Föst á milli tveggja heima

Menntuð (e. Educated) eftir Töru Westower kom upprunalega út í febrúar árið 2018 og vakti strax gríðarlega athygli. Hún var meðal annars valin ein af bestu bókum ársins af New York Times en hún kom út í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal ári síðar.  

Sagan samanstendur af endurminningum höfundar. Hverfulleiki minnisins kemur oft við sögu og tekur höfundur það oft fram að sagan er skrifuð eftir því hvernig hún man atburði, með ákveðnum stuðningi frá minni systkina sinna. Þessi hverfulleiki er í raun mjög áhugaverður, sérstaklega í ljósi þess hversu oft reynt var á minni höfundar og hennar eigin sannfæringu í gegnum söguna. Það hversu auðvelt það getur verið að afbaka minni og sannfæra jafnvel sjálfan sig um að eigin tilfinningar gætu hafa verið rangar.

Bið eftir dómsdegi 

Tara segir frá uppvaxtarárum sínum við rætur fjallsins Hafurtinds, en hún fæddist árið 1986 og er yngst sjö systkina. Hún elst upp hjá foreldrum sem eru heittrúaðir mormónar. Faðir hennar er sannfærður um að nauðsynlegt sé að vera eins óháður yfirvöldum eins og hægt er á sama tíma og hann bíður eftir yfirvofandi dómsdegi. Systkinin ganga því ekki í skóla og fjölskyldan forðast alla læknisaðstoð eins og heitan eldinn. Í staðinn eiga börnin að aðstoða föður sinn í vinnu hans við að safna brotajárni eða hjálpa til við grasalækningar móður sinnar. Síðar uppgötvar Tara að faðir hennar er líklega með geðhvarfasýki sem útskýrir stöðugan og órökréttan ótta hans í garð yfirvalda og aðrar öfgakenndar skoðanir.

Sjálfssköpun og heild 

Sagan tekur meistaralega vel á togstreitu einstaklings við að skapa eigið sjálf, á sama tíma og hún er að reyna að vera ennþá hluti af fjölskyldu. Hluti af heild. Hún er einhvernveginn föst á milli tveggja heima. Hvenær er nauðsynlegt að slíta sig frá? Og er það jafn auðvelt og maður myndi halda að segja skilið við ástvini? Tara þarf að takast á við það að reyna að endurskapa sig upp á nýtt. Að fara algjörlega gegn þeirri hugmyndafræði sem hún hefur áður mótað líf sitt, trú sína og allan sjálfsskilning út frá. 

Ólík heimsmynd 

Eins og áður sagði þá finnst mér virkilega flott hvernig hún vefur inn í frásögnina pælingum um minnið og það hvernig við sjálf reynum oft að bæla ákveðnar upplifanir. Þannig verður sagan ekki einungis endurminningar heldur líka ákveðin sálfræðileg stúdía. Sagan er mjög grípandi og heldur manni allan tímann, en heimsmyndin er svo ótrúlega ólík því sem maður sjálfur hefur vanist. Það er virkilega áhugavert að sjá í sögu Töru hversu mikið hlutverk uppeldi spilar í mótun.

Saga Töru minnir óneitanlega á Glerkastalann eftir Jeanette Walsh, en samt sem áður er hún alveg sér á báti. En Walsh átti einnig stormasamt samband við föður sinn sem vildi lifa utan kerfisins. 

Það er eitthvað við það að vita að þetta eru endurminningar, að maður er að skyggnast inn í raunverulegt líf fólks sem gerir söguna áhugaverðari. Kannski er það gægjuhneigðin í manni, að fá að sjá aðeins inn um glugga nágrannans. Ég gat varla lagt hana frá mér og gleypti hana alveg í mig. 

 

 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...