Innsýn í líf og hugsanir frú Vigdísar

Á dögunum var ég úti að hjóla með fimm ára frænku minni og benti henni á Bessastaði og sagði að þarna byggi forseti Íslands. Ég spurði hana svo hvort hún vissi hvað forsetinn héti? Hún vissi það sko! Vidgís Finnbogadóttir, sagði hún hátt og skýrt. Er það kannski að furða að barnið haldi að Vigdís sé forseti? Hún fékk fjölmörg eintök af bók Ránar Flygenring um Vigdísi forseta í jólagjöf og núna síðustu vikur hefur óvenju mikið verið fjallað um Vigdísi forseta í útvarpi, sjónvarpi og blöðunum, í tilefni af nítíu ára afmæli hennar og að í ár séu fjörutíu ár frá sögulegu kjöri hennar. Nafn Vigdísar þekkir hvert mannsbarn á Íslandi enda var hún fyrst kvenna til að verða þjóðkjörinn forseti  og gengdi embættinu í sextán ár. Færri þekkja þó vel til starfa hennar sem forseta og hvernig manneskja Vigdís er. Ein á forsetavakt: Dagar í lífi Vigdísar Finnbogadóttur eftir Steinunni Sigurðardóttur var endurútgefin á dögunum, rúmlega þrjátíu árum eftir að hún kom fyrst út en í bókinni er einmitt veitt einstök innsýn í líf og starf Vigdísar í forsetaembætti, bæði í hennar daglegu störf og því hvernig hún hugsaði um og nálgaðist starfið.

Fjölbreytt verkefni forseta

Ein á forsetavakt kom fyrst út árið 1988 og var metsölubók það ár. Bókin segir frá sjö dögum í lífi Vigdísar Finnbogadóttur sunnudag til laugardags frá 1987 til 1988. Á þessum tíma var Vigdís hálfnuð með tíma sinn í forsetaembætti og er sagt frá ýmsum mismunandi hliðum á starfi hennar. Í fyrsta kaflanum er hún til að mynda að taka á móti gestum á sunnudegi að vori á Bessastöðum, en í þeim næsta er hún í opinberri heimsókn í Frakklandi. Bókin er að mestu leyti óbreytt; nýju útgáfunni fylgir formáli frá 2020, sem og nýr eftirmáli, og bókin er lítillega endurskoðuð. Mér þótti nýja kápann skemmtileg og góð áferð á bókinni.

Bókin veitir ekki einungis innsýn í veturinn 1987 til 1988 heldur er einnig stiklað á stóru um líf Vigdísar, í opinberu heimsókninni í Frakklandi er það til dæmis rifjað upp að þar hafi Vigdís lært í fjölmörg ár og fylgja í kaflanum myndir af þeim tíma. Einnig er snert á því hve sögulegt kjör hennar var, hve tæplega hún í raun og veru sigraði og hvernig embættistími hennar var frábrugðin öðrum sem á undan komu. Mér þótti til dæmis áhugavert hve umhverfismálin voru henni hugleikinn á þessum tíma, löngu áður en þau voru í brennidepli líkt og í dag. Steinunn Sigurðardóttir hefur þekkt Vigdísi frá því að hún kenndi henni frönsku í MR og ljóst er að á milli þeirra var gott samband við gerð bókarinnar og opnaði Vigdís sig um ýmis áhugaverð mál í henni og tjáir sig frjálslega um skoðanir sínar á embættinu.

Ómetanleg heimild

Ég er ennþá að lesa mig í gengum bókina og er að njóta þess að lesa hvern kafla út af fyrir sig. Ég get þó fullyrt að það er mikill fengur að þessi heimild sé til, sér í lagi fyrir þá sem ekki muna forsetatíð Vigdísar. Steinunn vann síðar heimildamyndina Vigdís forseti sem RÚV sýndi á dögunum sem er ekki síður skemmtileg til að fræðast um tíunda áratuginn á Íslandi og dagleg störf Vigdísar.

Vigdís braut svo sannarlega blað í sögunni þegar hún var kjörin forseti og hafði gríðarleg áhrif á jafnréttisbaráttuna bæði hér heima sem og um allan heim. Hún var einstök í embættinu, enda hefur engin kona gengt því síðan þá, og hlakka ég til að halda áfram að lesa bókina og kynnast ennþá betur þessari mögnuðu manneskju.

Lestu þetta næst

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....

Hvorki fugl né fiskur

Hvorki fugl né fiskur

Á dögunum las ég bókina American Wife eftir Curtis Sittenfeld sem vakti mikla athygli við útgáfu...