Mávahlátur fyrsta bók Kristínar Mörju Baldursdóttur sló í gegn þegar hún kom út árið 1995 og voru fljótlega gerð eftir henni leikrit og kvikmynd sem einnig nutu mikilla vinsælda. Ég las fyrst Mávahlátur sem unglingur en ákvað að nýta páskafríið til að endurnýja kynnin við þessa dásamlegu bók sem er alveg jafn góð, ef ekki betri, en mig minnti.
Mávahlátur er í senn kvennasaga, glæpasaga, þroskasaga og ástarsaga, samhliða því að vera trúverðug aldarfarslýsing á sjötta áratug síðustu aldar í litlu sjávarplássi á Íslandi. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Öggu sem er á tólfta aldursári og má segja að sagan spanni þann tíma sem hún verður að ungri konu. Hún missti kornung báða foreldra sína og býr því hjá ömmu sinni og afa og móðursystrum. Við upphaf sögu kemur hin glæsilega frænka hennar Freyja í þorpið eftir langa dvöl í Ameríku þangað sem hún giftist mörgum árum áður. Hún gefur þá skýringu að maður hennar sé látinn og að hún hafi selt húsið þeirra og eigur, greitt upp skuldir og drifið sig með örfáar eignir til Íslands. Freyja er eins og goðsagnavera með svart þykkt hár niður á mjaðmir, ísblá og stingandi augu og  fullkomin vöxt og fer allt á annan endann í friðsælu þorpsveröldinni við komu hennar. Frá upphafi er Agga tortryggin í garð Freyju og lýsir henni sem kaldari viðmóts en lík, samtímis þess er hún þó endalaust forvitin um líf hennar og lífshætti. Agga er í raun endalaust forvitin og hnýsin um hvað er að gerast bæði á sínu eigin heimili og þó víðar væri leitað og tengja ef til vill margir sem voru jafn forvitin börn við hegðun hennar. Hún á vin í Magnúsi á lögreglustöðinni og leyfir honum að fylgjast með heimilislífi sínu og spyr hann líka spjörunum úr um hvað gerist á hans vöktum.

Tvö morð og jafnvel fleiri

Mávahlátur vakti verðskuldaða athygli við útgáfu og hefur verið í uppáhaldi hjá aðdáendum Kristínar Mörju allar götur síðan. Persónulega finnst mér hún svo vel heppnuð því það er einfaldlega ekki hægt að flokka hana sem eina tegund af skáldskap. Í henni gerast tvö morð og er möguleiki að annað hafi verið framið áður en atburðarrásin hófst og þannig mætti flokka bókina meðal glæpasagna. En það er ekki heldur aðal umræðuefni bókarinnar. Að mínu mati er rauði þráðurinn frekar styrkur kvenna og stuðningur sem þær geta haft af hver annarri, við lok bókarinnar verður Öggu ljóst þýðing þess að standa saman og þroskast þar með upp úr barnalegum hugsunum sínum.
Frá útgáfu hafa margir gagnrýnendur dásamað þessa bók og ætla ég ekki að fara frekari orðum um hana, bókin er að mínu mati einfaldlega fullkomin; hún er skemmtilega skrifuð með bæði dass af húmor og alvarleika og snertir á svo mörgu: ástandinu, kjarabaráttu, sjómannslífinu, krötum og íhaldinu, stéttaskiptingu, stöðu kvenna og því sem fylgir að búa í litlu samfélagi.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...