Þetta er ekki brynja heldur skurn

Þetta er ekki brynja heldur skurn 
Óperan 100.000 

„Hárský?“ Spyr afgreiðslu manneskjan og augu mín finna það sem hún bendir á. 

„Verð ég?“ 

„Já“

Ég tek hárský.

 

Hárskýið er þunnt strik sem ég toga í sundur þar til ég get tyllt því á höfuðið. Sumir myndu kalla það bleikt hárnet en í kvöld er það ský og ég er með himinbrot á höfðinu þegar ég geng inn í salinn.

Ljósin eru bleik og sviðið er áhorfendabekkur. Við sem komum til að horfa eigum að flæða um rýmið en tónlistarfólk hefur stillt sér upp á áhorfendapöllunum. Allt er öfugsnúið en þó ekki. Það er kandíflossvél hérna og kandíflossskraut, bleik ský sem passa við hárnetið mitt. Tvær kynlífsdúkkur fylgjast með atburðum á sviðinu.

Á mörkum gjörnings og óperu

Við erum á frumsýningu Óperunnar hundrað þúsund, sem er bæði auglýst sem ný íslensk ópera og fram er tekið að verkið sé á mörkum gjörningalistar. Tónlistin er samin af Þórunni Grétu Sigurðardóttur og textinn af Kristínu Eiríksdóttur, en leikhópurinn Svartur frakki setur verkið upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Leikstjóri er Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Guðný Hrund Sigurðardóttir sér um búninga og leikmynd, Hákon Pálsson um myndbandsvinnu. Lýsing Friðþjófs Þorsteinssonar er falleg og áhrifarík og hjálpar áhorfendum að fylgja framgöngu verksins sem fer fram um allt svið og meira að segja utandyra, og áhorfendur vita aldrei hvar óperan byrjar næst.

Tónlistarfólkið Katie Elizabeth Buckley, Franciscus Wilhelmus Aarnink og Grímur Helgason flytja tilraunakennda og fallega tónlist á ótrúlegustu hljóðfæri. Herdís Anna, í hlutverki móðurinnar, einnar af þremur persónum verksins, birtist okkur í videóverki um leið og hin raunverulega Herdís stígur á sviðið og syngur um barnið sitt sem er allt í öllu og um leið ekki neitt. Svo breytist Herdís í firrta drottningu sem kvartar yfir að leigubílstjórinn hennar sé svo sorgmæddur að hann sé ljótur. Væri ekki hægt að gera eitthvað í þessu, spyr hún. Áhorfandinn er heillaður.

Kynslóðatráma í líberettu 

Saga drottningarinnar fléttast við sögu móðurinnar og þriðju persónu verksins, dóttur hennar, sem veltir því fyrir sér hvort mamma hennar sé ofbeldismanneskja og telur upp ýmsar misgjörðir hennar í sinn garð. Texti Kristínar er svo ljóðrænn og fallegur að hann nístir, en er um leið launfyndinn. Áhorfendur hlæja um leið og þér gretta sig, við fáum gæsahúð og kandífloss. Eitt af meginþemum verksins er kynslóðatrámað, það sem formæður okkar bera aftur úr öldum. Það að setja svona verk upp í óperuformi er algjör snilld, en ég hef aldrei áður séð algjöra nútímaóperu. Þvílík leið til að vekja áhuga á listformi sem hefur gott af smá auka ást. Auk þessa er verkið sjónrænt heillandi, búningarnir eru æðislegir, og stemningin sem skapast er fullkomin.

Án þess að gefa upp allt sem gerist í sýningunni er framvinda hennar bein, Herdís Anna syngur allar persónurnar og gerir það listavel. Framburðurinn, svipbrigðin og allur flutningur er óaðfinnanlegur, og ég tók menntaða söngkonu með mér á sýninguna til að ganga úr skugga um að þetta væri ekki allt æðislegt. Menntaða söngkonan gefur þessu grænt ljós. 

Bleikt ský eymdar

Þetta er fallegt verk, djúpt og dásamlegt. Það er gott að fá að hlæja um leið og maður engist um. Það er hollt að sjá kapítalisma, neyslu og ógeðshegðun efri stétta á kostnað þeirra sem ekkert eiga. Það er þungur sannleikur í umbreytingu fátæklings í valdhafa sem syngur um allt sem er ekki nógu gott í höllinni hennar – um öll þægindin og herlegheitin sem eru samt ekki nógu góð. Sama hvað þrælabörnin sem létu lífið í þágu þeirra lögðu sig fram. Núverandi ástand heimsins er ekki langt undan í sterkri ádeilu verksins, stríð og þjóðarmorð dansa fyrir hugskotum mínum á meðan firrtur valdhafi syngur til eggs sem á allt í heiminum. 

Það er erftitt að fjalla um verkið án þess að segja allt sem gerist í því, svo í staðinn fyrir að segja meira um það segi ég bara til hamingju með dásamlegt verk Kristín Eiríksdóttir, Þórunni Gréta Sigurðardóttir, Salvör Gullbrá og allir hinir. Til hamingju Herdís Anna Jónasdóttir með dásamlega framistöðu og fullkomna söngrödd. Til hamingju Katie Elizabeth, Franciscus Wilhelmus og Grímur Helgason, hljóðfæraleikarar og snillingar. Til hamingju og takk fyrir mig.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...