Fjórði þáttur Bókamerkisins, bókmenntaþáttur og samstarfsverkefni Lestrarklefans við Bókasafn Garðabæjar, fór í loftið föstudaginn 8. maí kl. 13:00 í beinu streymi. Umfjöllunarefni þáttarins að þessu sinni voru glæpasögur.

Sjöfn Hauksdóttir, bókmenntafræðingur, stjórnaði umræðum í þættinum. Hún fékk til sín góða gesti, rithöfundinn Evu Björg Ægisdóttur, sem hefur gefið út glæpasögurnar Marrið í stiganum (2018) og Stelpur sem ljúga (2019), og Sæunni Gísladóttur, penna hjá lestrarklefanum, hagfræðing og lestraráhugakonu með sérstakt dálæti á Agötu Christie.

Af hverju eru glæpasögur svona vinsælar?

Umræðan fór víða, enda af nógu að taka þegar rætt er um glæpasögur. Undirflokkar þeirra eru ótrúlega margir og mikill munur á bókum innan flokksins. Sæunn rakti sögu glæpasagnanna. Sú fyrsta sem fundist hefur í ritaðri heimild kom fram í 1001 nótt. Síðan var Edgar Allan Poe mikilvægur í að færa formið áfram, en hann skrifaði á 19. öldinni. Hann hafði áhrif á Arthur Conan Doyle, manninn á bak við Sherlock Holmes, sem við könnumst flest við. Svo reis drottning glæpasagnanna, hin eina sanna Agatha Christie, upp og tók að gefa út hverja glæpasöguna á eftir annari.

Chick-noir eða bara góð glæpasaga?

Spurningin sem erfitt er að svara er hvers vegna glæpasögur eru svona vinsælar? Sæunn bauð upp á þá skýringu að sennilega væri það vegna ótrúlegs fjölbreytileika, það má finna eitthvað fyrir alla. Það eru lögreglusögur, spæjara- og njósnasögur, hver-gerði-það, sálfræðilegar sögur, spennusögur, og svo mætti lengi telja.

Eva Björg nefndi nýlegan vöxt í glæpasögum sem fjalla um innra líf og heimilið á sterkari hátt en áður, til að mynda bækur Gillian Flynn, sem skrifaði meðal annars Gone Girl. Sjöfn benti á að það hefur verið gerð tilraun til að flokka slíkar bækur sem Chick Noir eða skvísuglæpi, líkt og bækur skrifaðar af og fyrir konur hafa verið flokkaðar sem Chick Lit. Eitthvað ósætti var með skilgreininguna, enda þykir ýmsum flokkuninn í kvenna- eða skvísu-eitthvað niðrandi. En sem bókmenntafræðingur sem hefur skoðað skvísubókaflokkinn vel finnst Sjöfn tilvalið að endurheimta hugtakið um skvísur og stelpur. En það er sennilega umræða til að taka síðar.

Íslenski krimminn

Íslenski krimminn var ræddur, en Sjöfn vildi vita hvort hann væri með einhverja ákveðna sérstöðu. Sæunn og Eva Björg voru sammála um að íslenskar glæpasögur væru nokkuð sér á báti, enda er þetta lítið samfélag með fáum morðum. Eva benti þó á að um allan heim eru litlir bæir þar sem morð eru fátíð, svo Ísland á ekki einkarétt á því formi. Einnig nefndi Eva hvernig veðrið spilar inn í sögusviðið, fáar spennubækur gerast um sumar á Íslandi, það er mikið um frost og myrkur, rigningu og snjó og vetrarhörku í sviðsetningu verkanna. Sæunni fannst húmor í því hvernig allir þekkja alla á Íslandi. “Fólk þekkir einhvern sem þekkir einhvern og maður þarf að passa hvað maður segir og hvern maður sakar um morð í litlu samfélagi”.

Klisjur

Sæunn vildi einnig vita hvort Eva Björg hefði þurft að passa sig á að lenda ekki í klisjum þegar hún skrifaði glæpasögurnar sínar. Stundum er erfitt að skilja á milli klisja og hefða, en hefðin í glæpasögunum er sterk. Eva sagðist ekki endilega hafa meðvitað passað sig á þeim, þó hún hafi vitað að aðalpersónan hennar yrði ekki rannsóknarlögga sem glýmdi við alkóhólisma, henni fannst nóg vera komið af því. Einnig lagði hún mikið upp úr raunsæum skrifum og fékk hjálp frá réttarmeinafræðingi og rannsóknarlögreglumanni við staðreyndir í bókunum sínum.

Undir lokin spurði Sjöfn hvort að viðmælendur sínir gætu mælt með einhverjum ákveðnum glæpasögum til að lesa í sumarfríinu, til dæmis á pallinum heima eða í bústaðnum.  Eva Björg nefndi bækurnar hennar Ann Cleeves og þá sérstaklega þær sem eru með persónunni Veru Stanhope, sem er miðaldra kona með áfengisvanda. Sem er skemmtileg tilbreyting frá miðaldra körlunum og ungu rannsóknarlögreglunum. Sæunn nefndi bækurnar Hún er horfin (e. Gone girl) eftir Gillian Flynn og Mín sök eftir Clare Mackintosh en einnig vildi hún sérstaklega mæla með að lesa Svartfugl, eftir Gunnar Gunnarsson en hún nefndi í upphafi þáttarins að sú bók er talinn vera fyrsta glæpasaga Íslands. Sjöfn dró fram bókina sem hún er með á náttborðinu þessa stundina, en það er Helköld sól sem er nýjasta skáldsaga Lilju Sigurðardóttir sem kom út rétt fyrir jólin. Einnig hafa margir mælt með bókunum hennar Jónínu Leósdóttur.

Næsti þáttur Bókamerkisins mun fjalla um Myndasögur og verður honum streymt miðvikudaginn 13. maí kl. 13:00 en allir þættirnir eru enn aðgengilegir á facebook síðu Lestrarklefans og Bókasafns Garðabæjar.

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....