng leið hjá Kára að koma upplýsingum til lesandans í gegnum innri þankagang sögupersónu. Þannig hugsa þessir karlar allir eitthvað með sjálfum sér og enda svo þankaganginn á því að segja eitthvað upphátt við sjálfa sig. Hefði ein persóna verið með þessi persónueinkenni hefði það gengið upp, en Kári gefur öllum persónum sínum þetta innra tal. Það var stundum aðeins of mikið af því góða. Ég velti því líka stundum fyrir mér hvort ekki hefði verið hægt að gefa konunni í lífi Gunnars, Vivian, meira hlutverk og stærra. Það hefði verið gaman að kynnast henni nánar.

Stíll Kára er annars mjög nákvæmur. Það er mikið af lýsingum á umhverfi, fatnaði, útliti persóna og öðru sem gerir umhverfi og líf fólks í Bandaríkjunum á þessum árum mjög nálægt lesandanum. Lyktin af skít, sóti, tóbaki og fersku blóði, bragðið af vískíi sem brennir kverkarnar. Gullgrafarabærinn Deadwood er þannig ljóslifandi fyrir augum lesanda sem og hið mikla ofbeldi sem fylgir lífinu á sléttunum. Að sama skapi er heiftin sem bókin fær titil sinn af mjög áþreifanleg í botnlausri hefndarfýsn indíanans Gráa-Úlfs.

Bókin er sögð vera sjálfstætt framhald af Hefnd en þó verður að segjast að það myndi gagnast lesanda mikið að hafa lesið fyrri bókina. Svo virðist vera sem Gunnar hafi valdið miklum usla í lífið Gráa-Úlfs sem kveikir þessa óslökkvandi heift. Kári kemur því reyndar vel að í bókinni hvað þeim tveimur fór á milli í fortíðinni og maður skilur vel hina miklu reiði indíánans, en sjón er sögu ríkari.

Kári hefur sagt í viðtölum um fyrri bók sína (sem af einhverjum ástæðum var flokkuð sem ungmennabók?) að hann hafi mikinn áhuga á sagnfræði. Hann setur þann varnagla í lok Heiftar að hann hafi farið frjálslega með sagnfræðilegar staðreyndir í bókinni. Það er kannski ágætt að hafa það í huga fyrir eldheitt áhugafólk kúreka og landvinningafólk í vestrinu að það er frjálslega farið með staðreyndir. Þetta angraði mig þó ekkert við lesturinn, enda veit ég lítið sem ekkert um þennan tíma í Bandaríkjunum.

Það er áhugavert að íslenskur höfundur taki sér fyrir hendur að skrifa um sögu útlaga og hermanna í Villta-Vestrinu. Kári notar Gunnar sem tengingu við Ísland, enda var fjöldinn allur af Íslendingum sem freistuðu þess að hefja nýtt líf í Vesturheimi. Það er alveg eins líklegt að einn þeirra hafi orðið að útlaga í Villta-Vestrinu, eftirlýstur fyrir morð, líkt og Gunnar. Mér fannst skjóta ögn skökku við að blanda inn í söguna persónum Jesse James og Custer liðþjálfa. Þeirra persónur, opinberar og ímyndaðar, hafa verið notaðar í mýmörgum sögum og verið greindar í þaula. Það er alveg nóg að hafa Gunnar og tenginguna við Ísland. Gunnar verður þannig íslenskur Forrest Gump Villta-Vestursins og það talar sterkt til hins íslenska lesanda. Það var þó skemmtilegt að sjá Kára nikka örlítið til Íslendingasagnanna í bókinni, til dæmis með innyflum sem vella úr búkum eftir góða sveiflu eggvopns svo eigandi þeirra þarf að reira beltið svo þau renni ekki alfarin út. Eða þegar höggvið er af svo miklu afli með exi í haus að jaxlarnir skjótast úr munni fórnarlambsins.

Heift er myndræn og forvitnileg saga af Íslendingi í Villta-Vestrinu. Söguþráðurinn er örlítið ruglingslegur vegna þess að lesandi veit ekki tenginguna á milli hinna mismunandi sjónarhorna sögunnar. Þegar sjónarhornum fækkar í lok sögunnar rennur frásögnin áfram af meira öryggi. Þegar komið er að enda bókarinnar er erfitt að slíta sig frá sögunni, því lesandinn verður að vita hvað gerist næst. Endirinn var virkilega góður.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...