Sögur til næsta bæjar: Sunna uppgötvar sannleikann

Sunna uppgötvar sannleikann

Eftir Rósu Ólöfu Ólafíudóttur

Heit og geislandi uppnumin í sæluvímu. Ást og aðdáun allra þeirra sem nutu hennar mettaði sál hennar dýrðlegri fullnægju, sem sökk niður í djúp vit­undarinnar. Fullnægju sem varð að óslökkvandi, já óseðjandi þrá,sem hvatti hana til dáða.Fékk hana til að skína og skína. Já, hvort hún skyldi skína í allri sinni dýrð!

Skyndilega féll skuggi á þessa dásamlegu stund. Það fór hreinlega um hana. Já, hún skalf við tilhugsunina. Skyndilega varð henni ískalt, þrátt fyrir að henni væri alltaf heitt í hamsi. Auðvitað gat hann ekki látið hana í friði. Þessi andstyggilegi ísmeygilegi andstæðingur. Hann hafði, svo lengi sem hana rak minni til , reynt að gera lítið úr henni. Hún vissi alveg hvað fór svona í taugarnar á honum. Ó,já hann var hreinlega að sturlast úr öfund. Hún vissi nákvæmlega hvað hann þráði heitt þá ást og aðdáun sem hún var aðnjótandi. Guð hafði svo sannarlega haft á réttu að standa þegar hann fullyrti að langdregin þrá geri hjartað sjúkt. Hún hafði alltaf fyrirlitið þennan óvildarmann sinn en kannski var honum bara vorkunn.

En þessum ref hafði tekist að læða efa inn í sál hennar. Hún gat hreinlega ekki heilli á sér tekið eftir samtalið.

Þau hittust eins og vanalega. Hún var að ganga niður, hann var á leiðinni upp. Vanalega virti hún hann ekki viðlits en það var eitthvað sem fékk hana til að staldra við.

„Góðan daginn eða réttara sagt góða kvöldið mín kæra. Þú ert óvenju lengi að setjast.“

Skyldi það hafa verið tónninn í röddinni sem fékk hana til að hlusta á hann? Röddin var smeðjuleg. Hún leit upp og við henni blasti illkvittingslegt glott á skuggsælu andlitinu. Hún hafði nákvæmlega enga löngun til að eiga við hann orðastað. En hann hætti ekki: „Mikið tekur það mig sárt hve margir þinna fyrrverandi eru farnir að forðast þig. Mér þykja þeir aldeilis koma illa fram við þig.“

Hún þurfti ekki að horfa framan í smettið á honum til að skynja háðið. „You wish you fokking „lunatik“ varð henni að orði.

“Gvöð ég vissi ekki að þú værir svona viðkvæm eeeelskan.“

„Er ég viðkvæm fyrir því sem þú segir? Ha, ha áttu annan betri?“

„Nei að sjálfsögðu ertu ekkert að velta þér upp úr slíkum smámunum. Ég meina, hverju skiptir máli þó þau flýji í hópum, já í flokkum undan þrúgandi nærveru þinni. Þú er hreinlega alveg að gera út af við þau. Ég meina það, öðrvísi þér áður brá!“

„Æ, góði Þegiðu,“ sagði hún og ætlaði að halda leiðar sinnar.

„Nei í alvöru talað, hlustaðu nú á mig. Þú veist að ég er að segja satt. En þú berð enga ábyrgð á þessari breyttu afstöðu þeirra. Ég segi þér satt, það er alls ekki þér að kenna, en þau skella skuldinni á þig .“

„Hvað ertu eiginlega að tala um?“ Spurði Sunna forviða á þessari undar­legu orðræðu.

„Sko, þau segja þig vera bæði uppáþrengjandi og óþægilega. Þau segja ástandið vera orðið svo alvarlegt, að þau neyðist til að flýja undan þér í öll skúma­skot. En þau gera sér enga grein fyrir orsökinni. Þau fatta ekki að það eru þau sem hafa eyðilagt sína eigin náttúrulegu vörn? Þetta kallast að hengja bakara fyrir smið.“

Á þessari stundu neyddist Sunna til að viðurkenna að orð hans létu hana ekki ósnerta.

Það voru þessi orð sem tendruðu efann. Þau stungust eins og sverð inn í hjarta hennar. Þau beindu egginni hnitmiðað á sæluna, sem átti sér einskis ills von.

Það hafði engum dottið í hug að á að örskotsstundu væri hægt að svipta hana sælunni.

Hún opnaði munninn, ætlaði að svara honum en orðin sátu föst á tungunni.

 „Nú flýja þau í flokkum, hitannn af nekt þinni, svona framkoma ofbýður réttlætiskennd minni,“ sagði hann þungbúinn. Það kom á hann hik og hann virtist velja orð sína af varkárni: „Auk þess er ég afskaplega lítið fyrir þennan múg, sem er farinn er að sækja í mig. Ég vil fá að vera í friði, skilurðu? Komast óáreittur mína leið og fá að skemmta mér við að varpa skuggum á trén og vaða í skýjunum. Ég nýt þess að hlaupa mitt skeið með úlfunum og hlusta á gólið sem berst frá hæðunum. Ég vaki með svefnlausum og brosi við tungl­sjúkum, þeir eru mitt fólk og kennt við mig. Ég kæri mig satt að segja ekki hót um þá sem flýja þig.“

Sunna greip andan á loft, tilfinning framandi samstöðu fyllti brjóst hennar og hún tók skref í átt að honum. Hann bandaði höndunum frá sér og hrópaði: „í gvöðanna bænum, komdu ekki nær þú ert að kæfa mig. Það vakir ekki annað fyrir mér með þessu spjalli en að vernda mitt prívatlíf.“

Hann ræskti sig: „Nú er mér ekki til setunnar boðið, klukkan er orðin níu. Viltu nú vera svo væna að athuga hvað þú getur gert í málinu.“

Sunna snéri sér undan, ringluð og áttavilt: „Hvenig gat þessi hafnandi framkoma sært hana svo djúpt? Hún sem alltaf hafið fyrirlitið hann. Gat verið að hann öfundaði hana ekki?“

Hún táraðist. Já, hún þurfti hágráta. En það var ekki heiglum hent, því tárin sem steymdu niður kinnarnar skildu einungis eftir sig „hviss hljóð.“

Rósa Ólöf Ólafíudóttir var nemandi í námskeiðinu Sögur til næsta bæjar vorið 2024 í Háskóla Íslands. 

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst