Sumarið er tíminn! Tíminn til þess að lesa! Margir eru eflaust komnir í sumarfrí, á leið í sumarfrí, eða að minnsta kosti að njóta auka sólarstundanna sem sumarið býður upp á. Á sumrin nýta sumir tímann til lesturs afþreyingabóka, svo sem glæpasagna, eða ástarsagna. Aðrir nýta sumarmánuðina, sér í lagi ef þeir eru í fríi, til þess að lesa bækur sem eru of langar eða þungar til lesturs á veturna þegar dagskráin getur verið ansi stíf. Áhöfn Lestrarklefans er ýmist í fríi, á leið í frí eða nýbúin í sumarfríi og ætlar að lesa alls konar bækur yfir sumarmánuðina, hér má því finna lista yfir þær bækur sem við erum með á okkar leslista!
Krimmi, nígerískar bókmenntir, ný þýðing og ljóðabók
Leslisti Sæunnar Gísladóttur
Ég er nýbyrjuð að lesa algjöran sumarkrimma, Elskuleg eiginkona mín (e. My Lovely Wife) eftir Samantha Downing og finnst hún byrja vel! Við fjölluðum nýverið um þessa bók sem Björt gaf út á dögunum. Bókinni hefur verið líkt við skáldsöguna Horfin og Dexter sjónvarpsþættina (sem einnig eru byggðir á skáldsögu), og tók Anna Margrét Björnsdóttir undir þá samlíkingu í dómnum sínum. Á leslistanum í sumar er meðal annars bókin On Black Sisters’ Street eftir nígeríska höfundinn Chika Unigwe sem fjallar um fjórar konur sem koma frá Afríkuríkjum til Brussel til að freista gæfunnar um betra líf. Þær starfa allar í rauða hverfinu og bindast þrjár af konunum sterkum böndum þegar sú fjórða er myrt. Bókin hefur hlotið góða dóma og var ég mjög ánægð að fá hana í afmælisgjöf fyrr í sumar. Ég ætla einnig að lesa Eftir endalokin (e. After the End ) eftir Clare Mackintosh, sem kom nýverið út í íslenskri þýðingu. Bókin fjallar um hjónin Max og Pip sem eru mjög samhent, þegar sonur þeirra veikist segja læknarnir að þau verði að taka ákvörðun um líf hans. Í fyrsta skipti eru þau Max og Pip ekki sammála hvaða leið skuli velja. Ég var afar hrifin af bókinni Mín Sök (e. I Let you Go) og er spennt að lesa aðra bók eftir sama höfund. Loks ætla ég að lesa ljóðabókina Erfðaskrá á útdauðu tungumáli eftir Sverri Norland. Bókin er hluti fimm bóka í bókaknippi sem AM Forlag gaf út jólin 2018 og er þetta síðasta bókin sem ég á eftir að lesa í því dásamlega safni. Ég gæti talið upp fleiri bækur sem mig langar til að lesa í sumar, en ætla að gefa mér tækifæri til þess að klára einhverjar af þessum fyrst!
Rólegar skandinavískar skáldsögur og gæða barnabækur
Leslisti Katrínar Lilju
Á sumrin reyni ég að lesa bækur sem hafa strandað á náttborðinu mínu yfir veturinn. Þær eru orðnar þó nokkrar, til dæmis sagan um Neshov-fjölskylduna eftir Önnu B. Ragde. Það eru heilar fimm bækur! Í bókaklúbbnum mínum höfum við verið að lesa rólegar skandinavískar sögur, eða skerjabækur, eins og við köllum þær. Fyrir stuttu lásum við Sumarbókina eftir Tove Jansson og ég geri fastlega ráð fyrir að ég muni lesa þá dásemd aftur áður en sumarið er allt. Bækur Roy Jacobsen, Hin ósýnilegu og Hvítt haf eru næstar til umræðu í bókaklúbbnum. Ég hef þegar lokið við fyrri bókina og er að treyna mér að byrja á seinni bókinni. Þar fyrir utan langar mig að lesa bók Guðna Líndals Benediktssonar, Leitin að Blóðey, sem ég keypti mér nýlega á kostakjörum. Þá munum við strákarnir lesa saman Tímakistuna eftir Andra Snæ Magnason á meðan við liggjum úti. Þeim fannst ævintýraleg lýsingin á bókinni mjög spennandi og mundu eftir Bláa hnettinum svo ég vona að valið verði negla. Ég hef þegar lesið þó nokkuð margar barnabækur sem hafa komið út í sumar, þar á meðal Blokkin á heimsenda, Kennarinn sem hvarf sporlaust, Kalli breytist í grameðlu, Græna geimveran og fleiri gæða barnabækur sem ég mæli heilshugar með að foreldrar og börn lesi sér til yndisauka. Sjálfri langar mig að freista þess í ágúst að komast yfir allar bækur Jenny Colgan, Sophie Kinsella og Jill Mansell. Það er bara eitthvað við sumarið sem fær mann til að langa að lesa eitthvað lauflétt og skemmtilegt, þar sem allt endar vel að lokum.
Bækur sem ég veit að ég mun lesa aftur í sumar eru líka nokkrar. Miðju strákurinn er í miðju Harry Potter æði og því er hafin endurlesning á Harry Potter og viskusteininum á meðan hann tautar fyrir munni sér hina ýmsu galdra. Yngsti strákurinn velur sér alltaf annað hvort Vinur minn vindurinn eftir Bergrúnu Írisi eða Þar sem óhemjurnar eru eftir Maurice Sendak svo ég geri ráð fyrir að lesa þær um sjö hundruð sinnum í viðbót. Sjálfri finnst mér gott að narta í ljóðin inn á milli bóka og þar eru ljóðabækurnar Innræti eftir Arndísi Þórarinsdóttur, Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson og Mislæg gatnamót eftir Þórdísi Gísladóttur í miklu uppáhaldi.
Fjölbreytileiki, framúrstefna, afþreying og fræði
Leslisti Rebekku Sifjar
Ég undirbý aldrei leslista fyrirfram heldur nota þá stórgóðu aðferð að dreifa bókum sem ég vil lesa um heimilið á áberandi staði svo ég sé alltaf að reka augun í þær. Það er stórgóður hvati til að klára bókina sem ég er að lesa nú þegar og taka upp næstu. Um þessar mundir er ég að lesa Silver Sparrow eftir Tayari Jones sem fjallar um óvenjulegt uppeldi stúlku í Bandaríkjunum en pabbi hennar er giftur tveimur konum og á tvær dætur, Dana Lynn og Chaurisse. Dana og móðir hennar eru leyndarmál en þær vita af hinni fjölskyldunni. Chaurisse og móðir hennar vita hinsvegar ekkert um fjölkvæni fjölskylduföðursins. Svo er ég byrjuð að lesa bókina Sea Monsters eftir Chloe Aridjis sem ég kippti með mér úr Eymundsson einn daginn því að mér fannst kápan svo falleg. Bókin er svolítið tyrfin og hef ég ekki enn dottið almennilega inn í hana. Sumarbók Tove Jansson er einnig á leslistanum en hana finnst mér ég verða að klára í sumar af augljósum ástæðum. Ég er nýbúin að lesa þrjár mjög ólíkar bækur, barnabókina Kennarinn sem hvarf sporlaust eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, So You Want to Talk About Race eftir Ijeoma Oluo og súrrealísku ljóðabókina Eilífðarnón eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur. Sumarlestur, að mínu mati, má vera fjölbreyttur, fræðandi og skemmtilegur. Hann má líka vera erfiður og tyrfinn, framúrstefnulegur og kaldur. Hendum öllum reglum um léttlestur og afþreyingu á sumrin bara því það er sól úti, bókmenntir fara sem betur fer aldrei í sumarfrí.
Indælar skáldsögur, furðusögur og ungmennabækur
Leslisti Kristínar Bjargar
Við hjónin erum nýkomin heim úr viku ferðalagi um Vestfirði. Á því ferðalagi uppgötvaði ég nýjung sem ég get ekki annað en mælt með og það er að hlusta á hljóðbók í bílnum. Ég hef aldrei áður hlustað á hljóðbók með einhverjum öðrum og það kom mér á óvart hversu skemmtilegt það var enda lítið mál að ýta bara á pásu ef maður nennti ekki að hlusta lengur eða vildi stoppa og spjalla um söguþráðinn. Í staðinn fyrir að keyrslan inn og út alla firðina væri langdregin þá þaut tíminn áfram. Það er ekki fræðilegur möguleiki að ég geti lesið á ferð svo í staðinn hlustuðum við á furðusöguna A Discovery of Witches. Bókin er uppfull af ráðgátum og dulúð en árið 2018 var frumsýnd þáttasería eftir bókinni. Í stoppunum nýtti ég tímann og byrjaði að lesa bókina Litla bakaríið við Strandgötu eftir skoska metsöluhöfundinn Jenny Colgan. Sú bók fer vel af stað og er bæði hugljúf og róleg. Þegar ég hef lokið við að lesa hana langar mig að byrja á Litla bókabúðin í hálöndunum sem er eftir sama höfund. Svo er ég nýlega búin að taka maraþonáhorf á Hunger Games kvikmyndirnar og langar í framhaldi af því að lesa nýjustu bókina í bókaflokknum: Danskvæði um söngfugla og slöngur. Ég er líka spennt að byrja á bókinni Sölvasaga unglings sem vann barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2016. Ég er lengi búin að ætla mér að lesa hana og læt nú verða af því. Þetta er reyndar bara hluti af bókunum sem mig langar að lesa í sumar en ég læt þetta duga í bili. Gleðilegan sumarlestur!
Skipulögð atlaga að náttborðsstaflanum
Leslisti Önnu Margrétar
Til að gera langa sögu stutta þá uppgötvaði ég Goodreads um daginn.
Hér skulum við gera smá hlé fyrir hneykslaða lestrarhesta.
Ég vissi auðvitað af síðunni, en ég hafði aldrei notað hana neitt sérstaklega. Í apríl ákvað ég hins vegar að byrja að halda utan um það sem ég er að lesa og það var um svipað leyti sem ég áttaði mig á því hversu dásamlegt það er að setja sér lestrarmarkmið. Það er nefnilega fátt sem ég elska meira heldur en góðar bækur, skipulag og að haka við hluti á lista. Það er eiginlega næstum því synd að ég skuli ekki vera Tinder-megin í lífinu, því þessi einkamálaauglýsing myndi skrifa sig sjálf.
Ég er sumsé búin að útbúa stafrænan óskalista, sem kallast á við staflann á náttborðinu (sjá mynd). Ég er hálfnuð með Skömmina hans Guðbrands Árna, mjög áhugaverða bók sem ég held að allir hafi gott af því að lesa, en ég þarf að leggja hana reglulega frá mér til að sökkva mér í eitthvað með meiri söguþræði. Þegar mig vantar léttmeti gríp ég í Mercy Thompson seríuna hennar Patriciu Briggs, sem fjallar um hamskiptinga, varúlfa og vampírur í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Ég er jafnframt nýbyrjuð að lesa Ninth House eftir Leigh Bardugo, en hún fjallar um leynifélög Yale-háskóla í Bandaríkjunum og dulræn myrkraverk sem framin eru í nafni þeirra. Ég fékk fyrst áhuga á bókinni þegar ég las eftirfarandi lýsingu: „Ég hef lýst bókinni fyrir fólki sem Harry Potter, en söguhetjurnar eru í Yale-háskóla og í stað heimavistanna fjögurra eru átta leynifélög, og Hermione er aðalsöguhetjan en hún er fyrrum eiturlyfjafíkill sem sér drauga og hlutverk hennar er að hafa eftirlit með helgisiðaathöfnum leynifélaganna.“ Sem sagt, ekkert eins og Harry Potter, en lofar allavega góðu og bókin hefur hlotið lofsamlegar undirtektir.
Inn á milli ástarsagna á borð við Tvö líf Lydiu Bird (dásamleg), og The Bookish Life of Nina Hill, hef ég einnig nýlokið við Americanah og gæti ekki mælt meira með henni. Ég bíð jafnframt spennt eftir að byrja á The Hate U Give og Girl, Woman, Other á allra næstu vikum, en báðar eru bækurnar margverðlaunaðar og eiga það sameiginlegt að vera ofarlega á flestum þeim listum sem ég hef haft til hliðsjónar fyrir eigin vitundarvakningu. Við höfum áður fjallað um mikilvægi lesturs til að stuðla að víðsýni, en rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á að lestur eykur samkennd og dregur úr fordómum. Það er mikilvægt að halda áfram að fræðast og styðja við baráttuna, ekki bara á meðan hún er að trenda, heldur til frambúðar.