Fyrsta bókin um Kaftein Ofurbrók eftir Dav Pilkey kom út árið 1997 í Bandaríkjunum. Það skal engan undra að bók með húmor um stífpressaðar ofurnærbrækur, óstjórnandi skólastjóra, stökkbreytt geimklósett og prump hafi slegið í gegn. Þetta er allt saman að sjálfsögðu bráðfyndið. Bækurnar slógur reyndar svo mikið í gegn að þær héldu áfram að koma út í hrönnum. Skáldverkin eru nú orðin tólf um Kaftein Ofurbrók, einnig hafa verið gefnar út fjöldi bóka sem lauslega tengjast Kafteininum og nokkrar verkefnabækur. Þetta er svo allt saman íslenskað af nokkurri samviskusemi.

Í bókunum fylgist lesandinn með Georgi og Haraldi og uppátækjum þeirra. Fyrir algjöra slysni dáleiða þeir Kára, fúllynda skólastjórann sinn, svo hann trúir því að hann sé ofurhetjan Kafteinn Ofurbrók. Kafteinninn er sögupersóna úr teiknimyndasögum strákanna. Það kemur sér þó vel að hafa einn í straufrírri brók, því vandamálin virðast elta Georg og Harald (eða skapa þeir vandræðin?) og alltaf er þörf á kröftum Kafteins Ofurbrókar.

Skáldverkin sem lifa kynslóðir

Kafteinn Ofurbrók var fyrst þýddur á íslensku árið 2003 og rétt eins og annar staðar í heiminum sló hann í gegn hjá ungum lesendum. Ég heyrði fyrst af Nærbuxnahetjunni í gegnum yngri bróður minn, sem hafði mikið dálæti á hetjunni hugumprúðu. Seinna meir áttu svo mínir eigin synir eftir að gleypa í sig hverja bókina á eftir annarri og til allrar hamingju virðist mér sem öll tólf skáldverkin hafi verið íslenskuð og nú þegar lesin hér á heimilinu.

Íslensk ólíkindaþýðing

Ein af bókunum tólf um Kaftein Ofurbrók.

Bækurnar um Kaftein Ofurbrók eru kannski ekki gáfulegustu bækurnar sem hægt er að ota að börnunum. Þær eru kjánalegar fram úr hófi, stundum er enginn þráður í sögurþræðinum eða framvinda sögunnar með svo miklum ólíkindum að það er ekki annað hægt en að hrista hausinn og andvarpa. Sem fullorðinn lesandi get ég alveg sagt að fyrsta bókin um Kafteinninn er frumleg og skemmtileg. Þegar maður hefur þó lesið nokkrar af bókunum þá er maður löngu orðinn dauðleiður á brókabröndurum. Bækurnar hafa einstakan orðaforða, sem samanstendur af nýyrðum sem þýðendurnir (Karl Ágúst Úlfarsson, Bjarni Frímann Karlsson og Bjarni Guðmarsson) hafa þurft að snara yfir á hið ástkæra og ylhýra. Í þeim bókum sem ég hef lesið hafa þó stundum verið hnökrar á orðalagi, sem auðveldlega hefði mátt bæta. Þýðendur bókanna eiga þó stórt hrós skilið að hafa komið bókunum vel til skila til íslenskra lesenda.

Bullið til bjargar!

Mikið óskaplega er ég þakklát þakklát fyrir Georg, Harald og Kára skólastjóra. Það er ekkert grín að koma krökkum til að lesa í dag. Endalaus barátta við aðra afþreyingu (tölvur, sjónvarp, síma og allt þetta) er eins og að glíma við risa. Þegar krakkinn er svo í þokkabót nýbúinn að læra að lesa, rétt farinn að geta stautað sig í gegnum lengri texta, þá er bara mikil áskorun að finna réttu bókina. Þegar ég var við það að fara að örvænta yfir því að ekkert fangaði áhuga þess nýlæsa þá kom Kafteinninn til sögunnar. Áhuginn kom þó ekki vegna þess að ég hafði af einstakri snilld otað bók að barninu – nei, áhuginn blómstraði af því drengurinn hafði séð bíómyndina og fannst hún einfaldlega bráðfyndin. Bíómyndir byggðar á bókum eru til margra hluta nytsamlegar.

Bækurnar eru skemmtilega kjánalegar, auðlesnar og ríkulega myndskreyttar með hinum sívinsælu flettibíóum (þær blaðsíður eru vanalega rifnar í bókasafnsbókunum). Það mætti eiginlega segja að Kafteinn Ofurbrók séu réttu bækurnar fyrir þá sem eiga erfitt með einbeitingu. Það er hoppað úr einu í annað og söguþráðurinn getur tekið U-beygju á hálfri blaðsíðu. Þær eru afskaplega byggðar á klisjunni sem við erum farin að þekkja um bandaríska grunnskóla. Persónurnar eru frekar grunnar og byggðar á staðalímyndum. Sem sagt – bækurnar eru alls ekki góðar. En, fjandinn hafi það, það skiptir bara ekki öllu! Barnið les! Og þegar allar Kafteinn Ofurbrók-bækurnar eru búnar þá heldur hinn ungi lesandi kannski að annarri hillu á bókasafninu (undir góðri handleiðslu bókasafnsvarðar sem leiðbeinir að næstu frábæru lesningu) og finnur næsta áhugamál. Nema krakkinn endurlesi allar bækurnar aftur – það gæti orðið vandamál.

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....