
Íslenskt samfélag á 19. öld
Heilt yfir þótti mér bókin vera gott skáldverk.
Sú staðreynd að bók sem var skrifuð á þriðja áratug síðustu aldar um atburði sem gerðust rúmum hundrað árum fyrr sé ennþá auðlesin er mikið afrek.
Stórverk íslenskra glæpasagna
Textinn er nútímalegur fyrir sinn útgáfutíma og nálgast rithöfundurinn viðfangsefnið á klókan hátt með því að nýta sér Eyjólf sem var raunveruleg persóna frá þessum slóðum sem sögumann. Ég tek undir það sem kemur fram í afar fróðlegum formála bókarinnar að „dramatísk saga og harmrænir atburðir ein og sér sé engin trygging fyrir því að skáldsaga sé vel heppnuð. Það geti ekki hver sem er tekið stórbrotna örlagasögu eins og sögu Steinunnar og Bjarna og gert úr magnað skáldverk,“ (bls. 15-16); Gunnar var einstakur penni sem tekst að skapa magnaða stemningu og persónulýsingar og jafnvel samúð fyrir morðingjunum. Sem nútímalesandi er mín helsta gagnrýni á bókina að mér þóttu kaflarnir um réttarhöldin verða heldur langdregnir. Langur hluti bókarinnar fjallar um réttarhöldin og er Eyjólfur þar í lykilhlutverki að tala við bæði Bjarna og Steinunni og að reyna að varpa ljósi hvað hafi raunverulega gerst. Mér þótti þessi hluti bókarinnar síðri en hinir en gæti það stafað af litlum áhuga mínum á frásögnum úr réttarhöldum og því ekki víst að þetta gildi um alla lesendur. Rithöfundi tekst engu að síður að koma fyrir bæði kímni í þessum köflum, sem og sorg, yfir þessum hræðilegu atburðum og stendur sá hluti réttarhaldanna þegar morðingjarnir koma fyrir upp úr meðal bestu hluta bókarinnar. Ef eitthvað er hefði ég viljað fá lengri eftirmála í bókina.
Svartfugl er hiklaust ein af stórverkum íslenskra glæpasagna sem vert er að kynna sér. Fyrir þá sem sjaldan lesa sögulegar skáldsögur býður bókin upp á tækifæri til að lesa um veruleika fólks á Íslandi á nítjándu öld á afar aðgengilegan hátt.