Lágstemmd en áhrifamikil

Egill spámaður eftir Lani Yamamoto er barnabók sem kom út fyrir jólin 2019 hjá Angústúru. Bókin fékk verðskuldaða tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki Barna- og ungmennabóka, en Lani er höfundur bæði texta og mynda.

Allt í röð og reglu

Egill spámaður fjallar um dreng sem á erfitt með að tala og tjá sig, „Egill var ekki dónalegur né feiminn en það var sama hvað hann vildi segja, þegar hann reyndi að segja það þá kom það alltaf vitlaust út úr honum.“ Egill heldur mikið upp á almanakið sitt, en það segir honum „hvenær sólin reis og settist, og hvenær sjórinn flæddi að og fjaraði út.“ Almanakinu getur hann treyst þar sem það er alltaf rétt. Það er allt í röð og reglu hjá honum Agli, hann heldur sömu rútínu og fer alltaf út í sjoppu á laugardögum með sömu upphæð til að kaupa sér sama nammið. Lesandanum fer strax að finnast vænt um hann Egil. Straumhvörf verða í bókinni þegar nýja stelpan í skólanum verður á vegi hans og setur alla rútinu Egils úr skorðum. Með stelpunni nýtur Egill sín, þau leika sér í vindinum og við að kasta steinvölum í sjóinn. Þó að skórnir hans hafi orðið blautir, nammið klárast og gleraugun hans týnst, finnst honum „allt svo rétt, hvernig sem á stóð.“

Myndirnar tala sínu máli

Bókin er skrifuð af mikilli næmni fyrir félagslegum erfiðleikum Egils og hentar lágstemmdur stíllinn gríðarlega vel. Það er ekki mikill texti í bókinni, enda er hann alveg óþarfur þar sem dásamlegu myndirnar tala sínu máli. Bókin andar, lesendurnir komast inn í hugarheim Egils þar sem orðin eru fá og myndirnar taka yfir. Margar opnur eru einfaldlega myndskreytingar sem lýsa hugarástandi Egils. Ég myndi jafnvel kalla bókina ljóðabók þar sem textinn rennur það vel og hvert einasta orð hefur tilgang. Engu er ofaukið.

Dveljið við hverja opnu

Ég var einstaklega hrifin af þessari bók og mæli með henni fyrir lesendur á öllum aldri. Ég las hana bæði ein, fyrir sjálfa mig, og svo fyrir ung eyru. Þegar ég las hana fyrir smáfólkið opnaði ég upp á samræðu varðandi tilfinningar Egils og hvað myndirnar voru að segja án orða. Þegar ég las hana sjálf fannst mér ég geta dottið inn í hugleiðsluástand. Ég mæli með að þið dveljið við hverja opnu og hverja myndskreytingu, lesið á milli línanna og njótið andrúmslofts bókarinnar. Ég fæ mig knúna til að gefa þessari dásamlegu bók fimm stjörnur.

 

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...