Brotnir draumar sem rísa úr öskunni

Sophie Kinsella. Nafnið eitt dugir til að selja bók og þess vegna er nafn hennar sett á sem flestar bækur – sama hvort hún skrifaði þær eða ekki. Það er nær sama hvaða bók kemur út eftir hana, hún verður nær óhjákvæmilega metsölubók, þótt eflaust séu bækur hennar misgóðar eins og annara höfunda. Sophie Kinsella skrifar skvísubækur, sem í gegnum árin hafa verið litnar hornauga og jafnvel flokkaðar sem óæðri. Hún er þekktust fyrir Shopaholic-bækurnar sem komu út í seríu á árunum 2000-2019 en að mínu viti hafa aðeins tvær þeirra verið þýddar á íslensku. Umfjöllunarefnið er oftar en ekki ástir og örlög ungrar konu á aldrinum 20-30 ára. Konu sem vill ALLT! Hún vill bestu vinnuna, besta manninn, bestu vinina – ja, einfaldlega besta lífið. Og væntingarnar eru háar.

Somerset-London-Somerset

Fyrir stuttu kom út bókin Mitt ófullkomna líf eftir Kinsella í stórgóðri íslenskri þýðingu Maríönnu Clöru Lúthersdóttur. Í bókinni fylgist lesandinn með Cat/Kötu sem ákveður að finna upp nýtt sjálf þegar hún flytur til London frá bóndabýli föður síns í Somerset til að freista gæfunnar sem ímyndarhönnuður fyrir stórfyrirtæki. Cat hefur stórar hugmyndir um hvernig lífið eigi að ganga fyrir sig í London. Hún lætur sig hafa það að búa í ömurlegu leiguherbergi lengst frá vinnustaðnum sem krefst langs ferðalags í þröngum neðanjarðarlestum. Hún lætur sig hafa einsemdina, peningaleysið. Allir þessir erfiðleikar verða þess virði í framtíðinni. Hún er með plan! Hún ætlar að vinna sig upp í fyrirtækinu sem hún starfar hjá, Cooper Clemmow. Hún ætlar að heilla yfirmann sinn, hina ótillitssömu og sveimhuga Demeter. Og hún ætlar að sigra heiminn og manninn með. Öll þessi plön riðlast hjá henni þegar henni er fyrirvaralaust sagt upp vinnunni í London og hún neyðist til að snúa aftur til Somerset. Tækifærin leynast þó víða.

Þroskasaga og góð áminning

Kinsella er enginn aukvisi þegar byggja á upp skemmtilegar persónur. Það var nokkuð skemmtilegt að fylgjast með Cat/Kötu breytast í gegnum bókina. Í London er hún óörugg og lifir í gerviheimi á Instagram, öfundast út í allt og alla, en hefur þó alltaf trú á sjálfri sér og hæfileikum sínum. Það er ekki fyrr en hún snýr aftur til Somerset og nær að hrista af sér hliðarsjálfið Cat og verða Kata sem hún verður heil, sjálfsörugg, ung kona. Bókin minnir lesandann líka óþyrmilega á að það líf sem sett er inn á Instagram er sjaldnast raunveruleiki fólks. Þar leynast eingöngu glansmyndirnar.

Karlpersónur eru ekki áberandi í bókinni. Karlmenn tjá sig oftar en ekki með augngotum og undarlegum hreyfingum fremur en orðum. Í bókinni ræður kvennaheimurinn og lesandinn fær að kynnast ógrynni af skemmtilegum kvenpersónum. Lesandinn fær að heyra hugsanir og skoðanir fjölda kvenpersónar en karlarnir eru löngum þögulir fyrr en þeir allt í einu játa ást sína á aðalsögupersónunni – henni til mikillar undrunar enda löngu búin að afskrifa allt ástarsamband við „hinn eina rétta“. Það er svolítið þannig sem skvísubækur eru settar upp, rétt eins og að í glæpasögum er ódæðismaðurinn afhjúpaður fyrir lesandanum í lokin.

Afslappaðar bækur fyrir sumaryl

Ef ég ætti að gera einhverja athugasemd við bókina þá fannst mér ankannalegt að þýða nöfn sumra persóna og annarra ekki. Til dæmis stakk það mig alltaf í augun að aðalpersónan skyldi vera annars vegar Cat og hins vegar Kata.

Á sumrin vil ég lesa léttar bækur, bækur sem krefjast ekki of mikils af mér. Bækur sem ég get treyst að endi vel, sem fjalla um ástir og örlög, ungar konur að sigra heiminn og alla í kringum sig. Þess vegna kom þessi bók eftir Kinsella eins og himnasending og hún stendur mjög vel fyrir sínu sem skvísubók. Ég sinnti ekki heimilisverkum á meðan ég las bókina (og er að súpa seiðið af því þessa dagana), ég fór snemma í rúmið til að lesa, vaknaði fyrr til að lesa. Ég gerði í raun allt til að fá tíma til að lesa áfram um Kötu. Stundum er bara svo gott að lesa bók sem maður veit að endar vel.

 

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....