Bækur fyrir kvöldlestur í útilegu

Fyrir óralöngu síðan, þegar ég sjálf ferðaðist um landið með foreldrum mínum, var eitt árið með í ferð bókin Síðasta bærinn í dalnum (1950) eftir Loft Guðmundsson. Ég man þetta sumar sérstaklega vel. Á kvöldin, þegar við vorum öll komin ofan í svefnpoka, köld á nefinu og í ullarsokkum, það var farið að dimma örlítið úti, maður var þreyttur og útitekinn eftir ævintýri dagsins, þá var lesið. Við vorum öll með vasaljós, en það logaði bara á einu. Mamma las fyrir okkur upp úr Síðasta bænum í dalnum, kafla eftir kafla. Við systkinin höfðum reyndar verið svolítið efins um ágæti bókarinnar í byrjun, enda hundgömul bók. En jahérna hvað hún vann á. Hún las alla bókina fyrir okkur það sumarið og hvert einasta kvöld var beðið með eftirvæntingu eftir því sem gerðist næst.

Í dag man ég lítið eftir söguþræðinum, en ég man tilfinninguna sem fylgdi lestrinum. Ég man stundina sem við áttum saman sem fjölskylda. Við vorum öll spennt fyrir kvöldsögunni. Þess vegna langaði mig að tína saman nokkrar bækur sem mér finnst passa einstaklega vel til lesturs í útilegunni, þar sem öll fjölskyldan getur hlustað og jafnvel tekið þátt.

Þín eigin þjóðsaga

eftir Ævar Þór Benediktsson

Innblásturinn að Þín eigin þjóðsaga kemur úr íslenskum þjóðsögum. Hvað er betur við hæfi í íslenskri útilegu, í návígi við náttúruna og náttúruöflin? Bækur Ævars eru oftar en ekki fyndnar og spennandi í bland. Þær henta bráðvel sem fjölskyldubækur og það er hægt að skjálfa á beinunum af hræðslu saman og skellihlæja við lesturinn. Þar að auki er spennandi fyrir fjölskylduna að velja saman leiðina í gegnum bókina.

Blíðfinnur

eftir Þorvald Þorsteinsson

Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði fjórar bækur um Blíðfinn og þær voru allar gefnar út saman í stórri bók fyrir jólin 2019. Það er tilvalið að kippa hinum blíða Blíðfinni með í útileguna, lesa hana fyrir börnin í bílnum. Það ætti að vera hægt að lesa bókina hvar sem er fyrst Erna Agnes las hana í sængurlegunni.

Fyrra bindið

Múmínálfarnir

eftir Tove Jansson

Ég þreytist seint á að mæla með Múmínálfunum fyrir bæði börn og fullorðna. Jansson hafði einstakt lag á því að skrifa fyrir börn og fullorðna í senn. Þar að auki er heimspeki múmínálfanna nokkuð sem allir ættu að lifa eftir – takið lífinu með ró, gerið ráð fyrir því versta, en ekki æsa ykkur um of. Þannig er alltaf hægt að bjarga stofumublunum þótt það sé halastjarna á leiðinni.

Úlfur og Edda

eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur

Stjúpsystkinin Úlfur og Edda flækjast til goðheima og þurfa að kljást við sjálfan Loka. Það er tilvalið að lesa bækur sem gerast á vissum stöðum á landinu. Til dæmis er inngangurinn að goðheimum í gegnum jarðgöng í Skálholti. Hvað getur gert ferðina í Skálholt meira spennandi? Þar að auki verður sagan um Úlf og Eddu þróuð fyrir leikhús og þannig er hægt að halda uppi minningunni um góða útilegu í leikhúsi.

Hobbitinn

eftir JRR Tolkien

Hvers vegna ekki að demba sér í svolítið flóknari bók? Það er hvort eð er engin truflun frá sjónvarpi, tölvu eða öður ljósi á kvöldin. Það gerir það kannski auðveldara að hlusta á Hobbitann eftir Tolkien þegar ekkert annað truflar og lestur að kvöldi er það sem færir fjölskylduna saman í sameiginlegri og innilegri upplifun. Hobbitinn er frábær bók, þótt hún sé ef til vill flóknari en margar aðrar barnabækur sem eru gefnar út í dag. Sagan er þó klassísk og fjallar um ferðalag, alveg eins og þið eruð í núna.

Ronja ræningjadóttir

eftir Astrid Lindgren

Í raun er hægt að mæla með öllum bókum Astridar Lindgren, en mér dettur sérstaklega í hug að mæla með Ronju ræningjadóttur þar sem hún ákveður að lifa af landinu til að mótmæla Matthíasi. Hún kann að njóta náttúrunnar, hún Ronja. Ég þori að veðja að einhver börn eigi eftir að finna Rassálfa í einhverri gjótu ef lesið verður úr Ronju á kvöldin.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...