Hér sit ég, móðir í samkomubanni en þó ekki í sóttkví (ennþá allavega), og horfi á nýjasta Hvolpasveitaþáttinn í tólfta sinn. Mér er ekki vorkunn þetta er svo sem ágætur þáttur en hann á þó ekkert í söguna sem ég ætla að fjalla um í dag. Sagan er ýmist nefnd Yngismeyjar eða Litlar konur en á frummálinu heitir hún Little Women og er ein frægasta skáldsaga 19. aldar.

Magnaður höfundur

Ef ég fengi að velja mér fimm rithöfunda til að sitja í kleinu- og kaffiboði (lesist osta- og rauðvínsboði) með þá væri höfundur Yngismeyja klárlega einn af þeim! Bókin er skrifuð af Louisu May Alcott og er sagan að vissu leyti byggð á hennar eigin æviminningum. Alcott tróð ótroðnar slóðir og gifti sig meðal annars aldrei. Aðspurð hvers vegna sagði hún að hún hefði aldrei fundið þann eina rétta en hins vegar hefði hún fundið margar réttar konur 😉

Sagan segir frá March systrunum fjórum, þeim Jo, Amy, Beth og Meg. Allar eru systurnar jafn ólíkar og þær eru margar. Meg er elst og þar af leiðandi mjög skynsöm, Amy er yngst og algjör dekurrófa, Beth er sú þriðja í röðinni og er blíðust og síðan er það Jo sem ber eiginlega uppi bókina en hún er rithöfundur og strákastelpa fyrir allan peninginn sem tengir ekki við hinar kvenlegu dyggðir síns tíma. Hún er því, eðli málsins samkvæmt, líklega áhugaverðasta persónan í bókinni að mínu mati og er hennar söguþráður í raun sá sem tekur mest pláss. Vissulega er að finna karlkyns persónur í bókinni og ber þar helst að nefna besta vin Jo, Laurie Laurence sem leikur þar all stórt hlutverk og er ómissandi persóna í bókinni.

Líf systranna er langt í frá auðvelt. Eftir að hafa farið í gjaldþrot er faðir stúlknanna sendur í herinn og við tekur nýtt líf þar sem peningarnir vaxa alls ekki á trjánum og stúlkurnar þurfa að takast á við lífið og öllu sem því fylgir af sjálfstæði og áræðni.

Femínísk og raunsæ

Sagan er mjög áhugverð fyrir þær sakir að hún lýsir vel þeim raunveruleika sem konur stóðu frammi fyrir á 19. öld í Bandaríkjunum. Bókin ber það einnig með sér að vera skrifuð af konu sem var femínisti í eðli sínu og ein þeirra kvenna sem barðist hvað harðast fyrir kosningaréttinum ásamt frelsun þræla. Sterkar konur sem komast í gegnum alla erfiðleika er því eitt af lykilþemanu í bókinni.

Þetta er svo ljúf og yndisleg bók og ég mæli svo innilega með henni, sérstaklega á þessum tímum þar sem allir eru búnir að fá ógeð af Netflix og Landanum, eru hræddir við að hósta á almannafæri og þora varla að sækja póstinn í póstkassann (byggt á eigin reynslu).  Síðan skemmir ekki fyrir að nýverið kom út kvikmynd byggð á sögunni í útfærslu Gretu Gerwig en myndin hefur farið sigurför um heiminn. Hvursu næs!

Á þessum tímum þarf maður akkúrat nokkrar ljúfar og sterkar systur í líf sitt!

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...