Hver einasti þáttur stutt listaverk

Á síðasta ári birti ég umfjöllun um bókina Normal People, eða Eins og fólk er flest, en á dögunum kom út þáttasería hjá BBC byggð á bókinni. Bókin er eftir hina ungu Sally Rooney sem er líklega þekktasta ungskáld heimsins.

Þættirnir fylgja Marianne og Connell frá menntaskólaárunum í smábænum Sligo til lok háskóla í Trinity College í Dublin. Í menntaskóla var Marianne vinafá og ófríð á meðan Connell var myndarlegur og vinsæll. Þau eiga það þó sameiginlegt að vera afburðagáfuð. Móðir Connells vinnur við að þrífa hús Marianne en þau eru af sitthvorri stéttinni, hann er efnalítill en hún rík. Þau eru algjörar andstæður en laðast að hvoru öðru. Þau byrja að sofa saman í laumi sem hefur slæm áhrif á þau bæði, þá sérstaklega Marianne sem er lögð í einelti í skólanum á meðan Connell þegir og lætur eins og hann þekki hana ekki.

Óheilbrigð samskipti

Þættirnir fjalla í rauninni um hversu skemmd þau bæði eru. Marianne ólst upp á ástlausu heimili, móðir hennar sýnir henni enga umhyggju og eldri bróðir hennar beitir hana líkamlegu og andlegu ofbeldi. Connell á hins vegar ástríka móður en vantar sjálfstraust og er feiminn. Þau þrá ekkert heitar en hvort annað en geta ekki verið saman þar sem brengluð samskipti þeirra stía þeim alltaf í sundur. Þau særa hvort annað til skiptis og neita að vera hreinskilin og eiga heilbrigð samskipti.

Leikarar þáttarins eru bæði stórkostleg

Bældar tilfinningar og skömm

Þættirnir eru mjög munúðarfullir og nákvæmir þegar kemur að nánum kynnum Marianne og Connells en kynlíf spilar stórt hlutverk í þáttunum. Þá sérstaklega birtingamyndir þess, hvernig Marianne byrjar að sækjast í óheilbrigða einstaklinga og verður gjörsamlega aftengd heiminum. Hún leyfir mismunandi kærustum að nota sig, vill að þeir niðurlægi sig og beiti sig ofbeldi þegar hún sefur hjá þeim. Því hún hefur ákveðið að hún eigi ekki betra skilið, hún heldur að hún eigi ekki ást skilið. Samneyti hennar við Connell er allt öðruvísi og þau segja nokkrum sinnum í þáttunum að samband þeirra sé einstakt. En Connell getur því miður ekki gefið henni ástina sem hún þarfnast þar sem hann er sjálfur svo tilfinningalega bældur. Hann skammast sín enn fyrir að vera með henni þegar þau eru komin í háskóla. Hann forðast að sýna henni ástúð á almannafæri, kemur varla nálagt henni. Þetta veldur því að þau hætta aftur saman.

Stutt listaverk

Benedikt bókaútgáfa gaf út bókina í íslenskri þýðingu haustið 2019

Þættirnir eru stuttir, rúmlega þrjátíu mínútur hver og eru þeir lágstemmdir en uppfullir af tilfinningaróti. Þeir eru teknir upp á þann hátt að myndavélin er virkilega nálægt persónunum, stundum fær áhorfandinn á tilfinninguna að hann sé of nálægt. Ég hélt jafnvel að sjónvarpið mitt væri vitlaust stillt, en nei, myndatakan er svona rosalega náin. Þetta er líklega gert til að færa áhorfandann eins nálægt persónunum og mögulega hægt er svo að hann upplifi tilfinningar persónanna í miklu návígi. Þessi myndataka í bland við snöggar klippingar ýtir undir upplifun áhorfandans. Hún endurspeglar tilfinningalegu óreiðuna sem persónurnar eru að ganga í gegnum.

Ég lifði mig gífurlega mikið inn í þættina og fann virkilega til með bæði Marianne og Connell. Ég var líka brjáluð út í þau og þoldi þau ekki fyrir að geta ekki bara talað við hvort annað, viðurkennt fyrir hvoru öðru hvað amaði að og að þau elskuðu hvort annað. Hreinskilni og góð samskipti eru alltaf lykilatriðið í samböndum. En þau byrja saman svo ung, svo skemmd af lífinu, og samfélaginu, að þau kunna ekki að láta hvort öðru líða vel, kunna ekki að vera hamingjusöm. Hver einasti þáttur er stutt listaverk, svipmynd úr lífi þessara persóna.

Bæði betra?

Nú varpa ég fram stórum spurningum, gera þættirnir bókinni góð skil? Hvort eru þættirnir eða skáldsagan betri? Þegar ég las skáldsöguna árið 2018 fannst mér hún æðisleg, ég lifði mig inn í hana en mér fannst ég nánast komast í snertingu við persónurnar þegar ég horfði á þættina. Þetta voru auðvitað tvær mjög ólíkar upplifanir, þegar ég las bókina dáðist ég að stílnum og naut þess að lesa en þegar ég horfði á þættina upplifði ég allan tilfinningaskalann. Ég var reið, sorgmæt, hamingjusöm, ég hélt svo mikið með þeim. Mér þótti vænt um þau. Ég vildi að þau finndu sig og næðu að gera hvort annað að betri manneskjum. Ég tengdist Connell og Marianne ekki jafn miklum tilfinningalegum böndum þegar ég las bókina en held því samt til streitu að bókin er virkilega góð. Persónulega finnst mér bókin og þættirnir vera sitt hvort listaverkið og er ánægð með að hafa fengið að upplifa sögu Marianne og Connels á tvo mismunandi vegu.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....